Meira um börnin

frettinGuðrún Bergmann, Pistlar1 Comment

Guðrún Bergmann skrifar:

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðu um grein sem ég skrifaði í síðustu viku undir heitinu HVAÐ Á AÐ GERA BÖRNUM? Mér finnst reyndar frábært að hún skyldi vekja hörð viðbrögð, því það virðist þurfa til að fólk vakni og fari að kynna sér betur, bæði það sem fram fer innan veggja skólanna og eins það sem er að gerast í heiminum.

Eins og við var að búast var ráðist á sendiboðann eða mig, en lítið fjallað um umræðuefnið. Viðbrögð frá fólki sem ekki þorir að koma fram undir prófílmynd á Facebook hafa verið einkar áhugaverð.

Þar hefur ekki skort orðavalið. Sem betur fer er ég ekki mjög hörundsár, því ef svo væri myndi ég sennilega telja þau til niðrandi hatursorðræðu eins og gert var í þessu tilviki – og fékkst dæmt sem slíkt í Hæstarétti. Mikill er máttur móðgunarinnar.


Staðlar WHO

Ég vísaði í fyrri grein minni til staðla WHO um kynfræðslu í Evrópu, í gegnum slóð sem ég tók af síðu sem var að fjalla um þá, líkt og ég er að gera hér. Það fór fyrir brjóstið á einhverjum og ég var sökuð um að vera með falsfréttir, þótt greinilega hafi komið fram á þeirri slóð að hún væri inn á STAÐLA WHO UM KYNFRÆÐSLU. Hér er hins vegar að finna beina tilvísun inn á síðuna hjá WHO í Evrópu, þar sem STAÐLAR UM KYNFRÆÐSLU eru með nákvæmlega samhljóma texta og ég vísaði til í fyrri grein minni. Um er að ræða staðla sem skipta fræðslunni niður í nokkra aldurshópa eða frá 0-4, 4-6, 6-9, 9-12, 12-15 og 15 ára og eldri – sjá bls. 35 í stöðlum WHO.

Ég veit ekki hvort einhverjir foreldrar voru kallaðir til þegar gerð var vinnuáætlun eftir þessum stöðlum fyrir leikskóla og grunnskóla hér á landi, en á bls. 14 í stöðlum WHO, segir: að það gæti verið nytsamlegt að koma á einhvers konar samstarfi við foreldra, ekki bara til að tryggja nauðsynlegan stuðning frá þeim, heldur til að tryggja að óformlegt hlutverk foreldra myndi „passa“ við formlegt hlutverk skólans. Gerð er krafa til slíks í Austurríki. Mér er ekki kunnugt um að svo sé hér á landi.

Kynfræðsla frá unga aldri

Á bls. 34 í stöðlum WHO undir lið 1.3 er spurt hvers vegna ætti að hefja kynfræðslu fyrir fjögurra ára aldur? Á eftir fylgir skýring á því þar sem segir: Í þessari skýrslu er litið á kynfræðslu – eins og áður hefur komið fram – út frá breiðu og heildrænu sjónarhorni, byggt á skilningi þess að kynhneigð (kynferði eða kynvitund) sé jákvæður eiginleiki mannkyns. Litið er á barn sem kynveru frá fæðingu, þótt kynhneigð eða kynvitund sé á margan máta öðruvísi en hjá fullorðnum, eins og kemur fram í stöðlum WHO um kynfræðslu.

Á bls. 35 í stöðlum WHOkemur fram að kennsluefnið hafi verið flokkað í nokkur þemu almenns eðlis eins og „Mannslíkamann og þróun hans“ – „Frjósemi og æxlun“ – „Kynhneigð og tilfinningar“ – „Sambönd og lífsstíll“ – „Kynhneigð og réttindi“ – Samfélags- og menningarlega skilgreiningu á kynhneigð“.

Á bls. 38 í stöðlum WHO kemur fram að á aldursbilinu 0-4 ára þurfi að fræða/kenna börnum um ánægju og unað af því að snerta eigin líkama, sjálfsfróun í barnæsku, uppgötvun á eigin líkama og kynfærum – og að líkamleg nánd sé hluti af eðlilegu lífi allra og að hjartagæska og líkamleg nánd séu tjáningarform ástar og blíðu.

Á bls. 45 í stöðlum WHO undir aldursliðnum 9-12 ára og reyndar eitthvað víðar í STÖÐLUM UM KYNFRÆÐSLU í Evrópu er fjallað um mikilvægi þess að börn verji sitt einkasvæði og læri að segja: Já eða Nei, eftir því sem við á. Hér er að finna myndefnisem styður við þá fræðslu hér á landi.

Hver á að kenna og hvernig á að kenna?

Við vitum flest að börn á unga aldri læra yfirleitt hlutina með því að herma eftir þeim sem eldri eru. Þess vegna velti ég í fyrri grein því fyrir mér hvernig kennslan ætti að fara fram og lagði fram tvær vangaveltur um það. Eiga kennarar á öllum skólastigum að vera með sýnikennslu, á að kenna þetta verklega eða með myndböndum. 

Ég óskaði eftir því að Heilbrigðisráðherra og Mennta- og barnamálaráðherra gæfu skýringar á kennsluaðferðunum. Ég hef auk þess að birta greinina á Facebook og „tengja“ hana við nöfn viðkomandi ráðherra, sent þeim bréf með greininni í ábyrgðarpósti. Nú viku síðar hefur ekkert svar borist, en almennt ber þingmönnum og ráðuneytum skylda til að svara innan 7 daga frá móttöku bréfa, svo væntanlega heyri ég frá þeim í næstu viku.

Á bls. 42 í stöðlum WHO kemur fram að í kynfræðslu fyrir 6-9 ára eigi að fjalla um ást, það að vera ástfanginn, um hjartagæsku, kynlíf í fjölmiðlum (þar með talið á netinu), ánægju og nautn þess að snerta eigin líkama (sjálfsfróun/sjálfsörvun), rétt kynferðislegt orðaval og samræði. 

Við leit á vefnum – og reyndar víðar – fann ég ekkert kennsluefni sem tengdist ást og því að vera ástfanginn nema fyrir þá sem eldri eru. Ég fann hins vegar upplýsingar um kennsluefni fyrir börn 6-10 ára og starfsfólk, þar sem viðfangsefnið á að vera: Andleg og félagsleg vellíðan, kynfræðsla, kynheilbrigði, forvarnir, jafnrétti, seigla/þrautseigja, styrkleikar, sjálfsmynd, klám, líkamsímynd/líkamsvirðing.

Eini hlekkurinn sem fylgdi þessu kennsludæmi fjallaði um leiðbeiningar um hvernig tala ætti um klám við börn á yngsta stigi.

„Ég ætla að verða lesbía“

Ein vinkona mín sagði mér frá samtali 9 ára gamals barnabarns (stelpu) og vinkonu hennar. Þær sátu aftur í bílnum hjá henni og barnabarnið sagði: „Ég ætla að verða lesbía!“ og vinkonan svaraði: Ég ætla líka að verða lesbía en önnur vinkona mín ætlar að verða bæ-sexual!“ Þær voru alveg með þetta á hreinu enda kom í ljós að þeim hafði verið sagt í skólanum að þær þyrftu að ákveða þetta strax. Veit ekki hvort það var gert í gegnum myndband eða kom beint frá kennaranum.

Ef skoðuð eru veggspjöld sem hangið hafa uppi í sumum skólum (veit ekki hvort það er enn í öllum), virðist frekar vera ýtt undir samkynhneigð en hitt. Kannski er það hluti af ferli síðustu ára, því ef litið er um öxl nokkur ár aftur í tímann hefur varla verið framleidd sú sjónvarpssería eða kvikmynd, að ekki séu samkynhneigðir í aðalhlutverkum – og allt myndefni hefur mikið innrætingargildi.

Jafnvel í teiknimyndunum er það gert – eins og sjá má hér – en þetta er hluti af kennsluefni í grunnskólum hér á landi.

Ég fann hvergi neitt um gagnkynhneigð né um gagnkynhneigðar fjölskyldur, þótt þær séu í miklum meirihluta í heiminum. Minnihlutinn stjórnar greinilega umræðunni og kennsluefninu eins og sakir standa.

Á bls. 24 í stöðlum WHO kemur þó skýrt fram að ungbörn læra fljótt að þau séu strákar og stelpur og þróa með sér skilgreiningu á kyni sínu. Í þessum STÖÐLUM UM KYNFRÆÐSLU frá WHO rakst ég hvergi á umfjöllun um að fólk fæddist í röngum líkama, en kannski er það vegna þess að staðlarnir eru frá árinu 2010.

Ég sá hins vegar nýlega mynd sem tekin var af plakati sem hékk uppi í leikskóla, þar sem á stóð: Þú getur verið strákur Þú getur verið stelpa – eða Þú getur verið hvað sem er. Því miður fékk ég ekki eintak af myndinni svo ég get ekki deilt henni hér.

Fræðsla fyrir þau sem eldri eru

Ég er alveg sammála því að kynfræðsla í skólum sé mikilvæg, einkum ef hún er byggð á kærleiksríkri nánd, auk þess sem ekki er verra að hún fái stuðning frá foreldrum. Hins vegar finnst mér að ýmsa þætti hennar mætti byrja að kenna síðar en við fæðingu eða fyrir 4ra ára aldurinn.

Hér er að finna kennsluefni sem greinilegt er að eldri (en 4 ára) nemendur, ásamt Siggu Kling, voru þátttakendur í að gera.

Enn á ný hvet ég foreldra til að kynna sér HVAÐ er verið að kenna börnunum þeirra, svo börnin búi ekki í einni veröld og foreldrarnir í annarri. Margar sveitarstjórnir hafa gert samstarfssamning við Samtökin 78, sem hafa þróast úr því að vera samtök samkynhneigðra yfir í að vera samtök transfólks.

Svo virðist sem Hafnarfjörður hafi riðið á vaðið árið 2015 og síðan endurnýjað samning við þau árið 2022. Kynntu þér endilega hvort slíkur samingur sé í gildi í þínu sveitarfélagi og hvort rætt hafi verið við foreldra skólabarna þar, um það hvort þau séu sátt við kennsluaðferðir þeirra.

Á bls. 34 í stöðlum WHO undir lið 1.3 er spurt hvers vegna ætti að hefja kynfræðslu fyrir fjögurra ára aldur

Heimildir:  

https://www.bzga-whocc.de/en/publications/standards-for-sexuality-education/

https://menntastefna.is/tool/ad-tala-vid-born-um-klam-yngsta-stig/

https://reykjavik.is/stuttar-teiknimyndir-med-hinsegin-ivafi

https://en.wikipedia.org/wiki/Heterosexuality

https://reykjavik.is/vika6-fraedslumyndbond

https://hafnarfjordur.is/samningur-vid-samtokin-78/

One Comment on “Meira um börnin”

  1. Sjúkur og klikkaður hugsunargangur guðleysingja elur af sér sjúkt og klikkað samfélag. Og, að sjálfsögðu, leiðir það til glötunar.

Skildu eftir skilaboð