Heimsmet í fjölda flugferða

frettinBjörn Bjarnason, PistlarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Talan frá 6. júlí 2023 sýnir að flugvélar á lofti þann dag voru 14.000 fleiri en síðan hafði áður verið mest sýnt.

Nýtt heimsmet var sett fimmtudaginn 6. júlí 2023, þá voru fleiri „almennar“ flugvélar á lofti á einum og sama deginum en nokkru sinni fyrr, 134.386 vélar, stundum þann dag voru rúmlega 20.000 á lofti samtímans.

Þetta sýnir vefsíðan Flightradar.com þar sem fylgjast má með ferðum allra „almennra“ flugvéla. Þar hefur þessi tala aldrei verið hærri síðan skráning flugferða hófst á síðuna í Svíþjóð fyrir 17 árum, árið 2006. Fyrir utan vélarnar sem sjást á Flightradar eru hervélar, margar einkavélar og sumar flutningavélar. Er talið að á einum degi geti allt að 85.000 slíkar vélar verið á lofti.

Talan frá 6. júlí 2023 sýnir að flugvélar á lofti þann dag voru 14.000 fleiri en síðan hafði áður verið mest sýnt, fyrra metið var einnig sett þennan sama dag, 6. júlí 2019, áður en COVID-heimsfaraldurinn hófst.

Fjölgun flugferða vekur áhyggjur vegna kolefnislosunar vélanna en baráttumenn í þágu loftslagsgæða segja að með flugferðum sé stuðlað að því að jörðin brenni upp á ofsahraða. Almennt sé fólk reiðubúið til að laga sig að kröfum til að minnka kolefnisspor sitt í daglegu lífi sínu en önnur sjónarmið ráði þegar ákvarðanir séu teknar um flugferðir. Þá leggi menn sig í líma við að skýra nauðsyn kolefnissporsins og verja flugferðir sínar.

Á vefsíðu ISAVIA má sjá að í júní 2023 áttu 861.130 farþegar leið um Keflavíkurflugvöll. Var það 25% fjölgun frá sama tíma í fyrra og heldur meira en farþegaspár gerðu ráð fyrir.

Flogið var til 78 áfangastaða og voru þeir vinsælustu Kaupmannahöfn, New York, London, París og Boston.

Samkvæmt talningu frá Ferðamálastofu voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll um 233 þúsund í nýliðnum júní. Er hér um að ræða álíka margar brottfarir og mældust í júní metárið 2018.

Flestar brottfarir í júní voru vegna Bandaríkjamanna eða um 43,3%. Í öðru sæti voru brottfarir Þjóðverja eða 7,6% af heild. Þar á eftir fylgdu Pólverjar, Frakkar, Hollendingar og Spánverjar.

Allt ber þetta vott um mikinn vöxt í ferðamennsku bæði í heiminum öllum og hér á landi. Hlutdeild Bandaríkjamanna sem hingað koma er ótrúlega mikil miðað við heildarfjölda ferðamanna í landinu. Þeir eru almennt kröfuharðir á ferðalögum og þess vegna fjölgar ekki endilega ferðum þeirra til landshluta þar sem ekki eru hágæða hótel. Nú stendur til að bæta þar um í Eyjafirði megi marka frétt Morgunblaðsins í dag (14. júlí) um að áform séu um glæsilegt fimm milljarða hótel við Skógarböðin vinsælu.

Þá færist í vöxt að á vinsælum ferðamannastöðum færi menn sér í nyt snjalltæknina við að innheimta gjöld af akandi ferðamönnum. Þær tekjur hljóta að leiða til þess að aðstaða sé bætt og gæði hennar aukin.

Ekkert við skipulag flugs er tilviljunum háð, þar er gerð krafa um að áætlanir standist og þjónusta sé góð. Við skipulag ferðaþjónustu hér á ekkert heldur að vera tilviljunum háð heldur þaulhugsað – þróunin er í þá átt.

Skildu eftir skilaboð