Eftir Þórarin Hjartarson:
Yfirstandandi heimsátök (geópólitík) og atburðir undanfarinna missera hafa fært Rússland og Úkraínu í miðju mikillar skoðunar og umræðu. Stríðið gegn Rússlandi er háð á mörgum vígstöðvum, stríð ekki bara um samtíð þessara landa heldur einnig fortíðina. Hér kemur fyrsta grein af þremur um þetta sögustríð.
Þann 23. mars sl. var tillaga borin upp á Alþingi: „Tillaga til þingsályktunar um hungursneyðina í Úkraínu (Holodomor)“. Þar segir: „Alþingi ályktar að lýsa yfir því að hungursneyðin í Úkraínu sem stóð yfir frá 1932 til 1933 hafi verið hópmorð.“ Tillagan var samþykkt samhljóða af þingheimi.
Tillaga þessi var borin upp af Diljá Mist Einarsdóttur en flutningsmenn voru 24 þingmenn úr öllum flokkum. Í greinargerð með ákyktuninni segir: „Hungursneyðin var bein afleiðing þvingaðrar stefnu Sovétríkjanna um samyrkjubúskap, auk þess sem svelti var kerfisbundið beitt sem refsingu… Markmið sovéskra stjórnvalda með sveltinu var enn fremur að bæla niður úkraínska þjóðarvitund. Úkraínumenn voru því vísvitandi sveltir í pólitískum tilgangi.“
Fjölþjóðlegt átak
Áfram segir í greinargerðinni: „Með samþykkt þessarar tillögu til þingsályktunar myndu þingmenn bregðast við ákalli Úkraínu um að ríki heimsins lýsi því yfir að Holodomor hafi verið hópmorð, en fjölmörg ríki hafa brugðist við ákallinu… Með þessu færi Holodomor á lista yfir þá ómannúðlegu alþjóðaglæpi alræðiskerfa sem útrýmdu milljónum mannslífa á fyrri hluta 20. aldar.“
Þátttakan í hinu fjölþjóðlega átaki gæti verið betri. Alls 29 lönd hafa ályktað i þessa veru, af 193 aðildarrikjum SÞ.
Alþingi tekur sérstætt skref með því að gefa ákveðna skýringu á orsökum 90 ára gamallar hungursneyðar í Úkraínu. Ég veit ekki til að nokkur íslenskur sagnfræðingur hafi fjallað um hana. Það er harla ólíkegt að alþingismenn hafi náð að setja sig inn í kringumstæður hennar. Líklega hafa margir þeirra ekki heyrt um hana áður. En þurfum við endilega að þekkja hlutina? Þetta er liður í fjölþjóðlegu átaki og er sem sagt svar við „ákalli frá Úkraínu.“ Þar er notað orðið „genocide“ um þetta hungur sem venjulega er þýtt sem „þjóðarmorð“ á íslensku. Það væri freistandi að afgreiða þetta sem merkingarlítið froðusnakk Alþingis, en því miður býr líklega meira undir.
Hér er það meginatriði að í ályktuninni og greinargerðinni er því haldið fram að þessi hungursneyð hafi verið framkölluð af stjórninni í Moskvu „vísvitandi í pólitískum tilgangi“ og að hún hafi beinst sérstaklega gegn úkraínsku þjóðinni.
Til hvers ályktar Alþingi í málinu? Það ályktar ekki um kartöfluhungrið í Írlandi 1843 -1850 eða hungursneyðina í Bengal 1943 sem hvor um sig drap milljón og milljónir. Það stendur okkur þó jafnvel nær því þar voru Bretar ábyrgir. Tilgangurinn virðist augljós: að styðja Úkraínu dagsins í dag í stríði sínu og klekkja á Rússlandi dagsins í dag. Og kynda undir almennri rússaandúð. Tilgangurinn getur varla verið neinn annar.
Það sýnir sig líka að þetta fjölþjóðlega átak snýst um fleira en hungursneyð. Það snýst líka um seinni heimsstyrjöldina og um kenninguna um „tvöfalt þjóðarmorð“, kenningu sem upprunnin er úr Austur-Evrópu eftir fall járntjaldsins en var svo nýlega samþykkt sem stefna af Evrópuþinginu. Evrópuþingið stundar söguendurskoðun og hefur ályktað að Þýskaland og Sovétríkin beri sameiginlega ábyrgð á seinni heimsstyrjöldinni. Einnig þar skulu Rússar og Sovétmenn fundnir sekir.
Alþingi tekur sér stöðu í nútímanum
Yfirlýsingin um að hungursneyðin 1932-33 hafi verið þjóðarmorð hefur tvöfaldan tilgang. Annars vegar er það svartur stimpill á sögu sósíalismans í Sovétríkjunum og orðspor sóíalismans yfirleitt. Hins vegar er það liður í yfirstandandi alþjóðlegri áróðursherferð gegn Rússlandi og orðspori Rússa í samtíð og fortíð.
Með því að lýsa yfir að hungrið 1933 hafi verið þjóðarmorð og að „Úkraínumenn voru vísvitandi sveltir í pólitískum tilgangi“ er Alþingi Íslendinga augljóslega að taka þátt í fjölþjóðlegri (fyrst og fremst vestrænni) herferð og að kynda undir Rússaandúð. Flutningsmaður þingsályktunarinnar, Diljá Mist, sagði að samþykkt hennar „sendi skýr skilaboð til Úkraínumanna sem berjast nú enn á ný gegn gegn ofríki og stríðsglæpum þjóðar sem hefur áður beitt þjóðina slíku ofbeldi“ (undirstr. mín). Misindisþjóðin Rússar pínir aðrar þjóðir. Sá þjóðernislegi stimpill er kannski helsti tilgangur slíkrar ályktunar árið 2023.
Úkraína er vígvöllur í átökum austurs og vesturs, Rússlands og NATO. Annars vegar segja menn að hættan í samtímanum stafi af sókn Rússa til vesturs, hins vegar að hún stafi af sókn NATO til austurs. Að hálfu leyti er stríðið háð með orðum, og ljóst er að mikilvægur hluti áróðursstríðsins stendur um fortíðina. Það er ástæða þess að hungursneyðin í Úkraínu 1933 er orðin þvílíkt stórpólitískt mál að ástæða þykir til að álykta um hana á Alþingi Íslendinga. Svo fellir Alþingi „samhljóða“ dóm í málinu, vitandi að með því tekur það skýra afstöðu í átökum samtímans, geopólitík.
Það er óhjákvæmilegt að skoða þessa yfirlýsingu Alþingis um þjóðarmorð í ljósi þess að Ísland er þegar þátttakandi í stríði gegn Rússlandi. Og í beinu framhaldi af henni er Ísland fyrsta land í heimi sem lokar Rússlandssendiráði sínu út af Úkraínudeilu, og hvetur aðra til að fylgja fordæminu.
„Holodomor“ gert að sagnfræði – og alþjóðlegu deilumáli
Hungursneyð skók Sovétríkin veturinn og vorið 1933. Wikipedía segir að hún hafi drepið 5,5 – 8,7 milljón manns í Sovétríkjunum og þar af 3,3 – 5 milljónir í Úkraínu. Fyrir Úkraínu var það þjóðartráma. Það er ekki umfang hungurdauðans sem helst er deilt um eftir að hann varð að sögulegu deilumáli. Sagnfræðingar dagsins í dag nefna oftast töluna 3,5 milljónir látinna í Úkraínu, m.a. svo ólikir sagnfræðingar sem Timothy Snyder og Stephan G Wheatcroft. Úkraínskir þjóðernissinnar margfalda töluna hins vegar gjarnan með tveimur og segja 7 milljónir, og hinn vestrænt sinnaði Júsjenkó Úkraínuforseti sagði í heimsókn til Bandaríkjanna 2006: Holodomor „tók 20 milljón úkraínsk líf“.
Það sem er aðalatriðið í sagnfræðinni á bak við „Holodomor“ er sú fullyrðing að hungursneyðin hafi vefið „ásetningsdráp“ og „þjóðarmorð“, vísvitandi pólitík stjórnvalda í Moskvu sem hafi beinst sérstaklega gegn Úkraínu. Á dögum Kalda stríðsins var þessi hrollvekjandi söguskýring fyrst og fremst kenning sem haldið var á loft í samfélagi útfluttra og útlægra Úkraínumanna á Vesturlöndum.
Það var breski sagnfræðingurinn Robert Conquest sem fyrstur kom með þjóðarmorðs-kenninguna inn í fagbókmenntirnar með bókinni Harvest of Sorrow 1986. Conquest var áður heimsþekktur fyrir ankommúnískt meginverk, The Great Terror frá 1968 (um „hreinsanir Stalíns“). En í seinni bókinni (Harvest of…) hélt hann því fram að hungursneyðin í Úkraínu 1932-33 hafi verið hörmungar sem „voru vísvitandi lagðar á“ fólkið. Grundvallarskýringin á hungrinu var hvað korninnheimta ríkisins hafi verið harkaleg í kjölfar samyrkjuvæðingarinnar um 1930, segir hann. Hungrið hafi ekki komið af skorti á korni heldur harkalegum kornskilakvótum til ríkisins. Conquest skrifar: „Aðallærdómurinn virðist vera sá að kommúnísk hugmyndafræði lagði til ástæðuna fyrir fordæmalausu fjöldamorði á körlum, konum og börnum.“ Aðallærdómur hans snýst um illsku kommúnismans.
Kúgun á grundvelli þjóðernis eða kúgun einnar þjóðar á annarri er reyndar ekkert aðalatriði í skýringum Conquests. Samt vitnar hann í úkraínska fræðimenn sem halda því fram að samyrkjan hafi verið lögð á úkraínsku þjóðina beinlínis til að undiroka úkraínska þjóðernishreyfingu, eitt markmið stjórnvalda í Moskvu með að koma á samyrkju hafi verið „að eyða hinum samfélagslega grundvelli undir úkraínskri þjóðernishyggju – jörð í einkaeigu“ (Harvest of Sorrow, bls. 219). Undarlegt! Samyrkjvæðingin fylgdi almennt sömu línum og á öðrum svæðum Sovétríkjanna og henni hefði þá væntanlega verið beint gegn annarri þjóðernishyggju á svæðum annarra þjóðerna. Virkar langsótt.Eftir að Úkraína varð sjálfstæð 1991 og einkum þegar hin andrússneskari öfl vesturhlutans hafa haft völd í landinu hefur kenningin um Holodomor orðið burðarbjálki í úkraínskri þjóðernishyggju og þjóðernisvitund, og verið kennd í öllum skólum. Sérstaklega eftir „Appelsínugulu byltinguna“ í Úkraínu árið 2004. Í valdatíð Viktors Júsjenkó 2005-2010 varð kenningin þungamiðja í ríkjandi þjóðbyggingarpólitík. Þá varð það meginatriði í söguskýringunni að hungrinu hefði vefið beint að Úkraínu sem þjóð. Árið 2006 samþykkti þingið í Kiev „Lög um Holodomor 1932-1933 í Úkraínu“. Í fyrstu grein laganna er slegið föstu: „Holodomor 1932-1933 var þjóðarmorð á úkraínsku þjóðinni.“ Í annarri grein segir að „opinber afneitun á Holodomor“ jafngildi „móðgun við minningu milljóna fórnarlamba Holodomor, hún er smánun á virðingu úkraínsku þjóðarinnar, og er bönnuð með lögum.“
Innan Úkraínu varð sem sagt höfnun kenningarinnar mjög sambærileg við afneitun á Helförinni á Vesturlöndum (enda er nafnið Holodomor leitt af nafninu Holocaust) og var sem sé bönnuð, aðrar túlkanir og skýringar bannaðar með lögum! Þessi lög hafa staðið síðan. Og úkraínsk þjóðernishyggja hefur stöðugt leitast við að má út skilin á milli fortíðar og nútíðar og ala á Rússaandúð. Pútín er sagður halda áfram verkum Stalíns. Í framhaldi af hinni opinberu sögutúlkun í Kiev beitti Júsjenkó og úkraínska utanríkisráðuneytið sér fyrir alþjólegu átaki um skilgreiningu á hungursneyðinni sem þjóðarmorði.
Að breyta sagnfræði í pólitík er ekki sérúkraínskt fyrirbrigði en að banna umræðu og aðrar túlkanir umræðu er vissulega gróft dæmi um beitingu sagnfræði út frá pólitísku „notagildi“ hennar. Dúman í Moskvu (þingið) brást árið 2008 við söguskýringum þeirra í Kiev með því að lýsa því yfir að hungursneyðin 1933 „uppfyllti ekki alþjóðlega skilgreiningu á þjóðarmorði“. Rétt væri að stjórnvöld í Sovétríkjunum hefðu á sínum tíma „gripið til kúgunaraðgerða til að tryggja korninnheimtuna“ en að það „eru engin sönnunargögn um að hungursneyðin hafi verið skipulögð eftir þjóðernalínum“ (sama heimild).
Hvað gerðist í Úkraínu 1932-33?
Það væri út af fyrir sig nóg að segja að Pútín sé ekki Stalín og nútíma Rússar „beri ekki ábyrgð á glæpum Stalíns“. En þar sem Alþingi Íslendinga hefur nú ályktað um 90 ára gamla atburði er meiri ástæða en ella til að spyrja aðeins nánar um umrædda hungursneyð. Það þýðir varla að spyrja Úkraínumenn þar sem efasemdir um hina opinberu skýringu varða við lög. Núverandi umræðu í Rússlandi þekki ég lítið.
Á Vesturlöndum á dögum Kalda stríðsins var umræða um Sovétríkin afar pólitísk og tvípóluð. Það þekkjum við, a.m.k. við sem erum eldri en þrevetur. Það var skiljanlegt að skýringar á sovéskri sögu mótuðust af því hvort menn höfðu samúð með sovéskum kommúnisma/sósíalisma – og sósíalisma almennt – eða ekki. Og helstu hugmyndaátök 20. aldar stóðu einmitt milli kapítalisma og sósíalisma. Sagan um samyrkjuherferðina er eitt af stóru efnunum í þeirri umræðu. Það er raunar efni þar sem andkommúnískir höfundar náðu sér oft best á strik og töldu að þvingunareðli samyrkjuvæðingarinnar sýndi hið rétta andlit sósíalismans.
Með auknu aðgengi að sovéskum heimildum, allt frá tíma Gorbatsjovs og síðar, hafa þó komið fram túlkanir sem skýra þróunina kringum 1930 meira í efnahagslegu samhengi en pólitísku. Í því samhengi hafa menn fengið út mismunandi niðurstöður um samyrkjuvæðinguna sem slíka, og skoða hungursneyðina 1933 oftast í tengslum við hana.
Eftir að Úkraína dróst verulega inn í átök alþjóðastjórnmála, eftir „appelsínugulu byltinguna“ 2004, „Maidan byltinguna“ 2014 og innrás Rússa 2022 hefur hins vegar aftur farið i vöxt að leggja einkum pólitíska og siðferðilega dóma á úkraínska sögu. Stöðutaka í sagnfræði verður stöðutaka og yfirlýsing í orðræðu samtímans.
Timothy Snyder
Árið 2010 kom út bók eftir bandarískan söguprófessor, Timothy Snyder, sem varð metsölubók (í Bandaríkjum, Þýskalandi, Póllandi), Bloodlands. Europe Between Hitler and Stalin. Hún fjallar um Sovét, Pólland og Úkraínu frá 1932 til 1945, um pólitík Hitlers-Þýskalands og Stalínstjórnarinnar á þessu tímabili, og leggur þær stjórnir mjög að jöfnu. Snyder skrifar í anda Conquests: „Við vitum eftir 20 ára umræður um sovésk skjöl að Stalín árið 1932 breytti hungursneyð samyrkjunnar í vísvitandi sveltiherferð af pólitískum ástæðum.“ (1. Kafli). Og Snyder bætti við einni þungvægri vídd í drápspólitíkinni: Stalín beindi hungurvopninu að Úkraínumönnum vegna þjóðernis þeirra. „Af þeim sem sultu voru þær u.þ.b. 3,3 milljónir íbúa Sovét-Úkraínu sem dóu 1932 og 1933 fórnarlömb meðvitaðrar drápsstefnu tengda þjóðerni.“
Snyder hefur ekki rannsakað neinar frumheimildir um hungursneyðina 1933. En hann leggur það til málanna að vitna talsvert í þjóðernissinnaða úkraínska sagnfræðinga í túlkunum sínum. Á móti hefur bókin Bloodlands átt stóran þátt í að gefa söguskoðun úkraínskra þjóðernissinna, ekki síst sögunni um hungursneyðina 1933 sem „þjóðarmorð á úkraínsku þjóðinni“ af hálfu Moskvuvaldsins, akademískt lögmæti. Snyder hefur enda verið mikið hampað í Úkraínu og m.a. þegið heimboð Zelenskys forseta.
Það er aðferð Snyders að beita sögunni í þágu nútímastjórnmála. Allt frá hernámi Krímskaga 2014 hefur hann í fjölmörgum greinum útlistað hvernig Pútín sé ógn ekki aðeins við Úkraínu heldur alla Evrópu, og að með því haldi hann áfram verki Stalíns.
Davies og Wheatcroft
Breski prófessorinn R. W. Davies hefur undanfarna ártugi verið „grand old man“ í sovéskri efnahagssögu á Vesturlöndum (dó 2021). Hann skrifaði með E. H. Carr síðustu bindin í hinu mikla History of Soviet Russia. Hann hefur skrifað m.a. sjö binda verk Industrialisation of Soviet Russia. Eitt bindið er The Years of Hunger: Soviet Agriculture 1931-1933. Meðhöfundur þess bindis er Stephen Wheatcroft, prófessor í Melbourne, en sérsvið hans er lýðfræði og manntalsfræði í Sovétríkjunum sem og landbúnaður og hungursneyðir á heimsvísu. Hann hefur þ.á.m. rannsakað sovésku samyrkjuherferðina ítarlega.
Bók Davies og Wheatcrofts er ítarlegasta einstaka verk um „kornkreppuna“ í Sovétríkjum upp úr 1930 sem enn hefur komið fram, a.m.k. á Vesturlöndum. Það er ein meginniðurstaða verksins að hungrið hafi komið af harkalegum kornskorti í landinu en ekki af því að korni hafi verið haldið frá fólki. Höfundar sjá sérstaka ástæðu til að hafna þeirri mynd sem Robert Conquest gaf af hungursneyðinni, m.a. af því hvað hún hefur haft mikil áhrif:
„Rannsókn okkar á hungursneyðinni hefur leitt okkur að niðurstöðum mjög ólíkum þeim sem Dr Conquest kemst að. Hann álítur að Stalín hafi „viljað hungursneyð“, að „Sovétforustan vildi ekki að tekist væri á við hungursneyðina á árangursríkan hátt“ og að hungursneyðin í Úkraínu væri „viljandi lögð á, sjálfrar hennar vegna“… Sagan sem birtist í okkar bók er saga af svétforustu í baráttu við vofu hungursneyðar sem að hluta til orsakaðist af eigin rangsnúinni pólitík, en sem kom óvænt og óvelkomin. Baksvið hungursneyðarinnar var ekki að landbúnaðarpólitík Sovétstjórnarinnar sprytti af hugmyndafræði bolsévíka, þó að hugmyndafræði ætti sinn þátt í henni. Landbúnaðarpólitíkin mótaðist líka af forsögu rússnesku byltinganna, reynslu borgarastríðsins, alþjóðaástandinu, óbilgjörnum aðstæðum landfræði og veðurfars og modus operandi Sovétkerfisins [hvernig það virkaði] á Stalíntímanum. Hún var mótuð af mönnum með litla formlega menntun í landbúnaði. Umfram allt var hún afleiðing af þeirri ákvörðun að iðnvæða landbúnaðarland á methraða.“ (R.W. Davies og Stephen G Wheatcroft, The Years of Hunger: Soviet Agriculture 1931-1933, bls. 441)
Í bók Davies og Wheatcroft birtist m.a.s. athugasemd neðanmáls frá R. Concuest þess efnis að það væri nú „ekki álit [hans] að Stalín hefði vísvitandi lagt á hungursneyð árið 1933. Nei. Það sem ég held fram er að með hungursneyðina yfirvofandi hefði hann getað hindrað hana.“ Um þetta skrifar Wheatcroft: „Þegar við Davies lögðum fyrir hann hin skjalföstu smáatriði um umfang kreppunnar og fjölda hinna leynilegu björgunaraðgerða sem Politbyro (framkvæmdastjórn flokksins) stóð fyrir, og þegar við stóðum á því að við værum ósammála hinni útgefnu skoðun Conquests að Stalín „vildi hungursneyð“ brást hann við með að draga úr fyrri gagnrýni.“ Þeir urðu sem sagt sammála um að hungrið hefði ekki verið viljandi framkallað, af ásetningi.
Var nóg korn til?
Meðal þeirra sem eitthvað hafa rannsakað orsakir hungursneyðarinnar 1933 hefur hin knýjandi spurning staðið um raunverulega dýpt kreppunnar, þ.e.a.s. uppskerumagnið eftir sumarið 1932. Encyclopedia Britannica endurspeglar hina ráðandi túlkun á Vesturlöndum: „Hungursneyðin var bein árás á úkraínska bændur… Að hún varð til af ásettu ráði sést á þeirri staðreynd að engar efnislegur forsendur voru fyrir hungursneyð í Úkraínu. Kornuppskera Úkraínu 1932 hafði gefið undir meðaltals afrakstur (að nokkru leyti vegna öngþveitis sem sprottið var af samyrkjuherferðinni) en það var nóg til að fæða íbúana.“
Þetta er einmitt lykilspurningin. Holodomorkenningin byggir á að uppskeran 1932 hafi verið eðlileg, svo ástæðan fyrir hungrinu hafi einfaldlega verið hin grimma korninnheimta ríkisins. En var það þannig? Stephen Wheatcroft skrifar árið 2018, (reyndar um Sovétríkin í heild):
„Hungursneyðin tengdist tveggja ára uppskerubresti, 1931 og 1932. Árið 1931 var þurrkasumar með sannanlega öfgakenndu hitastigi og lítilli úrkomu snemmsumars sem spillti skriði og fyllingu kornsins. Árið 1932 var ár þar sem líffræðileg uppskera (fyrir kornskurð) var tiltölulega eðlileg en tap í uppskeruvinnunni var yfirmáta mikið vegna raka og vætu á uppskerutímanum og hægrar framvindu uppskeruvinnunnar sem jók uppskerutapið enn stórlega… Árin 1931 og 1932 voru þær kornbirgðir sem raunverulega voru fyrir hendi hættulega litlar.“
Mark B. Tauger
Mark B. Tauger prófessor við West Virginia University er einn helsti sérfræðingur heims í hungursneyðum og hefur varið síðustu 30 árum í það að rannsaka hungursneyðir í Rússaveldi og Sovétríkjunum. Árið 1991 ritaði Tauger í Slavic Reviewgreinina „The 1932 Harvest and the Famine of 1933“
Ein mikilvæg niðurstaða Taugers þar er að opinberar sovéskar tölur áranna upp úr 1930 um uppskeru voru afskaplega ótraustar. Áætlanir um uppskeruna höfðu almenna tilhneigingu til ofmats. Korninnheimta yfirvalda byggði á þeim tölum. Og seinni tíma mat á orsökum hungursins byggir á þeim tölum líka. En Tauger gerir það ekki. Um síðara vonda árið, 1932, skrifar hann:
„Kornheimtukvótinn árið 1932, og það korn sem raunverulega safnaðist voru hvort tveggja miklu minna en nokkurt annað ár á 4. áratugnum.“ Hin slæma uppskera ársins 1931 neyddi Sovétforustuna til að lækka mjög ásetta kvóta ársins 1932: Í maí það ár gaf hún út tilskipun um lækkaðan innheimtukvóta, 18,1 milljón tonn á móti 22,4 miljónum árið áður (það var raunar þriðjungs lækkun frá settum bráðabirgðakvóta upp á 29 milljónir). Þar að auki var kornútflutningur lækkaður niður i aðeins einn þriðja útflutnings fyrra árs. (The 1932 Harvest and the Famine of 1933, 71)
Þó að kvótinn hefði verið lækkaður svona mikið gekk korninnheimtan 1932 afar illa og vantaði 10% upp á að hinn stórlækkaði kvóti heimtist. Innheimtan skilaði allt of litlu og af þeim orsökum urðu oft átök milli innheimtumanna og bænda seinni hluta ársins 1932. Innheimtuaðgerðir urðu víða sérlega harkalegar þar sem það stefndi ljóslega í að kornbirgðir yrðu hættulega litlar fyrir landið í heild.
Þennan tíma voru yfirvöld alltaf með í höndum ofmat á magni þreskjaðs korns, af því raunveruleg uppskera hafði orðið miklu minni en opinberar tölur sýndu. Þær tölur munu mikið til hafa byggt á uppskeru sem enn stóð á akrinum, fyrir kornskurð. En Tauger vísar í aðrar tölur: ársskýrslur einstakra samyrkjubúa (árið 1933 voru skýrslurnar frá um 150 þúsund íbúum), gefnar að lokinni uppskeru, sem benda til miklu minni uppskeru en opinberu tölurnar gerðu.
Tauger bendir á að hungursneyðin hafi samt alls ekki verið takmörkuð við Úkraínu árið 1933 þótt hún væri í heildina verst þar.
Svæðisbundin dánartíðni í Sovétríkjunum framan af fjórða áratug, tekin saman af TsUNKhU [sovésk „þjóðhagsstofnun“ á 4. áratug] og nýlega birt af Wheatcroft sýnir að á meðan hungursneyðin var alvarlegri í nokkrum fylkjum [oblast] Úkraínu en annars staðar var hún á engan hátt bundin við Úkraínu. Bæði þéttbylis- og dreifbýlis- dánarhlutfall ársins 1933 jókst verulega umfram árið 1932 í flestum héruðum, og í Volgulægðinni, Úralsvæðinu, Síberíu og miðlægum kornræktarhéruðum nálgaðist það eða jafnaðist á við dánarhlutfallið í Úkraínu“ (sama heimild bls. 87).
Eitt af þvi sem Snyder heldur fram í Bloodlands (bls. 41-42) er að Stalínstjórnin hafi ekki dregið úr kornútflutningi á hungurárunum 1932-33 né sent neina neyðaraðstoð á hungursvæðin. Um það hefur Tauger mjög beinar tölur: „Hin slæma uppskera 1931 og kornflutningar til hungursvæða neyddi stjórnvöld til að draga úr kornútflutningi frá 5.2 milljón tonnum 1931 í 1.73 milljón tonn 1932.“ („The Harvest of 1932 and the Famine of 1933“ bls. 88)
Niðurstaða Taugers um uppskeruna árið 1932 í Sovétríkjunum í heild er þessi: „Hin slæma uppskera ársins 1932 jók hinn alvarlega fæðuskort sem var útbreiddur í Sovétríkjunum a.m.k. frá 1931 og gerði, þrátt fyrir snöggminnkaðan kornútflutning, hungursneyð líklega ef ekki óhjákvæmilega árið 1933.“ (sama heimild, bls. 112)
Það er rétt að það var gengið mjög harkalega fram í korninnheimtu haust og vetrarbyrjun ársins 1932 (meginatriði í lýsingum t.d. Snyders). Það helgaðist að verulegu leyti af hinni afar slæmu birgðastöðu landsins í heild þetta ár, eins og hér hefur verið sýnt. Stjórnvöld höfðu auk þess takmarkaða yfirsýn og sáu seint þann alvarlega kornskort sem var raunveruleikinn. Seint og illa varð raunveruleikinn þeim ljós, sannleikurinn um of lítið heildarmagns korns, um svæðisbundinn skort og hungur í uppsiglingu.
Í nóvember var innheimtukvóti lækkaður fyrir Norður-Kákasus (þ.e.a.s. Armeníu, Aserbædjan og Georgíu) og Úkraínu. Í febrúar 1933 var farið að senda sáðkorn og martarkorn til baka þangað sem mestur skortur var, 320 þúsund tonn fóru til Úkraínu og 240 þúsund tonn til Norður Kákasus. Tveimur mánuðum síðar, í apríl, var hjálp til Úkraínu komin yfir 560 þúsund tonn af korni. (Tauger 1991, bls. 88). Líklega hefði neyðaraðstoðinni verið alveg sleppt ef stjórnvöld „vildu hungursneyð“ í Úkraínu. En hjálpin byrjaði of seint og nægði alls ekki. Bæir og sveitir í Sovétríkjunum tókust á um takmarkað kornið, bæirnir höfðu oftar betur, og það var ekki nóg til handa öllum.
Ekki ásetningshópmorð
Nú höfum við nefnt nokkrar helstu söguskýringar á umræddri hungursneyð. Það má flokka þær í tvennt. Annars vegar eru þær sem segja: það var nógur matur til en honum var haldið frá fólki, einkum Úkraínumönnum, af því stjórnvöld „vildu hungursneyð“. Hins vegar eru þær sem segja: það var matarskortur í Sovétríkjunum 1932-33, hvað sem honum olli.
Ef við skoðum fyrri flokkinn þá eru skýringarnar þar einkum tvær. a) Almenn drápslöngun kommúnista. „Kommúnísk hugmyndafræði lagði til ástæðuna fyrir fordæmalausu fjöldamorði.“ skrifar R. Conquest. b) Þjóðernislegar ofsóknir Moskvuvaldsins á hendur Úkraínumönnum. Það er hugmynd úkraínskra þjóðernissinna, hugmynd sem Alþingi Íslendinga orðar svo: „Markmið sovéskra stjórnvalda með sveltinu var enn fremur að bæla niður úkraínska þjóðarvitund.“
Sönnunargögn sem eiga að styðja hugmyndina um að stjórnvöld í Moskvu „vildu hungursneyð“ sjást mjög sjaldan í umræðunni, sem eðlilegt er því þau fyrirfinnast líklega ekki. Enda ber kenningin um „hópmorð af ásetningi“ ekki mikil einkenni sagnfræði, heldur verður hún frekar flokkuð sem pólitísk hugmynd og pólitísk fullyrðing. Annars vegar á kenningin að segja eitthvað um eðli kommúnista/kommúnisma og hins vegar um örlög einnar þjóðar sem verður fyrir illsku annarrar þjóðar/annarra þjóða.
Að hungursneyðin 1933 hafi verið verkfæri búið til til að „bæla niður úkraínska þjóðarvitund“ (úr grejnargerð með ályktun Alþingis um Holodomor) er svo órökleg hugmynd að fáum heilvita mönnum dytti slíkt í hug, af því hungur virkar alls ekki að bæla niður þjóðernis- og aðskilnaðarhreyfingu. Slík hugsun segir helst eitthvað um rökhugsun þeirra sem nota hana sem sagnfræði (enda hefur ályktun Alþingis ekkert með sagnfræði að gera heldur er Alþingi að „bregðast við ákalli Úkraínu“ sem er fjölþjóðlegt átak og geopólitík). Orsakatengsl þjóðernishreyfingar og hungursneyðar eru væntanlega þveröfug: að líta megi á þjóðernishreyfinguna að hluta til sem afleiðingu. Hungursneyðin 1933 hefur einmitt orðið helsta fóður fyrir úkraínska þjóðernishyggju (sem um leið varð heiftarlega andrússnesk og andsósíalísk). Slíkt er auðskiljanlegt þó það byggist á einhverju öðru en sagnfræði.
Við snúum okkur næst að seinni flokki söguskýringanna: Matarskorturinn í Sovétríkjunum 1932-33 var raunveruleg staðreynd. Af hverju stafaði hann? Af samyrkjuherferðinni eða einhverju öðru? Um það fjallar næsta grein.
Meginheimildir:
Timothy Snyder, Bloodlands. Europe Between Hitler and Stalin, Basic Books 2010.
Barbara M. Martin, „The Holodomor Issue in Russo-Ukrainian Relations from 1991 to 2010“
R.W. Davies og Stephen G Wheatcroft, The Years of Hunger: Soviet Agriculture 1931-1933, Macmillan 2004.
Mark B.Tauger, „The 1932 Harvest and the Famine of 1933“, Slavic Review 50:1, 1991.
Mark B. Tauger, „Natural Disaster and Human Actions in the Soviet Famine og 1932-1933“, The Carl Beck Papers, 2001.
Greinin birtist fyrst á Neistar.is 15. júní 2023
2 Comments on “„Holodomor“: Sagan notuð sem vopn”
Af því að tilraunirnar með Kommúnismann og tilbrigði hans heppnuðust svo vel hér í denn, í Sovíet, Þriðja Ríkinu, Kína og Kambódíu svo dæmi séu tekin, að þá finnst Nýkommunum í ýmsum litbrigðum á Íslandi full ástæða til að til að gera fleiri tilraunir með miðstýrt alræði.
1. Vatnsmelónurnar ( Vinstri grænir og Píratar ) vilja skattleggja samborgara sína fram í rauðann dauðann til að lækka hitann í sólinni með því að brenna minni olíu og fækka prumpandi beljum á beit. Það mun svo bæta líf þeirra lægst launuðu í landinu og gera þá hamingjusama. Minna prump, betra líf.
2. Samfylkingin og Viðreksturinn úr afturenda Sjálfstæðisflokksins, dreymir um að samfylkjast með Evrópusambandinu til að ganga inn í dauðadæmt myntbandalag sem umvafið er gjörspilltu embættismannakerfi í Brussel. Það er nefnilega svo þægilegt að láta skipa sig, á topplaunum, í rándýran kjafta og kampavínsklúbb, sem múgurinn á Íslandi greiðir svo kostnaðinn af. “You know in Iceland we say Skál”
Það er ægilegt fyrir þetta hugsjónafólk að missa af því að taka þátt í stofnun nútíma samyrkjubúskapar í Hollandi þar sem WEF-kommarnir ætla sér að þvinga uppkaup ríkisins á 3000 sveitabýlum í landinu og rækta fullt af mat með engum áburði og jú fækka prumpubeljum svo sólin hætti að bræða snjó.
3. Sjálfstæðisflokkurinn sem er orðinn fullkomlega meðvirkur/hlýðinn hinu deyjandi heimsveldi í vestri sem er alvarlega sýkt króníkapitalisma og klappar saman lófunum yfir öllu sem lyfjaiðnaðurinn og hergagnaiðnaðurinn vill að gert sé til að halda viðskiptum þeirra í fullum snúningi á kostnað okkar og afkomenda. Það er því ekki skrýtið að það hafi verið imprað á því að umtalaður flokkur breytti um nafn og nefdist einfaldlega Flokkurinn enda ekkert sjálfstætt í gjörðum þessa flokks nema sjálfstæðir flokkseigendur sem fá aldrei nóg handa sjálfum sér.
Flokkurinn getur þó í það minnsta lært af þessum lærimeisturum í vestri að prenta peninga og stunda alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi undir yfirskyni friðarbandalags.
Afglöp kommúnismans kostuðu tugmilljóna mannslífa um heim allan og murkuðu svo smán saman úr fólki framtak og sjálfsbgargarviðleitni ef ekki var verið að beita miðstýrðu valdi af stórkostlegu gáleysi eins og gerðist í Úkraínu á valdatíma Stalín. Á Íslandi höfum við fengið nasasjón af alvarlegum stjórnarafglöpum sem birtist í sóttvarnaraðgerðum þar sem óhæfum og eða spilltum embettismönnum var afhent nánast óheft alræðisvald yfir íslenskum almenningi og landamærum.
Hvað verður svo næst?
Varð hungursneyðin ekki vegna þess að bolsévíkar drápu á eins grimmilegan hátt og hugsast getur bændur, eignafólk, gagnrýnendur og annað hugsandi fólk sem mögulega hefðu getað sameinast og ógnað þeirra stöðu. Grimmdin átti að koma í veg fyrir að fólk myndi ekki Voga sér einusinni að reyna uppreisn. Stalín lét drepa Troski sem var í raun maðurinn á bak við þjóðarmorðin og þar með lauk þessum viðbjóði