Páll Vilhjálmsson skrifar:
Vestræna elítan telur sjálfri sér trú um að stríðið í Úkraínu sé einkaframtak Pútín forseta Rússlands. Ef Pútín væri ekki með breiðfylkingu valdahópa í Moskvu að baki sér væri löngu búið að ryðja honum úr vegi.
Stríðið í Úkraínu snýst um öryggishagsmuni rússneska ríkisins. Úkraína sem Nató-ríki ógnar tilvist Rússlands. Tilfallandi blogg útskýrir:
Á leiðtogafundi Nató-ríkjanna í Búkarest í Rúmeníu 3. apríl 2008 var gefin út sameiginleg yfirlýsing. Í 23. lið yfirlýsingarinnar segir:
Nató fagnar vilja Úkraínu og Georgíu til samstarfs þvert á Atlantshafið og aðildar að Nató. Við samþykkjum í dag að þessi ríki verði til framtíðar aðilar að Nató.
Rússar sögðu ítrekað að Nató-aðild Úkraínu og Georgíu ógnaði öryggishagsmunum Rússlands. Á landakorti er Úkraína eins og skammbyssa beint að Moskvu. Í beinu framhaldi af Búkarestfundinum, gera Rússar innrás í Georgíu, í ágúst 2008, sem er lítið land og auðunnið rússneskum herjum.
Úkraína er landmesta land Evrópu, utan Rússlands, og enginn hægðarleikur að sigra það, eins og raun hefur orðið á. Úkraína er t.d. 70% stærra en Þýskaland að landflæmi.
Meint valdaránstilraun Jevgení Prigósjín stjóra Wagner-málaliða lauk með samningum um að hann hypjaði sig til Lúkasjenkó í Hvíta-Rússlandi. Almennt er litið á Lúkasjenkó sem vikapilt Pútín og Hvíta-Rússland sem sambandsríki Rússlands.
Tilfallandi blogg gerði því skóna í gærmorgun að meiri líkur en minni væru á að valdaránstilraunin hafi verið sviðsett, með vitund og vilja ráðamanna í Kreml. Þýskur ofursti, Roland Kather, hlynntur málstað Úkraínu, sagði í gærkvöld og það væri vel mögulegt. Bandarískur álitsgjafi segir dæmið ekki ganga upp sem alvöru tilraun til valdaráns.
Ef Jevgení Prigósjín stóð í raun og sann fyrir tilraun til valdaráns verður honum komið fyrir kattarnef í Hvíta-Rússlandi. Ekki vegna þess að Pútín er hefnigjarn maður heldur vegna öryggishagsmuna rússneska ríkisins. Það verður ekki látið viðgangast að maður með jafn mikið undir sér og Prigósjín fremji landráð fyrir opnum tjöldum og lifi í vellystingum praktuglega í bandalagsríki.
Sé aftur um að ræða hannaða atburðarás, n.k. brunaæfingu, verða dregnir lærdómar af. Katrín forsætis vekur athygli á einum . ,,Hún segir för Wagner-málaliðahópsins í átt að Moskvu hafa komið á óvart og þá sérstaklega hraðinn sem sveitirnar voru á í gegnum landið." Ef viðbúnaður við hættuástandi er slakur verður hert á. Einhverjir hausar gætu fokið, ekki endilega í bókstaflegum skilningi.
Rússnesk stjórnmálamenning býr að lifandi minningu um hrun tveggja heimsvelda, keisaradæmisins 1917 og Sovétríkjanna 1991. Ekki eru líkur á rússneska þjóðin óski eftir endurtekningu á þeim atburðum. Í hvorugu tilfellinu urðu afleiðingarnar þekkilegar.
Vestræna sjálfsblekkingin að Úkraínustríðið sé einkaframtak Pútín byrgir sýn á þá sannfæringu helstu valdahópa í Moskvu að yrði Úkraína Nató-ríki væri Rússland orðin vestræn hjálenda. Eftir 1917 og 1991 var það reynt. Í bæði skiptin sögðu Rússar „njet“.