Fangar hins röndótta fána

frettinInnlent, Pistlar1 Comment

Kristján Hreinsson skrifar:

Er ég með fordóma gegn trans fólki ef ég segi að íslenskunni þurfi ekki að breyta? Er ég með fordóma gegn hinsegin fólki ef ég spyr að því hvort allir þessir regnbogafánar séu nauðsynlegir? Er ég með fordóma gegn einhverjum ef ég segi að orðið ,,maður" sé frábært orð? Er ég með fordóma ef ég gagnrýni fólk sem vill breyta tungumálinu í sína þágu? Er ég fordómafullur ef mér finnst umræða um kynhlutlaus orð vera hreinasta bull?

Enn er fólk að saka mig um að ráðast gegn mönnum sem flokka sig sem trans eða hinsegin. Hið rétta er að ég hef aldrei notað svo mikið sem eina setningu gegn þessum mönnum. Ég hef spurt spurninga og velt því fyrir mér hvernig getur staðið á því að hópur sem kannski nær að mælast sem 1 eða 2 prósent þjóðar setur sig í eldlínu og gerir kröfur um að tungumálinu verði breytt. Mér dettur helst í hug að spyrja: Fyrir hverju eru hinsegin menn að berjast? Ég hef ekki fengið nein svör við því hver baráttumálin eiginlega eru. Ja, ekki nema það atriði sem snýr að tungumálinu, það verður að breyta íslenskunni vegna þess að hún fellur víst ekki að hugsun þessa hóps. Ég held að obbinn stæði á öndinni ef rafvirkjar gerðu þá kröfu að við töluðum meira um riðstraum, þriggja fasa rafmagn, skammhlaup eða túrbínur. Samfélagið færi á hliðina ef þeir skreyttu öll stræti með fána Rafiðnaðarsambandsins, sem reyndar er ekkert svo svakalega ólíkur rimlafánanum.

Mér dettur einna helst í hug að merkasta baráttumál þeirra sem segjast vera að standa í réttindabaráttu vegna kyns í ýmsum skilningi, sé að pirra sem flesta, fá sem flesta upp á móti sér. Þetta keppikefli virðist augljóst þegar það er skoðað að ef einhverjum dirfist að tala um stefnumálin, þá er hinn sami sagður vera með óhróður og hatursáróður. Ef ég spyr hver baráttumálin séu, þá fæ ég svör eins og: „Þú ert skíthæll.“ „Þú ert risaeðla.“ „Þú ert með transfóbíu.“ „Þú ert uppskafningur.“

Ég hugsa hlýtt til allra manna en kann því ekki vel að vera dæmdur til að sitja sem fangi rimlafánans fyrir það eitt að gefa hugsunum mínum mátt í formi orða. Vel má vera að ég sé forn í hugsun og vilji ekki breyta tungumálinu til þess að þjóna duttlungum og í þágu brogaðrar rétthugsunar. Af þessum sökum spyr ég: Hver eru helstu baráttumál þeirra manna sem flagga regnbogafána?

One Comment on “Fangar hins röndótta fána”

  1. Það eru allt of margir minnihlutahópar undir regnbogafánanum. Vandamálið er að ef gangrýni á einn hóp eða hluta að þvi sem hópurinn gerir verður ósjálfrátt gagnrýni á alla undir fánanum. Í dag ef einhver gagnrýnir til dæmis kynlaus orð yfir afa og ömmu þá verða hommar lesbíur og transfólk móðgað þó ekki sé verið að gagnrýna þau og umræðan mögulega kæfð undir yfirskriftinni hatursorðræða gegn hinsegin samfélaginu.

Skildu eftir skilaboð