Vísindi hverra?

frettinBólusetningar, Geir Ágústsson, KrossgöturLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Á veirutímum var okkur linnulaust sagt að „hlusta á vísindin“. Þau voru jú bara ein. Gildi einu hvað þau breyttust hratt. Þegar grímur fóru úr því að vera gagnslausar yfir í að vera lífsnauðsynlegar þá keyrði hin nýja lína á öllum stöðvum í öllum ríkjum og löggjafinn tók þátt með reglugerðum og sektum. Þegar sprauturnar voru tilbúnar og fóru úr því að duga áhættuhópum til að þurfa fara í alla handleggi var línan sömuleiðis lögð í öllum miðlum á öllum stundum og þeir sem voru á öðru máli úthrópaðir og áttu að enda í fangabúðum á Grímsey.

Svona virka sem sagt vísindin á veirutímum.

En þau eru ekki alltaf svona sammála og kemur stundum á óvart hversu ósammála vísindin geta verið sjálfum sér, jafnvel á meðal nágranna. Sem dæmi má taka vísindi bólusetninga barna. Á Íslandi eins og í öðrum ríkjum gefa yfirvöld út yfirlit yfir bólusetningar barna: Hvað börn eiga að vera gömul til að fá bólusetningu gegn hinu og þessu.

Er þetta yfirlit ekki eins í öllum ríkjum? Nei. Eru Norðurlöndin ekki sammála hér? Nei. Tökum dæmi.

Á Íslandi er mælst til þess að börn fari alls níu sinnum í ýmsar sprautur á aldrinum 0-14 ára. Þar á meðal er mælst til þess að sprauta fimm sinnum gegn kíghósta, og bólusett er gegn mislingum. Eingöngu stelpum er boðið upp á bólusetningu gegn HPV-veirunni.

Í Danmörku eru sprauturnar sjö talsins og enda á HPV-sprautu fyrir bæði kyn við 12 ára aldur. Fjórar sprautur eru taldar nóg gegn kíghósta.

Sjúkdómarnir sem sprautað er gegn eru nokkurn veginn þeir sömu í báðum ríkjum (þó ekki alveg) en fjöldi sprauta, aldur barna og kyn þeirra sem eiga að fá HPV-sprautuna er mismunandi. Hvernig stendur á þessu? Eru „vísindin“ eitthvað ósammála hérna, ólíkt þeim sem þrumuðu einróma yfir okkur á veirutímum? Af hverju eru aldagömul vísindi bólusetninga ekki þau sömu í öllum ríkjum – nágrannaríkjum í þokkabót – á meðan glæný vísindi veirutíma voru mjög samstillt í örum breytingum sínum á veirutímum? Gríman virkar! Sprautur virka! Hvorugt virkaði, svo því sé haldið til haga.

Mögulega er skýringa ekki að leita til vísindanna heldur yfirvalda, stórfyrirtækja og fjölmiðla á spena þeirra. Ástand ótta ríkti og við þreifuðum út í loftið eftir einhverju til að veita okkur sálarró (og aðrir fundu tækifæri til að hagnast á ástandinu). Við tókum þátt í þöggunum á röddum sem fylgdu ekki línunni enda mátti ekki raska samtakamættinum í sjálfseyðileggingunni. Þetta kom vísindum ekkert við, enda eru þau alls ekki alltaf sammála um allt þá frekar en nokkurn tímann. Það er jú eðli vísinda: Þau eru leitandi.

Danska tilgátan er sú að fjórar sprautur til 5 ára aldurs gegn kíghósta séu nóg. Íslenska tilgátan er sú að fimm sprautur til 14 ára aldurs þurfi til. Og það gerir ekkert til að hér sé ekki algjört samræmi. Köllum það vísindalegt ósamræmi, og óþarfi að reyna þagga niður í skoðunum og skoðanamun. Því ef tvö ríki geta verið sammála um að vera ósammála um bólusetningar barna þá geta tveir einstaklingar verið það líka.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 29. apríl 2023

Skildu eftir skilaboð