Páll Vilhjálmsson skrifar:
Moody‘s lækkar lánshæfismat Kviku, ólíkt staðhæfingu í fyrirsögn viðtengdrar fréttar. Í meginmáli kemur fram að Moody‘s hafi í þann veginn verið að hækka lánshæfismat Kviku fjárfestingabanka, í tilefni af samrunaferli við Íslandsbanka, en afturkallað hækkun á lánshæfismati er ekkert varð úr samruna.
Íslandsbankamálið, misheppnuð sala á hlut ríkisins, stöðvaði samrunaferlið sem var langt komið. Komið var að því að ákveða skiptihlutföll í nýju hlutafélagi.
Kvika fjárfestingabanki er yfirtöku- og samrunafélag. Frá stofnun árið 2015 sameinast eða yfirtekur Kvika eitt félag á ári og rúmlega það. Samruninn við Íslandsbanka átti að verða tíunda stækkunin. Stækkun, ekki rekstur, er sérgrein Kviku.
Stöðug stækkun færir hluthöfum Kviku ríkulegan ábata, eins og Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar getur vitnað um. Á síðustu fimm árum hafa hlutabréf Kviku hækkað um tæp 130 prósent. Meðaltalshækkun tíu stærstu fyrirtækjanna á íslenskum hlutabréfamarkaði er 46 prósent á sama tímabili.
Fjárfestingabanki sem jafn hraðan vöxt og Kvika tileinka sér væntingar um meira af svo góðu. Þær væntingar taka ekki mið af raunhagkerfinu heldur Excel-skjölum með skáldskap um framtíðina.
Pólitískar forsendur eru ekki lengur fyrir samruna Kviku og Íslandsbanka. Dýr sátt vegna sölu á ríkishlutafé í Íslandsbanka sá til þess.
Til er einföld leið að ná breiðri pólitískri samstöðu um að losa hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hún er að selja árlega eitt prósentustig af eignarhlut ríkisins í bankanum. Ríkið myndi þynna út eignarhlut sinn niður i núll á rúmum 40 árum.
Kristrún Frostadóttir og aðrir slíkir áhættufjárfestar dyttu ekki í lukkupottinn ef þessi aðferð væri notuð. Sumir halda að hlutverk ríkisins sé að skapa áhættufjárfestum skyndigróða. Svo er ekki.