Eftir Geir Ágústsson:
Þegar Kalda stríðið og Sovétríkin voru á hátindi sínum þá héldu margir í austantjaldsríkjunum að á Vesturlöndum ríkti hungursneyð og vosbúð og að margir íbúar þeirra væru að reyna flýja til Sovétríkjanna, í paradís kommúnismans, þar sem allir leggja af mörkum samkvæmt getu en uppskera samkvæmt þörfum. Sumt fólk trúði þessu. Áróðurinn var linnulaus og valkostir við hann fáir og þeir sem héldu öðru fram voru kallaðir illum nöfnum og jafnvel dæmdir fyrir glæpi.
Við brosum sjálfsagt mörg að þessu. Hvernig getur nokkur verið svona vitlaus! En það erum við.
Fjölmiðlamaðurinn Tucker Carlson, sem var nýlega rekinn frá Fox News í Bandaríkjunum fyrir að tjá óvinsælar skoðanir, hefur nú stigið fram að nýju með eigin þætti, að þessu sinni á Twitter, og búinn að gefa út sinn fyrsta þátt. Hann minnir okkur á að þetta furðulega hugarástand íbúa fyrrum Sovétríkjanna ræður nú ríkjum á Vesturlöndum. Okkur er sagt frá harðstjóra sem sprengir upp eigin innviði (rör og nú seinast stíflu) til að gera okkur taugaveikluð, af auðmanni sem dekraði við stjórnmálamenn og aðra auðmenn og hverfur svo af sjónarsviðinu án skýringa, af feluleikjum yfirvalda og ýmislegt fleira. Við fáum ekki að vita hvað stjórnvöld okkar aðhafast og látin rífast um allskyns þvælu sem skiptir í raun litlu máli. Rökræðutilbrigðum sem áður var hafnað er nú hampað.
Við létum sprauta okkur. Við erum að tæma vopnabúr og ríkissjóði í stríðsrekstur á landamærum tveggja ríkja. Við erum að taka á okkur gríðarlega skattheimtu og skerðingar á lífskjörum í nafni loftslagsbreytinga. Við erum að telja okkur í trú um að kyn homo sapiens séu ekki tvö eins og annarra spendýra heldur óendanlega mörg. Þeir sem andmæla eru samsæriskenningasmiðir, vitleysingar og jafnvel hættulegir. Þeir eiga ekki að fá að tjá sig!
En eins og sandur sem er mokað upp með sigti þá finnur tjáningin sé farveg. Stundum fer hún fram í lokuðum hópum án aðhalds. Mögulega er hægt að koma skoðun sinni á framfæri í afmörkuðum kimum umræðunnar. Einn og einn fjölmiðill sér mögulega verðmæti í öðrum skoðunum en úr munni blaðamannafulltrúa hins opinbera og stórfyrirtækja með svipaða hagsmuni. Þótt okkur sé sagt að hungursneyð flæmi Vesturlandabúa til Sovétríkjanna þá er það er ekki þar með sannleikurinn. Þetta er hollt að rifja upp, og jafnvel hollara en nokkru sinni áður.
Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is