Dauðaþögn í fjölmiðlum um nýja stórmynd um kynlífsþrælkun barna

frettinErlent, KrossgöturLeave a Comment

Erling Óskar Kristjánsson skrifar:

Á sjálfstæðisdegi Bandaríkjanna, 4. júlí síðastliðnum, kom út kvikmyndin Sound of Freedom. Myndin skartar Jim Caviezel (Passion of the Christ og Count of Monte Cristo) í aðalhlutverki og óskarsverðlaunahafanum Mira Sorvino í aukahlutverki. Sagan er byggð á sönnum atburðum, og fjallar um alríkisfulltrúa sem vann fyrir Department of Homeland Security við að berjast gegn kynlífsglæpum gegn börnum. Undir stiklu fyrir kvikmyndina segir:

„Myndin varpar ljósi á myrkustu staði þess heims sem við lifum í. Eftir að hafa bjargað ungum dreng frá miskunnarlausum barnasmyglurum kemst alríkisfulltrúi að því að systir drengsins er enn í haldi og ákveður að fara í hættulegt verkefni til að bjarga henni. Þegar tíminn er að renna út segir hann upp starfi sínu til að ferðast á eigin vegum djúpt inn í kólumbíska frumskóginn þar sem hann setur líf sitt í hættu til að frelsa hana frá örlögum sem eru verri en dauðinn.“

Myndin var tilbúin árið 2018 og útgefandinn 20th Century Fox keypti dreifingarrétt hennar, en þegar Disneykeypti það fyrirtæki öðluðust þeir dreifingaréttinn og sátu á honum árum saman án þess að gera nokkuð við hann. Framleiðendur myndarinnar vita ekki hvers vegna, en keyptu loks réttinn til baka og hafa nú afhent hann Angel Studios. Það að myndin sé bæði framleidd og gefin út af litlum og lítt þekktum aðilum utan Hollywood gerir það að verkum að hún er í harðri samkeppni við Hollywood stórmyndir. Afleiðingin er sú að mikilvægur boðskapur Sound of Freedom nær ekki sömu útbreiðslu og ella, þó svo að myndin sé sögð virkilega góð.

Á opnunardegi sínum tókst myndinni engu að síður að slá nýju Indiana Jones stórmyndinni af toppi vinsældalistans vestanhafs er hún halaði inn 14,2 milljónum Bandaríkjadollara á móti 11,7 hjá Indiana Jones. Næsta dag komst Indiana Jones þó aftur á toppinn en Sound of Freedom var í öðru sæti. Það er ekki við öðru að búast enda Indiana Jones margfalt dýrari mynd, þekkt vörumerki, vel markaðssett og með Disney að baki sér. Þegar hryllingsmyndin Insidious frá Sony Pictures kom út þann 7. júlí fór hún á topp vinsældarlistans, en Sound of Freedom veitti hinum tveimur myndunum harða samkeppni þar til hún endurheimti toppsætið dagana 10. og 11. júlí. Stórmyndin Mission Impossible kom svo út næsta dag og mun sjálfsagt halda toppsætinu næstu daga, en Sound of Freedom situr í öðru sæti með góða aðsókn og hefur nú þénað 85 milljónir Bandaríkjadollara á tólf dögum.

Sound of Freedom hlaut A+ í einkunn frá CinemaScore. Þann 16. júlí 2023 hafa 24 þúsund kjósendur gefið Sound of Freedom 8,2 í einkunn á IMDB, en á Rotten Tomatoes hefur hún hlotið 72% frá 36 gagnrýnendum og 100% frá yfir 10 þúsund notendum síðunnar. Á Google Reviews er myndin með 4,9 af 5 stjörnum frá 3.200 notendum.

Enn þann dag í dag vinnur söguhetjan, Tim Ballard, og góðgerðarsamtökin hans, Operation Underground Railroad, við að bjarga börnum úr klóm mannræningja. Í samstarfi við yfirvöld í mörgum löndum hafa samtökin bjargað yfir 7.000 börnum og stuðlað að 6.500 handtökum. Því miður er það aðeins dropi í hafið, því talið er að um tvær milljónir barna á heimsvísu séu þvinguð til að athafa sig í kynlífsiðnaðinum á hverri stundu!

Ballard hefur borið frelsun barna úr kynlífsþrælkun saman við frelsun þræla í Bandaríkjunum á nítjándu öldinni. Í dag halda margir að ef þeir hefðu lifað á tímum þrælahalds í Bandaríkjunum hefðu þeir barist gegn því, en vandinn var að á þeim tíma vissu fæstir Bandaríkjamenn hversu útbreitt og slæmt þrælahaldið var, og þess vegna gerðu þeir ekkert í því. Það voru skrif fólks sem hafði séð þrælahaldið með eigin augum sem vöktu aðra og hvöttu þá til að taka þátt og berjast gegn illskunni. En hvað hefði gerst ef prentsmiðjur hefðu neitað að prenta bækur og tímarit neitað að birta greinar um þetta málefni?

Eitt af höfuð markmiðum framleiðenda með myndinni er að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings um raunveruleika mansals og barnakynlífsiðnaðarins. Það er því mikilvægt að myndin fái nauðsynlega umfjöllun og að sem flestir sjái myndina og taki höndum saman til að berjast við þessa illsku. Samkvæmt tölvupóstsamskiptum við íslensk kvikmyndahús vinnur a.m.k. eitt þeirra að því að tryggja sér réttinn til að sýna þessa merku mynd.

Það er gríðarlegt afrek að hin sjálfstæða Sound of Freedom hafi slegið Hollywood stórmyndina Indiana Jones af toppi vinsældalistans í Bandaríkjunum. Það er sjaldgæft að sjálfstæðar (e. independent/”indie”) myndir komist á topp vinsældarlistans í Bandaríkjunum og fái svona mikla aðsókn. Í þeim fáu tilfellum sem það gerist hafa þær yfirleitt mikið fjármagn að baki sér og skorta jafnvel stórleikara í aðalhlutverki. Velgengni myndarinnar í kvikmyndahúsum vestanhafs sýnir að hér er eitthvað stórfenglegt á seyði. Það er því undarlegt að hvorki Kvikmyndir.is né íslenskir meginstraums fjölmiðlar hafi tekið það á sig að fjalla um myndina og árangur hennar. Þeir virðast einna helst fjalla um kvikmyndir frá stórum Hollywood kvikmyndaútgefendum, og hjálpa þeim þannig að halda markaðsyfirráðum meðan þeir halda minni aðilum niðri. Meðvitað, eða ómeðvitað?

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 18.7.2023

Skildu eftir skilaboð