Má segja börnum hvað sem er núna?

frettinGeir ÁgústssonLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Það virðist eitthvað hafa breyst í viðhorfi okkar til barna. Einu sinni átti að vernda þau, umfram allt. Vernda þau fyrir ofbeldi, klámi, misnotkun, heilaþvotti, áróðri og hvað það nú nefnist (með heiðarlegri undantekningu í tilvist jólasveins eða jólasveina og jafnvel tannálfa). Þau ættu að fá að þroskast á eigin forsendum, hljóta menntun og læra umburðarlyndi svo eitthvað sé nefnt. Læra að dæma einstaklinga á eigin verðleikum en ekki eftir einhverjum flokkunum. Eða svo hélt ég.

Þessu er kannski öfugt farið núna. Núna er einstaklingurinn ekkert nema einkenni hans. Hvaða kyn hann er eða telur sig vera. Hvaða hörundslit hann ber. Þú ert ekki maður eða kona sem kemur fram við fólk á ákveðinn hátt. Nei þú ert af tilteknu kyni með tiltekinn húðlit og afkomandi tiltekins fólks með tiltekna sögu.

Ég er þannig ekkert annað en gagnkynhneigður, hvítur, miðaldra karlmaður, og í vinnu þar að auki. Af því leiðir að ég get ekki tjáð mig um ýmislegt, svo sem réttarríkið og lagarammann og hvernig hann hefur áhrif á einhverja sem eru ekki gagnkynhneigðir, hvítir, miðaldra karlmenn, í vinnu.

En gott og vel. Ég þarf auðvitað alls ekki að tjá mig um aðstæður eins né neins nema sjálfs míns. Sem faðirs. Sem skattgreiðenda. Sem einfara að eðlisfari sem nýt þó góðs félagsskapar við hvert tækifæri.

En aldrei dytti mér í hug að raska hugarró barna minna með því að opna á heim þar sem allt er mögulegt ef maður einfaldlega fær hugdettuna. Að þau séu allt í einu af öðru kyni. Að ofbeldi sé í lagi fyrir utan aðstæður sjálfsvarnar. Að það megi stela ef manni einfaldlega langar til þess. Ég á stelpu sem hefur kallað sig strák og yrði sjálfsagt í einhverjum samfélögum gripin í viðtöl af einhverjum félags- eða kynjafræðingi sem er ekki til staðar næsta dag þegar hún kallar sig stelpu aftur, eins og eiginlega alla daga. Mikið yrði auðvelt að steikja í henni heilann í réttum aðstæðum rangs fólks.

Ég rakst á athyglisverðan texta um daginn:

Í gegnum DSM-5, sem er uppfærsla frá 2013 á greiningarviðmiðum handbókar Ameríska geðlæknafélagsins (The Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, Fifth Edition), er algengi kynama á bilinu 0,005 prósent til 0,014 prósent hjá körlum og 0,002 prósent í 0,003 prósent fyrir konur. Árið 2022 setur Pew Research það hlutfall við 5% allra ungra fullorðinna!

Hvernig stendur á þessu? Voru geðlækningar bara eitthvað bull fram til ársins 2013 og stökkbreyttust svo í hinn heilaga sannleika fljótlega eftir það? Eða var ekkert að marka þær nokkurn tímann? Eða er ekkert að marka það sem kom síðar?

Hvar eru mörkin? Þau eru önnur en áður, ég næ því. Börn rekast fyrir tilviljun á myndbönd á netinu sem óharðnaðir unglingar þurftu að ræna úr myndbandaleigum á sínum tíma. 5 ára dóttir mín dró einhvern veginn að sér f-orðið úr leikskólaumhverfi sínu. Tímarnir breytast. En að kynin gerðu það um leið eru fréttir fyrir mér. Ég hélt einhvern veginn að 0,005 prósentin væru ennþá góð og gild.

Það sem ég læri af þessu er að ég sem foreldri þarf núna að vera meira vakandi en áður. Meira spyrjandi um það efni sem börnum mínum er sýnt í leik- og grunnskóla. Vera meira á verði þegar blásið er í sérstakar átaksvikur. Sem íbúi í litlu sveitarfélagi í Danmörku hef ég ekki séð nein hættumerki ennþá en þau luma handan við hornið og ef þau láta sjá sig er mér að mæta.

Skildu eftir skilaboð