Svolítil frétt frá Spáni segir að lögreglan þar á bæ hafi nú stöðva framleiðslu og sölu á fölsuðum prófskírteinum. Fyrir nokkur hundruð evrur hefur mörgum tekist að verða sér úti um skírteini og fá vinnu í kjölfarið og unnið við hana svo árum skiptir, eða eins og segir í fréttinni:
Elsta prófskírteinið var keypt árið 2013 og viðkomandi hafði starfað við fagið sem háskólaskírteinið hljóðaði upp á allar götur síðan.
Auðvitað er slæmt að falsa og starfa á fölsuðum forsendum en hversu mikils virði eru ýmis ekta prófskírteini? Mörg slík eru sennilega einskis virði og hafa verið hrein tíma- og peningasóun fyrir alla sem komu að framleiðslu þeirra. Fólk með pappír úr morgunkornskassa er að taka störf frá þeim með ekta pappír og sinna þeim svo árum skiptir án þess að nokkurn gruni neitt.
Mögulega er að einhverju leyti við fyrirtæki að sakast. Þau eru að gera kröfur um hinn og þennan ónauðsynlegan pappír til einfalda sér ráðningaferli og fækka umsækjendum. Mörg fyrirtæki hafa sem betur fer áttað sig á því að þannig er lokað á mikla hæfileika, en það virðist ennþá vera undantekningin.
Auðvitað þarf menntun til að sinna ákveðnum störfum. Raunverulega menntun. En ekki alltaf. Af hverju er til dæmis kostur að listrænn ráðunautur við Þjóðleikhúsið sé með háskólamenntun? Ég hefði haldið að listrænna ráðunautur, með alla sína skapandi hæfileika og óþol fyrir föstum formum, ætti jafnvel að vera algjörlega án formlegrar menntunar.
Er allt þetta daður við háskólapappíra hreinræktað snobb? Eða telja margir að þeir sem hafa klárað háskólanám hafi sýnt getuna til að fylgjast aðeins með og hafi lært að taka glósur, en að innihald námsins sé aukaatriði?
Margt af duglegasta fólkinu sem ég þekki er án háskólagráðu. Háskólagráða í ýmsum fögum er algjörlega verðlaus pappír - ódýrari í raun en þær nokkur hundruð evrur sem útsjónarsamir einstaklingar hafa eytt í falsaðan pappír. Kannski að góð atvinnuauglýsing sé stundum sú sem beinlínis bannar háskólamenntuðum að sækja um? Nema auðvitað að þeir lofi því að þeir hafi hrist af sér allan heilaþvottinn.