Að vera Íslendingur

frettinInnlent, Pistlar2 Comments

Kristján Hreinsson skrifar:

Reyndar hef ég ekkert út á það að setja þótt u.þ.b. 20% af þeim sem búa á Íslandi séu innflutt vinnuafl. Mér þykir það einungis ánægjuleg staðreynd. Einn af hverjum fimm hefur fengið íslenskan búseturétt án þess að hafa fengið íslenskuna í vöggugjöf. Bráðum þarf því að reikna vandlega út, samkvæmt pólitískri rétthugsun, að fimmta hvert orð þarf að vera útlenskt. Fimmti hver þingmaður þarf að vera af erlendum uppruna. Svona þarf þetta allt að vera ef við ætlum að standa okkur í stykkinu.

Í dag er staðan sú að ef maður ætlar að fara í verslun eða á veitingastað á Íslandi þá er enska nauðsynlegur staðalbúnaður. Í kóvitinu mætti mér fjörutíu manna hjörð við landamærin og enginn þeirra talaði íslensku. Íslenskukennsla í skólum er hreinlega til háborinnar skammar – þ.e.a.s. ef við miðum okkur við móðurmálskennslu í öðrum löndum. Ég hef meira að segja komið á ágæta stofnun og hitt starfsfólk sem ekki talaði stakt orð í íslensku. Kannski þarf þjóðin að vaga það og meta hvort ekki sé hagkvæmast að skipta íslenskunni út og hleypa enskunni inn í eitt skipti fyrir öll.

Ég hef núna ruggað duggu íslenskunnar nógsamlega og mun brátt láta staðar numið. Íslenskan er svo viðkvæmt mál og þeir eru svo margir beturvitarnir sem rægja mig í hvert skipti sem ég leyfi mér þann munað að gagnrýna íslenska tvöfeldni. Hér þarf ég vandlega að geta þess – fyrir bolinn sem alltaf misskilur allt – að mér er ekkert illa við útlendinga. Enda bý ég í útlöndum, vegna þess að mér þykir það hrein dásemd.

Ég er ekki fórnarlamb þótt ég hafi verið rekinn úr starfi kennara fyrir að viðra skoðanir mínar. Ég er stoltur af því að vera einn af fáum Íslendingum sem þora að tala íslensku.

Reyndar hef ég alltaf verið einkar lélegur í því að vera Íslendingur, ég þoli spillinguna nefnilega svo skelfilega illa. Ég held ekki með fólki bara vegna þess að það kemur frá Íslandi, ég heilsa ekki ókunnugu fólki á götum í útlöndum þótt ég heyri það tala íslensku. Ég mun aldrei fá orðu eða viðurkenningu hins opinbera í heimalandinu, vegna þess að ég er stimplaður úrhrak, ég tilheyri dreggjum samfélagsins, ég er sagður fordómafullur og hatursfullur, fyrst og fremst vegna þess að ég þori að segja sannleikann. Kannski hef ég hér fundið ástæður fyrir þverrandi heimþrá. Kannski hef ég hér fundið út að innst inni er ég ekki ekta Íslendingur og kannski langar mig ekkert að tilheyra því samfélagi sem mér var sagt að væri hið fegursta og besta í víðri veröld.

Höfundur er rithöfundur og skáld.

2 Comments on “Að vera Íslendingur”

  1. Ég er ein af útlendigum sem er stólt ađ tala íslensku og er sammála þér í öllu sem þú segir í þessari grein, þrátt fyrir ađ ég er af útlenskum upprúna.

  2. Ísland má ekki vera undirlægja útlendinga í blindum rétttrúnaði. Það þarf að sjá til þess að landið fyllist ekki af glæpalýð og hiski, þetta er gert með góðu skipulagi og reglum, eitthvað sem íslendingar eru ekki þekktir fyrir að hafa í hávegum. Hafandi sagt það er ég alls ekki á móti útlendingum fólki sem vill reyna að hefja hér nýtt líf í nýju landi, ég hef sjálfur gert það erlendis en það þarf auðvitað að vera einhver þröskuldur, við getum ekki hleypt hér öllu inn né fórnað tungumálinu. Velkomnir góðir útlendingar og lærið íslensku ef þið ætlið að búa hér til framtíðar.

Skildu eftir skilaboð