Lindarhvoll: hver er glæpurinn?

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Skýrslan um Lindarhvol er samantekt um sölu ríkiseigna árin 2016-2018. Eigurnar fékk ríkið úr slitabúum föllnu bankanna. Einn maður, lögmaðurinn Steinar Þór Guðgeirsson, var í raun Lindarhvoll. Hann tók að sér í verktöku að selja ríkiseigurnar og gerði það frá lögmannsstofu sinni á Túngötu. Félagið Lindarhvoll ehf. var stofnað af ríkinu en hafði engan starfsmann, aðeins þriggja manna stjórn.

Steinar Þór var valinn þar sem hann þótti hafa staðið sig vel í fyrri uppgjörum hrunmála. Traustir menn óflekkaðir af subbuskap útrásar og hruns voru ekki á hverju strái.

Skýrslan gerir ýmsar athugasemdir um hvernig staðið var að skipulagi og umsýslu Lindarhvols og við fyrirkomulag sölu á einstökum ríkiseigum. Fjöldi eigna var 51, í flestum tilfellum hlutafé í starfandi fyrirtækjum. Andvirði eignanna var tæpir 400 milljarðar króna. Ekki smápeningar.

Í skýrslunni kemur fram að upplýsingagjöf til höfundar, Sigurðar Þórðarsonar setts ríkisendurskoðanda, hafi ekki verið sem skyldi - sem gefur til kynna einhvern feluleik.

Lindarhvoli var falið að selja ríkiseigur hratt án þess að setja þær á brunaútsölu. Ekki er hægt að ráða í af lestri skýrslunnar hvers vegna áhersla var á að hraða sölunni. En með því að stjórnvöld, alþingi meðtalið, vildu losna greiðlega við eigurnar er hætt við að sumir hafi gert hagkvæm kaup á kostnað almannahags, sé til lengri tíma litið.

Árin sem salan fór fram, 2016-2018, einkenndust af tvennu. Í fyrsta lagi pólitískri upplausn, falli ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs og skammlífri ríkisstjórn Bjarna Ben. Í öðru lagi kröftugri uppsveiflu í efnahagslífinu. Það segir sig sjálft að við þessar kringumstæður er ekki auðvelt að gæta hags ríkissjóðs, sem á öngvan vin en hrægammar, allt frá iðjulausum pírötum upp í stórkapítalista, sitja um nótt sem nýtan dag.

Af fyrsta yfirlestri skýrslunnar er ekki hægt að ráða að skipulögð brotastarfsemi hafi verið höfð í frammi við að koma ríkiseigum til valinkunnra á undirverði. Sigurður hefur vísað málinu til saksóknara sem líklega þýðir að hann telji að lögbrot hafi verið framin. Skýrslan sjálf tekur ekki af tvímæli.

Tilfallandi niðurstaða, eftir einn lestur, vel að merkja, er að mistök hafi verið gerð en trauðla alvarleg afbrot.

Skildu eftir skilaboð