Jón Magnússon skrifar:
Íslandsbanki hefur samþykkt að greiða sekt upp á 1.2 milljarða króna vegna athugunar Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands. Slík ofursekt er ekki lögð á fyrirtæki eða þá að fyrirtæki sætti sig við nema eitthvað verulegt sé að í starfseminni.
Íslandsbanki gengst við því að hafa ekki starfað í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum vegna framkvæmdar á sölu hlutabréfa í bankanum skv. margnefndu útboði. Þar komu til samskipti við þáttakendur í útboðinu auk kaupa einstakra starfsmanna á hlut í bankanum.
Æskilegt hefði verið að fá betri og fyllri upplýsingar um þessi alvarlegu brot Íslandsbanka og stjórnenda hans, en það verður sennilega látið liggja í láginni og bankinn sættir sig við að greiða meir en milljarð vegna afglapa og e.t.v. einhvers þaðan af verra.
Nú er það þannig, að þegar fyrirtæki er fundið sekt um að brjóta gróflega af sér eins og Íslandsbanki í þessu tilviki, þá er það ekki lögpersónan Íslandsbanki sem brýtur af sér heldur einstaklingar sem starfa í og/eða stjórna viðkomandi banka. Þá er stóra spurningin hvort einhver verði látinn bera ábyrgð á því að bankinn skyldi brjóta svona gróflega af sér og ekki starfa í samræmi við lög og reglur.
Af fréttum að dæma virðist engin þurfi að sæta ábyrgð og engin hafa gert neitt af sér nema lögpersónan Íslandsbanki.
Gott að vera í slíku vari ekki síst fyrir bankabófa.