Stjórnarskrá átti að verja réttindi borgara

frettinGeir Ágústsson, Krossgötur, Pistlar1 Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Þegar vestræn ríki sömdu og samþykktu stjórnarskrár á sínum tíma, eftir aldalanga kúgun einvalda, prinsa, kónga, keisara og fursta, var markmiðið eitt: Að takmarka völd hins opinbera og tryggja þannig réttindi einstaklinga og samfélags þeirra. Þær voru girðing til að halda aftur af ríkisvaldinu, ekki uppskrift í beitingu þess. Með því að innleiða stjórnarskrá er hinu opinbera settar skorður og fær ekki að fara út fyrir þær nema að uppfylltum ströngum skilyrðum, eða svo vonuðu menn.

Ásetningurinn var þannig séð alveg ljómandi góður. Síðar hafa brestir komið í ljós. Hver úrskurðar í málum þar sem vafi leikur á um réttmæti aðgerða hins opinbera? Hið opinbera! Hver túlkar orð lagatexta og reglugerða í samhengi við texta stjórnarskrár? Hið opinbera! Hver ákveður hvort hið opinbera er innan eða utan marka stjórnarskrár? Hið opinbera!

Er þá eitthvað gagn í stjórnarskrá? Er einhver munur á ríkjum eins og Íslandi, Svíþjóð og Danmörku, sem eru með stjórnarskrár, og Bretlandi, sem er án slíkrar? Veirutímar hafa svarað þeirri spurningu fyrir okkur, og svarið er nei. Það sem heldur aftur af ríkisvaldinu eru almennir borgarar. Ef þeir þegja á meðan troðið er á þeim þá er troðið á þeim. Ef þeir spyrna við fótum er troðningurinn minni.

Í 73. grein stjórnarskrár lýðveldisins Ísland (lög nr. 33/1944) segir: „Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.“

Átti þetta við þegar íslensk yfirvöld bundust böndum með samfélagsmiðlum um að loka á, fela eða færa neðarlega í streymi skoðanir ýmissa lækna, vísindamanna og almennra borgara á veirutímum? Nei. Þetta ákvæði var einfaldlega hunsað.

Var veiran slíks eðlis að neyðarúrræða var þörf, eftir að ítarlegar rannsóknir á áhættuhópum, dánarlíkum, smitleiðum og forvarnaraðgerðum höfðu verið framkvæmdar vorið 2020? Nei. Slíkar rannsóknir voru einfaldlega hunsaðar svo halda mætti uppi ástandi heimsfaraldurs og ógnar að heilsu almennings.

Íslenskir fjölmiðlar lokuðu ekki á birtingar skoðanagreina en fáir þorðu að skrifa slíkar, enda var almenningi haldið í spennitreyju, og þótt birting skoðanagreina sé góðra gjalda verð þá fjölluðu fjölmiðlar aldrei um annað en eina hlið málsins: Þá sem kom fram á fjölmiðlafundum hins opinbera. Viðtöl voru drottningaviðtöl, ekki málefnaleg umræða í frjálsu samfélagi.

Nú er sem betur fer að rofa til. Ýmsir sem létu til leiðast í upphafi veirutíma hafa séð í gegnum svikin. Ekki bara svik veirutíma heldur önnur svik hins opinbera líka. Stjórnarskrárákvæðið er mögulega dauður bókstafur en þá tekur við hið raunverulega aðhald: Vakandi almenningur. Sá sem á sínum tíma krafðist stjórnarskrár en sér í dag að slíkur pappír veitir enga raunverulega vörn gegn ágangi hins opinbera og eilífa ásókn þess í friðhelgi okkar, atvinnufrelsi, tekjur og val.

Árið 1553 skrifaði ungur maður í Frakklandi í bók sinni Discours de la servitude volontaire (Umræða um sjálfviljuga ánauð) eitthvað á þessa leið: „Ákveddu að þjóna ekki lengur, og þú ert strax frjáls. Ég bið þig ekki um að leggja hendur á harðstjórann til að velta honum úr sessi, heldur einfaldlega að styðja hann ekki lengur; þá munt þú sjá hann, eins og stóra myndastyttu hvers stallur hefur verið fjarlægður, falla af eigin þunga og brotna í sundur.“

Orð í tíma töluð, og tímalaus um leið, ólíkt stjórnarskrárákvæði 73.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 3.6.2023

One Comment on “Stjórnarskrá átti að verja réttindi borgara”

  1. ,,Stjórnarskrárákvæðið er mögulega dauður bókstafur en þá tekur við hið raunverulega aðhald: Vakandi almenningur.“

    Einnig myndi löngu tímabær stjórnlagadómstóll blása lífi í hann aftur.

Skildu eftir skilaboð