Orkureglur gegn heimsmarkmiðum

frettinBjörn Bjarnason, InnlentLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Þetta er of alvarleg ásökun í garð regluverksins sem smíðað hefur verið utan um þennan grunnþátt nútímasamfélags hér til að unnt sé láta hana sem vind um eyru þjóta.

Á dögunum birtist hér á síðunni umsögn um sögu Landsvirkjunar sem kom út fyrr á árinu, umsögnina má lesa hér 

Í umsögninni segir að sagan minni á nauðsyn þess að jafnan sé unnið að verðugum viðfangsefnum í orkumálum til að viðhalda hér einum hæstu þjóðfélagsgæðum í veröldinni. Almenn velmegun geri þjóðina hins vegar værukæra og það gleymist fljótt í daglegu stjórnmálavafstri að í þessum efnum verði að líta til langrar framtíðar.

Minnt er á að til verði lögbundnir þröskuldar. Skipaðar séu fjölmennar nefndir til ræða hvernig komast eigi yfir þá. Þar taki við saga rammaáætlananna svonefndu, saga biðar.

Mats-, umsagnar- og eftirlitskerfi vegna hugmynda um nýtingu vatnsafls, jarðvarma og nú vindorku er orðið svo flókið að þekkingu skortir til að brjóta sér leið í gegnum frumskóg reglna og kvaða. Kæfi kerfið framkvæmdavilja Landsvirkjunar ræður enginn við frumskóginn. Á tíma grænnar orku er kyrkingarstefna í íslenskum orkumálum óskiljanleg.

Skjáskot af fyrirsögn greinar Harðar Arnasonar á vefsíðu Viðskiptablaðsins.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, birtir laugardaginn 5. ágúst grein á vefsíðu Viðskiptablaðsins um hættuna af aðgerðarleysinu í orkumálum. Hann víkur að hindrunum sem muni enn auka á orkuskortinn á næstu ári, það er engin spurning um hvort verði skortur á orku, hans gætir nú þegar.

Hörður segir að það taki langan tíma að byggja nýjar virkjanir. Gera megi ráð fyrir 3–4 ára framkvæmdatíma í vatnsafli og jarðvarma – eftir að öll leyfi liggi fyrir. Þá segir forstjóri Landsvirkjunar:

„Leyfisveitingarferli fyrir nýjar virkjanir er því miður gríðarlega þungt í vöfum og óskilvirkt, stofnanir sem eiga að sinna því virða t. a. m. ekki tímafresti og mikilvægi frekari orkuvinnslu fyrir samfélagið er ekki haft að leiðarljósi.“

Þveröfugt við aðrar þjóðir

Þetta er of alvarleg ásökun í garð regluverksins sem smíðað hefur verið utan um þennan grunnþátt nútímasamfélags hér til að unnt sé láta hana sem vind um eyru þjóta. Auðvelt er að færa fyrir því rök að hér sé umhyggja fyrir náttúrunni misnotuð til að vega að mannlífi í landinu. Það á ekki aðeins við varðandi orkuöflun heldur margt annað og má þar nefna landbúnað. Við erum ekki aðeins að rýra eigin lífsgæði og bregðast settum markmiðum stjórnvalda um orkuskipti og loftgæði heldur einnig heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Í grein sinni bendir Hörður á að við framsal á valdi til reglusmiða og eftirlitskerfa stefnum við í þveröfuga átt við aðrar þjóðir sem leggi mikla áherslu á að „einfalda leyfisveitingar fyrir virkjun grænnar orku“. António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hafi raunar sent frá sér „ákall til heimsbyggðarinnar að gera allt sem hægt er til að sporna gegn loftslagsvánni og hraða uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuvinnslu“.

Hér er heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun frá 2015 flaggað af stjórnvöldum. Frá árinu 2018 hefur forsætisráðherra framkvæmd þeirra undir sinni forsjá. Þess hlýtur að mega vænta að þaðan komi leiðsögn um hvernig skuli brugðist við skýrum tilmælum frá António Guterres.

Skildu eftir skilaboð