Grimm greining Úkraínustríðs

frettinPáll Vilhjálmsson, Úkraínustríðið1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Úkraínustríðið mun standa lengi enn. Hvorugur stríðsaðila er kominn nærri þolmörkum. Sjónarmið í Úkraínu er að friður verði ekki saminn nema í rústum Moskvu. Ráðandi öfl á vesturlöndum styðja harðlínumenn í Kænugarði.

Afstaðan hér að ofan kemur fram í viðtali við Anatol Lieven sem er nýkominn frá Úkraínu, hitti þar mann og annan.

Lieven er hlynntur málstað Úkraínumanna en óttast að harðlínumenn spilli þeim sigri sem þegar hefur unnist. Innrás Rússa, segir Lieven, sameinaði Úkraínumenn, jafnvel þá rússneskumælandi, sem óska einskins frekar en að tengjast vesturlöndum nánari böndum og úthýsa rússneskum áhrifum.

Vandinn liggur í orðræðunni, segir Lieven. Stjórnin í Kænugarði og ráðandi öfl í vestri vilja knýja fram rússneskan ósigur. Það er ekki raunhæft. Friðarsamningar, þar sem Rússar halda t.d. Krímskaga, eru raunsærri. En það eru nánast landráð að ræða vopnahlé í Kænugarði og á vesturlöndum.

Ef greining Lieven stenst varir stríðið á sléttum Garðaríkis mörg ár enn. Sjónarmið Rússa er að tapi þeir séu dagar móðurlandsins taldir. Fyrr grípa Rússar til kjarnorkuvopna.

Átökin í austri eru ekki um hug og hjörtu, líkt og Lieven gerir skóna. Þau hverfast um stórveldahagsmuni. Önnur lögmál gilda en í baráttu um almannahylli. Tilvist ríkja er undir. Ríki nýta sér allar bjargir áður en þau leggja upp laupana. Orðræðan, sem Lieven er tíðrætt um, kemur á eftir valdi.

Evrópa er frá lokum seinna stríðs friðsamleg. Júgóslavíu-stríðin í lok síðustu aldar eru undantekning. Vari Úkraínustríðið í áravís eru líkur að stríðsátök verði samþykkt aðferð til að leysa milliríkjadeilur. Sumarið 1917 var það ríkjandi viðhorf í Evrópu að stríð væri útvegur ef samningar sigldu í strand. Í hönd fór 30 ára kafli í sögu álfunnar sem kenna má við Verdun og Auschwitz.

Ekki vænlegar horfurnar hennar Evrópu.

Íslensk neðanmálsgrein hildarleiksins í austri er að sumir stjórnmálamenn á Fróni vilja ólmir ganga Evrópusambandinu á hönd. Ógæfan hefur aðdráttarafl.

One Comment on “Grimm greining Úkraínustríðs”

 1. Páll, ég gef nú ekki mikið fyrir skoðanir þessa Anatol Lieven.
  Þetta er nú bara forritaður breskur froðusnakkari!

  Þú talar um þolmörk beggja aðila?
  Úkraína er fyrir löngu búin að tapa þessu stríði, Úkrínskum almenningi er slátrað vegna hagsmuna Bidens stjórnarinar og skósveina þeirra þar með talið Ísland. Þessi glæpa leppstjórn kanans í Úkraínu verður brauðfædd af vopnum fram í rauðan dauðann.

  Þú segir að rússneskumælandi hluti Úkraínu vilji tengjast vesturlöndum?
  Þetta er nú bara áróðursbull í þessum breska froðusnakkara. Fólkið í austurhluta Úkraínu vill ekkert með vesturhlutan að gera búið að sitja undir þjóðernishreinsunum og morðum að hálfu Kiev stjórnarinnar kanans og NATO sem á endanum varð til þess að fólkið kaus að fylgja Rússlandi.

Skildu eftir skilaboð