Endalok sögunnar? Endalok samfélagsins?

frettinKrossgötur, Þorsteinn Siglaugsson2 Comments

Þorsteinn Sigurlaugsson skrifar:

„Það er ekkert til sem heitir samfélag“ sagði Margrét Thatcher fyrrum forsætisráðherra Bretlands í viðtali árið 1987. Aðeins einstaklingar eru til, fjölskyldur eru til.

„Það er til nokkuð sem heitir samfélag“ sagði annar breskur forsætisráðherra, Boris Johnson, í ávarpi í mars 2020 þar sem hann hafði einangrað sig í neðanjarðarbyrgi. „Ég held að kórónuveirukreppan hafi nú þegar fært sönnur á að samfélag er í raun og veru til“ sagði hann.

Orð sín um samfélagið lét Thatcher falla í samhengi við sívaxandi kröfur um að „samfélagið“ sæi um alla frá vöggu til grafar. „Það eru til einstaklingar, karlmenn og konur, og það eru til fjölskyldur og engin ríkisstjórn getur gert neitt nema fyrir tilstilli fólks og fólk hugsar fyrst um eigin hag. Það er skylda okkar að gæta að eigin hag fyrst og síðan að aðstoða aðra og lífið snýst um að hjálpast að.“ Með öðrum orðum: Samfélagið er ekki eitthvað utan og ofan við fólkið sem byggir það. Samfélagið hefur ekki skyldur eða réttindi. Það geta einstaklingarnir aðeins haft, hver fyrir sig og gagnvart öðrum.

Boris Johnson drap samfélagið í dróma snemma árs 2020. Hann lokaði skólum, bannaði fólki að vinna fyrir sér, lét handtaka fólk fyrir að hittast í almenningsgörðum, meinaði því að kveðja látna ástvini. Í huga Johnsons, og raunar flestra valdamanna í heiminum, skipti samfélagið svo litlu máli að þeim þótti sjálfsagt að stöðva gangverk þess eins og hendi væri veifað. Við sjáum afleiðingarnar nú.

Við sjáum glöggt hversu víðsfjarri skilningur Borisar Johnson á því hvað samfélag er var skilningi Margrétar Thatcher. Í huga Thatchers er samfélagið allir einstaklingarnir innan þess, skyldur þeirra og réttindi hvers gagnvart öðrum, athafnir þeirra og samskipti. Í huga Johnsons er samfélag ekki þessi flókni vefur, það er aðeins múgurinn, trylltur af röklausri hræðslu, drifinn áfram af fullkomlega sjálfhverfri hvöt til að bjarga eigin lífi, án minnsta tillits til annarra, jafnvel ekki til að bjarga eigin lífi, heldur kannski til að fórna því, eins og sértrúarsöfnuðurinn í Waco sem framdi fjöldasjálfsvíg eða læmingjarnir sem stökkva af klettum í hafið og farast. Þetta er skilningur Borisar Johnson á því hvað samfélag er. Það þrífst aðeins á grunni ótta, eða á grunni haturs múgsins, aðeins þegar múgurinn tryllist sjáum við að til er nokkuð sem heitir samfélag.

Orð Margrétar Thatcher eru oft tekin úr samhengi. En það er líka upplýsandi að skoða þau án samhengisins og velta þeim fyrir sér, ekki sem túlkun á hennar eigin lífsviðhorfi, heldur kannski fremur sem fyrirboða, einskonar áhrínsorðum jafnvel. Því þau endurspegla viðhorf sem tók að gegnsýra vestræn samfélög fyrir um það bil 40 árum síðan, það viðhorf að samfélagið skipti ekki máli. Fyrir 40 árum hefði verið algerlega óhugsandi að meira og minna öll samfélög heimsins hefðu verið lögð á hliðina, samfélagsvefurinn tættur upp, öll mannréttindi afnumin eins og ekkert sé, án nokkurs tillits til afleiðinganna, af trylltum ótta við veirusjúkdóm sem ljóst var fáeinum vikum eftir að hann braust út, að var flestum alveg hættulaus. Enginn hefði látið sér slíkt til hugar koma þá.

„Sjálfstæðismenn eru menn, sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin. Vinstrimenn eru menn, sem halda að með masi og fundahöldum, og ljóðalestri, sé hægt að leysa einhverjar lífsgátur“ sagði Hannes Hólmsteinn Gissurarson í viðtali árið 2009. Hannes lýsir hér viðhorfi sem hefur á undanförnum áratugum náð undirtökunum í vestrænum samfélögum. Því viðhorfi að samfélagið og þróun þess varði ekki einstaklinginn, heldur aðeins hans eigin persónulega tilvera. Þetta viðhorf grundvallast á endanum á þeirri söguskoðun, sem Francis Fukuyama lýsti árið 1992 í bók sinni „The End of History and the Last Man“ og snerist um að frjáls vestræn lýðræðissamfélög væru hin endanlegu samfélög; mannkynssögunni væri í raun lokið.

Þegar mannkynssögunni er lokið er auðvitað engin ástæða lengur til að láta sig samfélagið neinu varða, hlutverk okkar er þá það eitt að græða á daginn og grilla á kvöldin, og glotta til þeirra fáu vinstrimanna sem eftir eru, og eyða tíma sínum í að mótmæla á torgum og lesa ljóð. Það er ekkert samfélag lengur, heldur aðeins einstaklingar, sem hugsa einungis um sjálfa sig, en láta sig aðra engu varða.

En þetta viðhorf er einmitt forsenda þess að við glötum réttinum til að græða á daginn og grilla á kvöldin. Því réttindi okkar, hvort sem það er rétturinn til atvinnu, til tjáningar eða einfaldlega rétturinn til að lifa eins og manneskja, þessi réttindi öðlumst við ekki sjálfkrafa. Formæður okkar og forfeður börðust fyrir þessum réttindum og fórnuðu jafnvel lífinu fyrir þau. Og í grunninn eru mannréttindi ekki réttindi mín sem einstaklings, þau eru réttindi annarra. Tjáningarfrelsið er ekki réttur minn til að tjá mig, það er réttur allra hinna til að tjá sig. Rétturinn til að setjast á bekk í almenningsgarði og spjalla við kunningja er ekki réttur minn, það er réttur allra: Réttindi eru merkingarlaus nema í samfélagi. Þegar við glötum skilningnum á því hvað samfélag er, þegar við missum áhugann á að verja og viðhalda því samfélagi sem við lifum í, þá raungerast áhrínsorð Margrétar Thatcher af öllum sínum þunga: Þá er ekki lengur neitt samfélag, aðeins einstaklingar sem lifa hver fyrir sig, en breytast skyndilega í trylltan múg að tilefnislausu, og hann ræðst gegn sjálfum sér.

Atburðir síðustu þriggja ára hafa sýnt okkur hversu lítið þarf til svo samfélög okkar rakni upp innan frá, til að við glötum sjálfsögðum réttindum okkar, til að sú umhyggja gagnvart öðrum sem heilbrigt samfélag hlýtur að grundvallast á hverfi fyrir hvirfilbyl sjúkrar sérhyggju, þar sem jafnvel framtíð okkar eigin barna er fórnað á altari blinds ótta um eigið líf.

Við sjáum líka hvernig þeir ráðamenn sem harðast gengu fram í að breyta eigin löndum í fangabúðir, fólk á borð við Jacindu Ardern, Nicolu Sturgeon, að ekki sé talað um Justin Trudeau, eru nánast teknir í dýrlingatölu og hampað sem kyndilberum frelsis og lýðræðis. Sama hefði gilt um Boris Johnson, hefði hann ekki verið gripinn við að brjóta sjálfur þær fáránlegu reglur sem hann skyldaði almenning til að fylgja, að viðlögðum sektum eða fangelsi.

Hvers konar samfélag viljum við? Viljum við í raun og veru samfélag múgmenna, vitfirrtra af ótta, og fangavarða þeirra, þar sem sjálfstæð hugsun er bönnuð? Eða viljum við samfélag sem grundvallast á ófrávíkjanlegum mannréttindum og á ábyrgð okkar allra gagnvart sjálfum okkur og öðrum? Hvar svo sem við stöndum í pólitík, hvort sem við höllumst til hægri eða vinstri, þá er brýnt að við veltum þessum grundvallaratriðum fyrir okkur í fullri alvöru.

Samfélagið erum við, fólkið sem byggir það. Og það erum við, hvert og eitt, sem berum ábyrgð á því. Hvernig ætlum við að standa undir þeirri ábyrgð?

Greening birtist fyrst á Krossgötur 13.7.2023

2 Comments on “Endalok sögunnar? Endalok samfélagsins?”

  1. Ef fólk leyfir guðlausri valdaelítunni að ráða yfir þeirra lífi þá er einstaklingurinn ekkert annað er einskisvert númer í kerfinu. Erum við manneskjur með sál og frjálsan vilja eða bara eign guðlausu valdaelítunnar?

Skildu eftir skilaboð