Markaðstorg hugmynda nýtur ekki sömu verndar og markaðstorg viðskipta

frettinErlent, Jón Magnússon, Tjáningarfrelsi1 Comment

Jón Magnússon skrifar:

Í síðustu viku var bankareikningi enska stjórnmála- og fréttamannsins Nigel Farage lokað fyrirvaralaust. Ekki vegna þess að Farage væri vondur kúnni heldur vegna skoðana hans. 

Farage hefur talað gegn m.a.Brexit og innflytjendastefnunni en var látinn afskiptalaus þó mörg skoðanasystkini hans hefðu verið beitt sömu afarkostum og Farage núna. 

Farage varð það á að gera athugasemd við fánaborg regnbogafánans þegar hann kom í bankann og spurði hvort bankinn væri til í að flagga fána annarra lífsskoðunarhópa. Afleiðingin að lokað var á hann og hann nýtur ekki þess, að hafa bankareikning, kredít eða debetkort. 

Þó ástandið sé óvenju slæmt í Bretlandi þar sem bankareikningum þúsunda einstaklinga hefur verið lokað vegna skoðana sem ekki eru þóknanlegar bankastjórnendum, þó hvorki væri um refsiverða hluti að ræða eða dónaskap.

Hér heima förum við heldur ekki varhluta af þeim ofstopa og fasisma, sem viðhafður er gagnvart tjáningarfrelsinu. Kennari á Akureyri var rekinn úr starfi fyrir að vísa í Biblíuna og kennari í Háskólanum í Reykjavík var rekinn fyrir að tjá sig um konur á lokuðum þræði á fésbók þó þar væri ekki um neinn dónaskap að ræða. Fólk sem hafnaði skoðunum stjórnvalda, fjölmiðlaelítunnar og þríeykisis vegna Kóvíd varð líka fyrir búsifjum. 

Málið er grafalvarlegt. Opin frjáls umræða er forsenda eðlilegra tjá- og skoðanaskipta og þess, að markaðstorg hugmyndanna starfi með eðlilegum hætti. Við erum með samkeppnislög sem vísa til viðskipta með vöru og þjónustu, þar sem margvíslegir hlutir eru bannaðir til að tryggja að samkeppnisþjóðfélagið virki sem best fyrir neytendur og þjóðfélagið. 

Varðandi markaðstorg hugmyndanna, þá skortir á, að samskonar löggjöf verði sett, sem tryggir í auknum mæli að fólk geti sagt skoðun sína án þess að verða svipt borgaralegum réttindum. Stjórnvöld verða að bregðast við því af fullum þunga með því að setja löggjöf sem ver einstaklinginn gegn aðsókn, réttinda- og stöðumissi vegna skoðana sinna. 

Tjáningarfrelsi er stjórnarskrárvarinn réttur, en við setningu þess ákvæðis hvarflaði sjálfsagt ekki að neinum að viðskiptaaðilar mundu fara að beita ritskoðun að geðþótta og banna viðskipti við fólk með "rangar" skoðanir að þeirra mati. 

Í Bretlandi urðu samtök um tjáningarfrelsi fyrir því að Pay pal aðgangi og bankareikningum  var lokað vegna gagnrýni á Kóvíd ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, sem síðar reyndust rangar. Þeir sem tala um "móður" í stað þess að segja einstaklingur sem hefur fætt barn, í stórri hættu af því að nota á pólitískt rétt mál, sem og þeir sem amast út í karla sem skilgreina sig sem konur og nota klósett og búningsklefa kvenna. 

Breska ríkisstjórnin hefur brugðist við og fordæmt sjálftöku fjármálastofnana við að eyðileggja tjáningarfrelsi þeirra sem hafa aðrar skoðanir en stjórnendur peningaveldisins þ.e. varðandi transhugmyndafræðina, Kóvíd, loftslagsmál, innflytjendamál og múslima, en í umræðu um þessi mál verður fólk að tipla á tánum svo að það missi ekki borgaraleg réttindi þvert á stjórnarskrárvarinn rétt til tjáningar.

Í þessu sambandi hefur verið tekið fram af hálfu fjármálaráðuneytis Bretlands af gefnu tilefni: 

 "Banks and payment providers occupy a privileged place in society and it would be a concern if financial services were being denied to those exercising the right to lawful free speech.” “As a minimum, it is the government’s view that, without deviation, a notice-period and fair and open communication with a customer must apply in situations which relate to termination on grounds other than suspected or actual criminal offences or when otherwise allowed by law.”

Gott væri ef ríkisstjórn Íslands tjáði sig með sama hætti til varnar tjáningarfrelsinu. 

Þvert á móti leggur forsætisráðherra til að vegið verði enn frekar að tjáningarfrelsinu og fólk sett í menntun og endurmenntun til að læra hvað má segja og hvað ekki að hætti kínverskra kommúnista. 

Fallist Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur á fyrirætlanir forsætisráðherra um kommúníska endurmenntun opinberra starfsmanna o.fl. um hvað má segja og hvað ekki, þá fordjarfa þeir tilveru sinni sem flokkar sem eiga að gæta að borgaralegum réttindum fólks og standa vörð um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. En það er ekki nóg að hafna hugmyndafræði forsætisráðherra. Meira þarf, til að vernda raunverulegt tjáningarfrelsi í landinu. 

One Comment on “Markaðstorg hugmynda nýtur ekki sömu verndar og markaðstorg viðskipta”

  1. Það hefur lengi legið ljóst fyrir að Jón Magnússon er ekki beittasti hnífurinn í skúfunni, en hafi einhver efast það staðfestir hann það hér með þessari þvælugrein. Reikningi Nigel Farage hjá Coutts bakna var ekki lokað vegna skoðana hans heldur vegna þess að hann var lélegur viðskiptavinur: Hann stóðst nefnilega ekki kröfur bankans um inneign og veltu.

Skildu eftir skilaboð