Umboðsmaður Alþingis hefur gefið út álit á barnabanni við gosstöðvar í Meradölum á síðasta ári. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum setti reglur sem meinuðu börnum undir 12 ára aldri að fara á gosstöðvarnar.
Lögreglustjóranum var ekki heimilt að setja ótímabundið bann við því að börn færu að gosstöðvunum í Meradölum, í ágúst 2022, án þess að finna banninu annan lagagrundvöll til lengri tíma, segir í áliti umboðsmanns.
Í áliti sínu fjallar umboðsmaður um almennar reglur um ferðafrelsi og takmarkanir þess, heimild laga um almannavarnir til að takmarka það og gildistíma bannsins. Minnt er á að íþyngjandi ráðstafanir stjórnvalda verði almennt að eiga sér stoð í lögum. Þegar þær skerði grundvallarréttindi, sem sérstaklega eru varin af stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum, beri að gera ríkari kröfur en ella til skýrleika lagaheimildar og hvernig henni sé beitt. Umboðsmaður taldi að ráðstafanir stjórnvalda sem ætlað væri að bregðast við yfirvofandi hættu gætu að jafnaði ekki verið til ótiltekins tíma. Barnabanninu hafi ekki verið markaður sérstakur gildistími og því hafi það, í ljósi þess tíma sem leið frá því að tilkynnt var um það opinberlega þar til það var látið niður falla, ekki samræmst sjónarmiðum sem áttu við um heimild lögreglustjórans til að takmarka ferðafrelsi að gosstöðvum.
Mæltist umboðsmaður til að lögreglustjórinn hefði sjónarmiðin í álitinu framvegis í huga og sendi dómsmálaráðuneytinu það jafnframt til upplýsingar. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum brást skjótt við og tilkynnti þegar að sjónarmið umboðsmanns yrðu eftirleiðis höfð í huga.
Álit umboðsmanns má lesa hér.
One Comment on “Lögreglustjóra var ekki heimilt að banna börn við gosstöðvar í Meradölum”
Ég er sammála lögreglustjóranum á Suðurnesjum, hann hefði átt að setja bann við öllum mannaferðum nálægt gosstöðvunum nema ferðum vísindamannna.
Að það hafi liðist að björgunasveitin hafi verið notuð eins og gæsla á útihátið er nátturulega til skammar!
Þessi vitleysa var sett upp til að fámennur hópur fólks gæti grætt á þessum nátturuviðburði undir vendarvæng íslenskra stjórnvalda.