Atlagan að börnunum

frettinCOVID-19, Krossgötur, Þorsteinn SiglaugssonLeave a Comment

Þorsteinn Siglaugsson skrifar:

Nærri helmingur breskra foreldra segir félagslega og tilfinningalega hæfni barna sinna hafa versnað meðan á lokunum vegna kórónuveirunnar stóð samkvæmt nýrri rannsókn. Yngri börn, fjögurra til sjö ára, urðu fyrir meiri áhrifum af ástandinu en þau eldri og það kom umtalsvert verr niður á börnum þeirra foreldra sem var meinað að stunda störf sín. Ólíkt fyrri rannsóknum sýnir þessi ekki að börn úr fátækari fjölskyldum hafi orðið verr úti en þau sem áttu efnameiri foreldra.

Það vekur athygli að í skýrslunni sjálfri er fjallað um málið eins og kórónuveiran hafi með einhverjum dularfullum hætti lokað fyrirtækjum og skólum, leikvöllum og leikskólum. En veirur loka auðvitað engu, og það er kominn tími til að þeir sem ábyrgðina bera láti af þeim blekkingaleik sem felst í að reyna að telja fólki trú um slíkt.

Óeðlileg hegðun, tilefnislaus ótti, deyfð og depurð eru meðal þeirra afleiðinga sem lokun skóla, höft á samskipti, grímunotkun, hræðsluáróður og verri fjölskylduaðstæður vegna atvinnubanna höfðu á börnin. Athyglivert er að skoða þessar afleiðingar í ljósi niðurstaðna skoskrar rannsóknarnefndar sem nýlega birti ítarlega skýrslu um gagnsemi umræddra aðgerða. Þar kemur fram það mat að almennt hafi aðgerðirnar lítil sem engin áhrif haft á útbreiðslu eða dauðsföll vegna pestarinnar. Einnig kemur fram að ekki sé hægt að draga neina skýra ályktun um að bólusetningar gegn kórónuveirunni hafi dregið úr dauðsföllum vegna hennar, enda sé sú ætlaða vernd sem efnin veita allt of skammvinn til þess.

Með öðrum orðum voru fjarlægðarmörkin, grímunotkunin, lokun skóla og fyrirtækja algerlega gagnslausar ráðstafanir. Þær höfðu hins vegar djúpstæð samfélagsleg áhrif og þar urðu börnin einna verst úti.

Fyrir rúmu ári sýndi rannsókn breskra skólayfirvalda hvernig vaxandi fjöldi barna réði ekki við að túlka svipbrigði annarra og rakti vandann til grímunotkunar og einangrunar. Einnig kom í ljós að tjáningarhæfni barnanna hafði minnkað, þau áttu erfiðara með daglegar athafnir líkt og að binda skóreimar, læra að nota salerni eða klæða sig úr og í.

Í viðtali við Daily Mail segir Esther McVey, þingmaður Íhaldsflokksins tíma til kominn að viðurkenna og læra af tjóninu sem lokun skóla og stöðvun samfélagsins hafði. Og ekki aðeins þetta, segir hún. Við verðum einnig að taka ábyrgð á tjóninu sem nýfæddu börnin urðu fyrir, smábörnin sem voru einangruð þegar leikskólum og jafnvel leikvöllum var lokað. “Afleiðingarnar voru hrikalegar” segir McVey, “og sköðuðu börnin jafnt andlega og líkamlega.”

Engin ástæða er til að ætla annað en að íslensk börn hafi einnig orðið fyrir varanlegu tjóni meðan sálsýkin vegna kórónuveirunnar gekk yfir og meðan samfélagið var undirlagt af afleiðingum gagnslausra “sóttvarnaraðgerða”. Verður slíkt rannsakað hérlendis? Þegar litið er til viðbragðanna hingað til er þess tæpast að vænta. Við megum því líklega bíða þess lengi að einn, þess vegna bara einn íslenskur þingmaður stigi fram, axli ábyrgð og biðjist afsökunar á framferðinu.

Því ábyrgðarkenndin er engin. Hvorki hjá stjórnmálamönnum, fjölmiðlafólkinu sem skilgreint var sem “framlínustarfsmenn” og hlaut bitlinga að launum fyrir að enduróma lygar stjórnvalda, eða læknunum sem gegn betri vitund höfðu í sífellu uppi staðhæfingar um gagnsemi aðgerðanna eða þögðu þunnu hljóði.

Kórónuveiran lokaði ekki einum einasta skóla. Hún lokaði ekki landamærunum. Hún lokaði ekki einu einasta fyrirtæki. Hún skipaði engum að ganga með gagnslausa grímu. Það var ekki hún sem bannaði fólki að vinna fyrir sér og hóf gegndarlausa peningaprentun sem nú hefur leitt af sér fordæmalausa verðbólgu og efnahagslegar þrengingar fjölda heimila. Það voru einstaklingar sem að þessu stóðu. Samtaka í viðleitni sem fyrirfram var vitað að yrði samfélaginu stórskaðleg. Samtaka í að loka augunum fyrir afleiðingunum. Samtaka í að afneita eigin ábyrgð nú þegar þær dynja á af fullum þunga.

Við getum aðeins vonað að næsta kynslóð, börnin sem urðu fórnarlömb þessa fólks, muni í framtíðinni horfa til þess tortryggnum augum, með fyrirlitningarviprur í munnvikunum. Það eitt yrði til marks um að þau hafi lært af atlögunni og afleiðingum hennar.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur 4.8.2023

Skildu eftir skilaboð