Samfélög okkar þróast nú með ógnarhraða í átt til stafræns veruleika – veruleika þar sem líf okkar er að miklu leyti stafrænt. Í stafrænu samfélagi framtíðarinnar, að hluta í náinni framtíð, mun fólk vinna, skemmta sér, leika sér og elskast í netheimum, og jafnvel borða þrívíddarprentaðan mat.
Nýjustu skrefin í þróun gervigreindar búa okkur hægt og rólega undir að ganga enn lengra. Við skiptum ekki aðeins beinum samskiptum fólks út fyrir stafræn samskipti; við erum að skipta mannkyninu sjálfu út. Lækninum, kennaranum, þjálfaranum, sálfræðingnum, og svo mætti lengi telja, má öllum skipta út fyrir tölvur.
Er munur á raunverulegum samræðum og stafrænum samræðum? Er munur á því að eiga samræður við manneskju og við háþróaða tölvu? Ég hef í fimmtán ár rannsakað (raunveruleg) samtöl milli sjúklinga og meðferðaraðila. Það hefur sýnt mér hversu hárfín og háð líkamstjáningu raunveruleg samtöl eru. Svo dæmi sé nefnt: Þegar annar aðilinn hættir að tala byrjar hinn að jafnaði að tala innan við 0,2 sekúndum síðar – jafnvel ef fyrri aðilinn hættir í miðri setningu. Til samanburðar er viðbragðstími bílstjóra í umferðinni um það bil ein sekúnda (fimm sinnum lengri).
Í raunverulegum samræðum endurspeglar fólk stöðugt hvert annað með líkamstjáningu sinni. Andlits- og líkamsvöðvar hlustandans dragast saman á sama hátt og vöðvar þess sem talar, og sömu svæði í heilanum virkjast. Þegar fólk talar saman myndar það eins konar yfir-lífveru í sálrænum og að hluta líkamlegum skilningi. Það tengist gegnum sálrænan vef sem miðlar á ósýnilegan hátt hárfínustu tilfinningum frá einum einstaklingi til annars. Á þennan hátt myndast sjálfsprottin samkennd (nema sjálfið sé allsráðandi líkt og hjá siðblindingja).
Sérhvert raunverulegt samtal fullnægir þannig mikilvægustu og elstu þörf mannsins – tengingunni við hinn aðilann (the Other). Í stafrænum samskiptum hverfur þessi tenging vegna takmarkana tækninnar: Smávægilegar tafir í boðsendingunum, takmarkað sjónarhorn, það að sjá hinn aðilann aðeins að hluta, og þar fram eftir götunum. Einmitt af þessari ástæðu upplifum við gjarna þreytu og doða eftir langvarandi stafræn samskipti. Líkami okkar þreytist við stöðugar en árangurslausar tilraunir til að tengjast líkama hins aðilans – fyrirbæri sem sumir hafa talað um sem stafrænt þunglyndi. Það á eftir að koma í ljós hvort hægt verði að yfirvinna slíkt þunglyndi með því að skipta út raunverulegum sálfræðingi fyrir gervigreindarútgáfu af sálfræðingi.
Á síðustu öldum höfum við smátt og smátt skipt út raunverulegum félagslegum aðstæðum fyrir gerviaðstæður, gegnum iðnvæðingu og vélvæðingu vinnunnar, með tilkomu útvarps, sjónvarps, síma og internets, og þetta hefur orðið okkur dýrt. Þessi breyting er ábyrg fyrir neikvæðustu sálrænu afleiðingu Upplýsingarinnar; hún aðskilur einstaklinginn frá öðrum, aftengir hann frá félagslegu og náttúrulegu umhverfi, varpar honum á vit einangrunarinnar.
Einmanaleiki náði hámarki snemma á tuttugustu og fyrstu öldinni. Rannsóknir sem gerðar voru rétt áður en kórónukreppan upphófst sýna að allt að 40% mannkyns upplifir einmanaleika. Ástandið var orðið svo alvarlegt að árið 2018 skipaði þáverandi forsætisráðherra Breta, Theresa May, sérstakan ráðherra einmanaleikans. Mun skemmra er síðan bandaríski landlæknirinn, Vivek Murthy gaf út viðvörun um hætturnar sem af einmanaleikanum stafa og áætlun um að efla félagsleg tengsl. En við þurfum ekki að skoða tölfræði til að átta okkur á alvarleika vandamálsins. Stígum upp í lest og fylgjumst með hvernig farþegar eiga nánast engin samskipti sín á milli lengur. Hugir þeirra eru sítengdir litlum skjá – stafræna tengingin hefur tekið við af hinni mannlegu. Ef við heilsum fólki á förnum vegi – nokkuð sem áður var sjálfsögð leið til að tengjast öðrum án þess að neitt sérstakt byggi að baki – skynjar maður umsvifalaust þennan vanda og fær mögulega neikvæð viðbrögð; “hvað er þessi bjálfi að trufla mig?”
Einmanaleiki og einangrun er ekki aðeins vandamál heldur vandamál sem hefur gríðarlegar félagslegar afleiðingar. Einangraðir þegnar, aftengir öðrum, sér í lagi séu þeir undir áhrifum sterkra frásagna sem berast gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla, hneigjast til að sameinast skyndilega í nýrri tegund hóps; múgnum. Þessi tegund hópamyndunar gerir fólk algerlega ófært um að hugsa gagnrýnið um þær sögur sem því eru sagðar, en tilbúið til að fórna öllu sem það mat mikils áður, og fullt óþols gagnvart sérhverri rödd sem gengur gegn frásögninni sem múgurinn hefur sameinast um.
Múgur fyrri alda (krossferðirnar, galdraofsóknirnar o.s.frv.) var líkamlegur múgur; hópur sem myndaðist í raunheimum. En múgur okkar tíma samanstendur af einstaklingum, einangruðum í eigin stafræna heimi, sem æsast upp fyrir tilstilli massamiðlanna á grunni einsleitrar frásagnar og áróðurs. Það er þessi einmana múgur, ásamt leiðtogum hans, sem myndar grundvöllinn að lokaheilkenni skynsemishyggjusamfélagsins; alræðisríkinu. Stóra spurningin sem við sem siðmenning þurfum að svara er því þessi: Hvað getur umbreytt hinum einmana múg í samfélag í raunverulegri merkingu þess orðs – hóp þar sem einstaklingurinn tengist öðrum einstaklingum; þar sem hópurinn eyðileggur ekki einstaklinginn, en tryggir honum rými til að blómstra sem einstök mannvera.
Greinin birtist fyrst á Krossgötum.is 17. júní 2023