Páll Vilhjálmsson skrifar:
Fimm blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla, eru sakborningar í lögreglurannsókn á byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Sakborningarnir réðu Danann Lasse Skytt til að skrifa fréttir fyrir sig í norræna fjölmiðla.
Skytt auglýsir sig sem textahöfund, blaðamann og almannatengil, er skrifar fagalegan texta í þágu verkkaupa. Íslenska orðið um þessa starfsemi er leigupenni. Á götumáli: lygari til leigu.
Sakborningarnir keyptu Skytt til að segja þá sögu í fréttaformi að íslenskir blaðamenn væru ofsóttir af lögreglu fyrir að afhjúpa síðnýlenduglæpi Samherja í Namibíu.
Skytt gekk til verks samkvæmt forskrift sakborninga. Hann endurvann ásökunarfréttir RSK-miðla og fékk tvær útgáfur sömu fréttar birtar í danska fagblaðinu Journalisten annars vegar og hins vegar í norsku útgáfunni Innsikt-Aftenposten.
Fréttin í norsku útgáfunni var ítarlegri og efnismeiri. Hún birtist í febrúarhefti Innsikt á þessu ári. En þá kom babb í bátinn. Ritstjóra Innsikt var gert aðvart að ekki væri allt með felldu í grein danska leigupennans og hóf sjálfstæða rannsókn á tilurð fréttarinnar. Skytt var krafinn um heimildir sem staðfestu frásögnina. En hann hafði ekkert í höndunum nema framburð sakborninga í glæparannsókn.
Ritstjóri Innsikt-Aftenposten sá sig knúinn að birta ítarlega afsökun á að hafa birt texta Skytt sem frétt. Tilfallandi fjallaði um afsökunina:
Í marsútgáfu Innsikt er löng afsökunarbeiðni þar sem raktar eru margar villur og rangtúlkanir í grein Skytt. Íslensku blaðamennirnir útveguðu Skytt aðgang að Jóhannesi Stefánssyni, svokölluðum uppljóstrara. Jóhannes talar aðeins við þá blaðamenn sem gleypa frásögn hans hráa og fjalla ekki um hve vafasöm heimild uppljóstrarinn er.
Í afsökunarbeiðni Innsikt er tekið fram að útgáfan hafi ekki séð neinar trúverðugar heimildir um að Jóhannes hafi fyrir hönd Samherja mútað embættismönnum í Namibíu. ,,Það hefði átt að koma fram í greininni," segir Innsikt, ,,að Jóhannes er einn til frásagnar um að hafa stundað mútur."
Skytt hafði ekki samband við Samherja þegar hann undirbjó greinina. Enda var Skytt í vinnu hjá RSK-miðlum til að ófrægja Samherja. Aldrei stóð til sjónarmið annarra en RSK-miðla kæmust á framfæri. Afsökunarbeiðni Innsikt segir: ,,Verkferlar hjá okkur brugðust. Grunnatriði blaðamennsku er að ásakanir séu bornar undir þá sem þær beinast að. Það var ekki gert í þessu tilviki."
Innsikt biðst einnig afsökunar á að í grein Skytt séu yfirheyrslur lögreglu yfir blaðamönnum tengd Namibíumálinu. Umfjöllun um skýrslutöku lögreglu af blaðamönnum átti ekki heima í umfjöllun um Namibíumálið, segir í yfirlýsingu Innsikt. Blaðamennirnir eiga aðild að byrlun, gagnastuldi og brot á friðhelgi. Það er sjálfstætt mál kennt við Pál skipstjóra.
Skytt-ævintýri RSK-miðla var ekki lokið. Í júlíútgáfu Innsikt-Aftenposten ítrekar ritstjórnin afsökun um að hafa birt frétt Skytt. Það er gert inngangi að yfirlýsingu Eiríks S. Jóhannessonar stjórnarformanns Samherja.
Lykilsetning í yfirlýsingu Eiríks er að Namibíumál RSK-miðla hafi ekki verið ,,leit að sannleikanum heldur markviss árás með rætur í íslenskri pólitík."
Sakborningarnir fimm, íslensku blaðamennirnir, eru einstaklingar. Á bakvið þá stendur RÚV, ríkisfjölmiðillinn sem er aðgerðamiðstöð í pólitískum árásum á einstaklinga og fyrirtæki. Útvarpsstjóri hefur ekki gert grein fyrir þessu sérstaka hlutverki RÚV.