Myndin Sound of Freedom – og fullyrðingar um QAnon áhrif

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Fyrir nokkrum dögum sagði Fréttin frá myndinni Sound of Freedom sem var frumsýnd 4 júlí í Bandaríkjunum. Þar er sögð saga af björgun systkina úr kynlífsþrælkun í Kólumbíu og er hún byggð á heimildum um Tim Ballard, fyrrverandi leyniþjónustumann er stofnaði samtökin Operation Underground Railroad til að bjarga börnum úr þrælkun. Árið 2015 var ákveðið að gera kvikmynd um líf og störf Tim Ballard og var hún tilbúin 2018. Netflix og Amazon höfðu ekki áhuga á að gefa myndina út og Disney sat á dreifingarréttinum í mörg ár en loks tókst framleiðenda myndarinnar að endurheimta dreifingarréttinn. Á opnunardegi halaði myndin inn nóg til að greiða framleiðslukostnaðinn (meira en nýja Indiana Jones myndin frá Disney) og fær hún glimrandi dóma, jafnvel hjá gagnrýnendum.

Fjölmiðlar telja sig sjá QAnon áhrif
Að indie mynd fái betri viðtökur en mynd frá stóru framleiðendunum í Hollywood er vissulega fréttnæmt en það sem helst hefur vakið athygli er viðbrögð sumra fjölmiðla, s.s. Rolling Stone, Guardian, Jezebel og  Washington Post sem vilja tengja hana við QAnon hreyfinguna. Forbes er t.d. með grein um að aðalleikari myndarinnar hafi talað um adrenochrome kenninguna og hún útskýrð. Úps, er Forbes að dreifa samsæriskenningu?

Myndin var tilbúin 2018, eins og fyrr sagði, en þá hafði QAnon hreyfingin tæpast náð neinu flugi því upphaf hennar er talið vera hjá nafnlausum manni er setti inn pósta á 4chan í október 2017. Sá maður leit svo á sem að Hillary Clinton og fleiri háttsettir aðilar víða um heim hefðu gerst sekir um barnaníð og trúði því að Trump ynni að því að fletta ofan af þeim svo þau fengju réttláta refsingu. Hvort hreyfingin hafi marga fylgendur lengur er óvíst.

QAnon lifir þó góðu lífi í hugum margra blaðamanna, m.a. hjá Guardian, sem þó hefur birt fréttir af kynlífsþrælkun í Kólumbíu. Í grein blaðsins frá 2018 segir að saksóknarar skrái þar hundruðir mála um kynlífsmansal ólögráða barna á hverju ári, en það sé trúlega bara toppurinn á ísjakanum.
Greina aðeins innvígðir QAnon undirtónana?

Í umfjöllun Guardian um Sound of Freedom segir að óinnvígðir greini ekki QAnon undirtónana, en að þeir sem séu stilltir inn á þá tíðni hafi svarað kalli. Í greiningu blaðsins á myndinni kemur þó fram að ekkert tengi mansalshópinn við Clinton fjölskylduna, að tilgangur glæpamannanna sé aðeins að þjóna auðmönnum sem hneigist til barna en ekkert minnst á líffærasölu eða adrenochrome. Fyrsta regla QAnon sé þó að tala ekki um QAnon svo venjulegt fólk heyri til og þótt mest krassandi þættir hræðsluáróðursins sjáist ekki í textanum sjálfum þá leynist hann í skúmaskotum myndar sem lokki til sín áhorfendur með því að líta út fyrir að vera samin af andlega heilbrigðu fólki; Sound of Freedom sé ekki alvöru kvikmynd.

Hefur blaðamönnum tekist að innprenta fólki að barátta fyrir réttindum barna sé hægri öfgastefna?

Af hverju vilja sumir blaðamenn sjá áhrif QAnon þótt þeirra gæti ekki í texta myndarinnar? The Blaze er með skýringu: Blaðamenn hati myndina af þeirri einföldu ástæðu að þeim hafi tekist að innprenta mönnum þá skoðun að andstaða við kynlífsmansal barna sé þáttur hægri-öfgastefnu. Í dæmi Guardian getur það vel passað. Blaðið hefur einmitt staðfastlega útmálað fylgendur Tommy Robinson í baráttunni gegn mansali og kynlífsþrælkun ólögráða stúlkna af verkamannaættum sem hægri öfgamenn. The Blaze segir frá því að að minnsta kosti 1,2 milljónir barna séu fórnarlömb mansals á hverju ári, meira en 18,000 í BNA. Fyrr á þessu ári var Bidenstjórnin innt eftir afdrifum 85,000 innflytjendabarna sem virðast týnd í landinu, svo þau gætu vel verið fleiri.

Sýn vinstri manna á heiminn er alvarlega bjöguð, vill The Blaze meina. Menningarbylting þeirra hafi yfirtekið samfélagsgerðina að mestu og í sókninni eftir völdum hafi þeim siðgæðisviðmiðum er skyldu veita vernd gegn myrkraöflunum verið rústað. Barnafórnir og limlestingar barna séu nú undirstöður framfarahreyfingarinnar. Eitt af helstu markmiðum vinstrisinna sé nú að gera sem flest börn kynsegin og lykillinn að því sé að kynna þeim slíkar hugmyndir strax og aldur þeirra og þroski leyfir. Þegar andstaða við þá verstu glæpi er við getum ímyndað okkur er túlkuð sem af pólitískum toga þá liggur myrkur hugmyndafræðilegs klofnings yfir Bandaríkjunum, segir í grein The Blaze. Bæta má við - og í Bretlandi - og trúlega fleiri löndum.

Skildu eftir skilaboð