Sviðsett tilraun til valdaráns

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sviðsett tilraun til valdaráns í Rússlandi var annað tveggja enn ein roka Jev­gení Prigó­sjín stjóra Wagner-málaliða eða dýpra plott sem æðstu ráðamenn Kremlar, Pútín meðtalinn, stóðu að baki.

Prigó­sjín er ekki tvöfaldur í roðinu heldur margfaldur. Nánast frá upphafi innrásarinnar í Úkraínu hefur hann leikið andstæðing varnarmálaráðuneytisins samtímis sem Wagner-liðar skila hvað bestum árangi á vígvellinum af öllum rússneskum hersveitum. 

Sjálfur er Prigó­sjín ekki hermaður, þótt hann klæði sig upp sem slíkur. Aðrir sjá um hermennskuna en sá kjaftfori. Ekki heldur fjármagnar hann úr eigin vasa málaliðana. Til að fá hermenn fór Prigó­sjín í fangelsi Rússlands og bauð afbrotamönnum mála gegn sakaruppgjöf. Án náins samráðs við yfirvöld hefði það ekki verið hægt.

Fyrir Úkraínustríðið gerðu Wagner-liðar sig gildandi í Afríku og Sýrlandi sem verkfæri Kremlarherra. Stórveldum er þénugt að hafa á sínum snærum málaliða til aðgerða sem illa þola dagsljósið. Wagner er sem sagt hálfopinber hluti rússneska valdakerfisins.

Einn möguleiki er að valdaklíka að baki Prigó­sjín standi að baki sviðsetningunni. Tilraun til að ræna völdum er stendur yfir í hálfan annan sólarhring er hálfvelgja. Á stríðstíma er landráð dauðasök. Menn leggja eigið líf undir. 36-klukkustunda kúrekaleikur er með einhverja dagskrá aðra en að steypa af stóli ríkisstjórn Pútín.

Líklegast er að sviðsetningin hafi verið unnin í samráði við Pútín og félaga. Tilgangurinn væri að sýna rússnesku þjóðinni fram á að stríð sé dauðans alvara sem krefjist samstöðu og fórna. Til þessa er stríðið fjarlægur veruleiki þorra rússnesks almennings.   

Frá 4. júní stendur yfir sókn Úkraínuhers í Saparosíja-héraði í suðurhluta landsins. Markmiðið er að sækja suður á Krímskaga og kljúfa rússneska herinn í tvennt. Rússar hafa síðustu mánuðum byggt þrjá víglínur til varnar. Eftir þrjár vikur er Úkraínuher ekki komin yfir fyrstu og veikustu rússnesku víglínuna. Selenskí forseti viðurkennir í víkunni að sóknin gangi heldur hægt.

Á þessum þrem vikum tæpum er mannfall Úkraínuhers líklega um 12 til 15 þúsund og ógrynni hergagna fer forgörðum. Til samanburðar er mannfall Rússa frá upphafi stríðsátaka, fyrir hálfu öðru ári, um 25 þúsund. Úkraínu er að blæða út.

Þegar sókn Úkraínu rennur sitt skeið í júlí að líkindum er tækifæri fyrir Rússa að sækja fram og ná afgerandi sigrum á vígvellinum. Það mun kosta meiri mannfórnir en hingað til.

Sviðsetta valdaránstilraunin er líklegast undirbúningur Kremlarbænda á stökkbreyttu stríði.

Skildu eftir skilaboð