Ertu hestur?

frettinGeir Ágústsson, KrossgöturLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Hvað ertu? Kona? Karl? Kisa? Grís? 6 ára stelpa? Ertu kannski hestur? Eða tunglið? Þetta hljómar mögulega eins og háð, en er það ekki. Þú ert auðvitað kona eða karl, nema að vera í agnarsmáu hlutmengi um núll komma núll núll eitthvað prósent fólks sem er raunverulega með líkama eins kyns en að öllu öðru leyti hitt kynið. En þú ert aldrei grís, kisa eða hestur. Ekki í raun og veru. Þér líður kannski þannig, og þarft að segja öllum frá því, á dögum leiða og athyglissýki, en í raun ertu manneskja af annaðhvort karl- eða kvenkyni.

Það er ekkert að því að líða eins og hitt og þetta. Líða eins og fituhlunki. Líða eins og þú sért ekki að ná æskilegum frama í starfi. Líða eins og misheppnuðu foreldri. Líða eins og úrhraki. Líða mögulega eins og hundi á vergangi. Líða eins og að ákveðin og áberandi förðun færi þér gleði á tilteknum degi. Líða eins og þú getir sofið að eilífu, eða vakað endalaust. Okkur líður allskonar. En það breytir í raun engu. Líkamlegur og líffræðilegur veruleiki breytist ekkert við breytingar í líðan. Við það er nákvæmlega ekkert að athuga.

Svipaða sögu má segja um viljann til að vera eitthvað. Ertu með reður en vilt frekar vera með rennu? Með píku en vilt frekar pung? Gott og vel, skurðlæknar geta aðstoðað þig. En það gerir þig ekki að einhverju öðru en þú ert. Þú krefst þess kannski að vera kölluð eða kallaður eitthvað – ert með reður en vilt láta kalla þig Rúnu, eða með pung og vilt kalla þig Perlu, og þarf þá einfaldlega að eiga við þína nánustu um að fylgja þeirri línu. Raunveruleikinn er samt raunveruleikinn. Þú ferð á kaffihús og þjónar segja „hann“ og „hún“ byggt á því sem þeir sjá, ekki á því tungutaki sem þú vilt að þeir noti en nota ekki.

Nóg um raunveruleikann. Hvað er fólk nú til dags að hamra í hausinn á skólabörnum? Víða er það sem betur fer raunveruleikinn en á því finnast undantekningar. Sem dæmi má nefna að í breska skólakerfinu finnst dæmi um að börn megi kalla sig hest og krefjast þess að aðrir taki tillit til þess. Er það skiljanlegt? Kannski viðkomandi hlaupi hratt með þungar byrðar á bakinu? Þá versnar það. Þú getur líka skilgreint þig sem tunglið, eða risaeðlu, og fá þá bæði stjarn- og fornleifafræðingar gersemar í fangið enda hefur hingað til verið erfitt fyrir þá að rannsaka viðfangsefni sín.

Þessi þvæla þarf að enda, að sjálfsögðu. Það er engum gerður greiði með því að búa til samfélag manna sem er samfélag risaeðla, tungla og hesta í mannsmynd. Með því er ekki verið að útrýma fordómum og stuðla að virðingu heldur hið öfuga – stuðla að fordómum og skautun. Við viljum öll friðsælt samfélag þar sem einstaklingar eru metnir að verðleikum, umbornir óháð líkamlegum og andlegum séreinkennum og gefið færi á að sanna sig í hverju sem er, á jafnréttisgrundvelli.

Við erum ekki þar, því sum okkar eru hestar eða 6 ára stelpur í gervi fullorðins karlmanns. Á meðan við erum ekki það sem við erum í raun þá er engin leið að búa til samfélag gagnkvæmrar virðingar, umburðarlyndis og mannúðar. Ekki vera hestur. Vertu það sem þú ert.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 24.6.2023

Skildu eftir skilaboð