Ögmundur Jónasson skrifar:
Áður en ég sný mér að þeim Dwight og Jo sem vísað er til í fyrirsögn langar mig til að segja frá samræðu um Úkraínustríðið. Þátttakendur komu víða að – gott ef ekki úr öllum heimshornum. Margir voru herskáir, ekki síst þeir sem bjuggu fjarri ófriðarbálinu, þeir vildu enga uppgjöf, barist skyldi til síðasta manns gegn innrásarher Pútíns því allt var þetta persónugert í þeim manni einum eins og löngum hefur tíðkast í hernaði þegar línur þurfa að vera skýrar og afdráttarlausar, annars vegar hið góða, hins vegar hið illa. Og allt verður þetta einfaldara þegar ljótleikinn er gerður upp í einum manni.
Í umræðunni átti ég á brattann að sækja eftir að ég hafði upplýst að ég vildi að heimurinn sammæltist um að láta hernaðinum lokið þegar í stað og skilyrðislaust. Engin krafa um eitt né neitt annað en að hætt yrði tafarlaust að myrða fólk. Öllum vopnasendingum lokið hér og nú og aftur án skilyrða. Framhaldið yrði einfaldlega rætt í framhaldinu.
Þegar hér var komið lá við handalögmálum. Hvílík vesalmennska og uppgjöf, hrópaði einn viðmælandinn sem bjó í þrjú þúsund kílómetra fjarlægð frá vígvellinum, en sú bleyða sagði þjónustufulltrúi í þýskri vopnaverksmiðju, aldrei mætti hopa í vörninni fyrir hin vestrænu gildi. Eru það þá þau sem barist er um, spurði ég. Já, að sjálfsögðu og fyrir frelsi fólksins á hernumdum svæðum Rússa. Varla ert þú andvígur því að menn verjist yfirgangsöflum með vopnum ef annað dugar ekki til?
Ég kvað það undir ýmsu komið og engan veginn leggja þar allt að jöfnu, stríð fyrr og nú væru hvert með sínu sniði, ættu sér sinn aðdraganda og mismunandi umgjörð, rússneskt fólk í austurhéruðum Úkraínu hefði þannig aðra sögu að segja en þá sem haldið hefði verið að okkur frá því mannskætt ofbeldisstríð hófst þar fyrir tæpum áratug. Þar hefðu yfirvöldin í Kænugarði ekki verið saklaus heldur gerendur beint og óbeint og tiltekin NATÓ ríki uppvís að því að leika þar ljótan leik með því að sporna gegn friðsamlegri lausn.
En aftur að markmiðunum með stríðsrekstrinum sem kostar orðið stjárnfræðilegar upphæðir, eyðileggingu mannvirkja og ótalin mannslíf. Ef það eru gildin og frelsið sem eru undir í þessu stríði, finnst ykkur þá rétt að láta staðar numið við Úkraínu, vogaði ég mér nú að spyrja; þarf ekki að frelsa líka Rússa, Kínverja og fleiri eins og okkur var sagt á sínum tíma að til stæði að gera í Írak, Afganistan, Sýrlandi, Jemen og Líbíu? Hvenær ar rétt að láta staðar numið?
Svörin heyrði ég aldrei því nú var ég vaknaður. Samræðan, eins raunveruleg og mér þótti hún vera hafði aðeins átt sér stað í hugarheimi mínum, í svefnrofunum. En því nefni ég þetta hér að viðfangsefnið er ekki draumur heldur raunverulegt og knýjandi í heimi sem stendur frammi fyrir því að ákveða á hvaða forsendum framtíðin verði mótuð, hvaða gildi við viljum í heiðri hafa, hvers konar frelsi, og síðast en ekki síst, hverjir skuli ráða ferðinni.
Árið 1953 flutti Dwight D. Eisenhower, þáverandi forseti Bandaríkjanna, ræðu sem vakti gríðarlega athygli. Þar sagði hann meðal annars:
“Hvert einasta skotvopn sem er framleitt, sérhvert herskip sem hleypt er af stokkunum og eldflaug sem ber sprengjur, er þegar allt kemur til alls þjófnaður sem bitnar á þeim sem fá ekki satt hungur sitt eða klætt sig til að verjast kulda og vosbúð. Vígvæddur heimur er ekki í tómarúmi. Hann kostar svita verkamannsins, hugkvæmni vísindamannsins og vonir í brjóstum upprennandi kynslóða. Kostnaður við eina öfluga sprengjuflugvél er þessi: nýr skóli í þrjátíu bæjum, tvær orkuveitur sem hvor um sig þjónar sextíu þúsund íbúum; við borgum fyrir einn tundurspilli jafnmikið og til þess að byggja heimili fyrir átta þúsund manns … Varla er það þetta sem við viljum!”
Þegar Eisenhower lét þessi orð falla átti hann í hatrömmum deilum innan bandarísku stjórnsýslunnar um framtíð hergagnaiðnaðarins, hann mætti ekki einkavæða, sagði hann. Ef honum yrði stjórnað með gróða að markmiði væri voðinn vís. Eisenhower tapaði þessum slag og fræg varnaðarorð hans um hættuna sem stafaði af þessum iðnaði eru enn raunverulegri fyrir bragðið.
Nú stjórnar vopnaiðnaðurinn ferðinni, ríkisstjórnir NATÓ ríkja eru sem peð á taflborði hans.
Þetta kom átakanlega í ljós á fyrstu dögunum eftir innrás Rússa í febrúar í fyrra. Þá hélt Biden núverandi Bandaríkjaforseti ræðu í verksmiðjum vestanhafs sem framleiða flugskeyti áþekk þeim sem Eisenhower vísaði til í ræðu sinni. Þegar nýjustu útgáfunni af þessum flaugum verður beitt munum við gera Rússa að viðundrum sagði Jo Biden. Þá var hlegið og klappað.
Ekki hafa þessar flaugar þó dugað enn. Og skal nú gripið til klasasprengja sem reyndar eru bannaðar samkvæmt alþjóðasamþykktum. Talsmaður ríkisstjórnar Íslands sagði mikilvægt að þessum sprengjum yrði aðeins beitt “í samræmi við reglur mannúðarréttar”.
Það er nú það.
En hvor nálgunin skyldi vera skynsamlegri og skila meiri árangri þegar upp er staðið, aðferð Eisenhowers eða Bidens?
Skyldu mannúðleg morð skila okkur mannúðlegri heimi?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. júlí 2023