Til varnar frjálsri verslun

frettinInnlent, ViðskiptiLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Við aðildina að EES varð enn eitt stórstökkið á framfarabraut þjóðarinnar. Þjóðfélagsgerðin hefur síðan breyst til mikils batnaðar.

Í tilefni frídags verslunarmanna var í ríkisútvarpinu í morgun (7. ágúst) endurfluttur á rás 1 þáttur Gunnars Stefánssonar frá 2016 sem gerður var í tilefni dagsins þá. Gunnar birti hins vegar brot af viðtali sem Vilhjálmur Þ. Gíslason átti við formann Félags matvörukaupmann, Guðmund Guðjónsson, þennan dag árið 1950.

Guðmundur hafði rekið verslun í um 30 ár og sagði að ánægjulegast hefði verið að stunda hana á árunum 1940-1946, stríðsárunum, þá hefði vöruval verið mest og fjárráð almennings best. Versta tímabilið þótti honum það sem var á þeim tíma þegar þeir Vilhjálmur Þ. Gíslason ræddu saman.

Vegna gjaldeyris- og innflutningshafta væri vöruval lítið, aðeins mjöl, sykur og kornvara, stundum væri meira að segja ekki unnt að bjóða þetta allt á sama tíma. Guðmundur sagði að matvörukaupmenn hefðu við innleiðingu haftanna farið þess á leit að heimilaður yrði innflutningur á þurrkuðum sveskjum og rúsínum. Sveskjur hefðu þó ekki fengist í tvö til þrjú ár og þyrftu viðskiptavinir að leggjast inn á sjúkrahús til að fá þær! Nýlega hefði þó verið leyft að flytja inn rúsínur, húsmæðrum til léttis og gleði.

Lauk samtalinu á þann veg að kaupmaðurinn hvatti yfirvöld innflutnings- og gjaldeyrismála enn einu sinni til að heimila innflutning á þurrkuðum sveskjum. Væri ekki unnt að verða þeirri ósk ætti að minnsta kosti að heimila einhverja aðra þurrkaða ávexti sem nota mætti í grauta.

Það var ekki fyrr en um tíu árum síðar sem viðreisnarstjórnin beitti sér fyrir afnámi þessara viðskiptahátta og tók þá þjóðlífið stórt stökk fram á við, hagur alls almennings batnaði og atvinnulíf blómstraði.

Næsta stórskref til frjálsræðis í viðskiptum var stigið árið 1970 með aðild Íslands að EFTA. Hún varð síðan forsenda þess að undir lok níunda áratugsins var íslenskum stjórnvöldum boðin aðild að viðræðum EFTA-ríkjanna og ESB um evrópska efnahagssvæðið (EES) sem var stofnað 1. janúar 1994.

Við aðildina að EES varð enn eitt stórstökkið á framfarabraut þjóðarinnar. Þjóðfélagsgerðin hefur síðan breyst til mikils batnaðar. Það er ótrúlegt að sjá og heyra nöldurtal um þann ávinning allan, tal sem sækir einkum styrk í lögfræðilegar útlistanir á stjórnarskránni, útlistanir sem hefur verið hafnað hvað eftir annað á undanförnum 30 árum.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar alþingis til stuðnings lagafrumvarpinu um EES-samninginn sagði meðal annars að með samningnum væri lagður grunnur að nýjum leikreglum í samskiptum þátttökuríkjanna á þeim sviðum sem samningurinn spannaði. Einnig væri komið á fót eftirlits- og dómstólakerfi til að fylgjast með því að allir þátttakendur í samstarfinu færu eftir þessum leikreglum. Með þessum hætti skapaðist nýtt réttarsvið. Aðild að þessu samstarfi gæti ekki falið í sér neitt afsal á íslensku ríkisvaldi af því að ákvörðunarvaldið, sem stofnunum EFTA eða EB væri veitt með EES-samningnum, tilheyrði ekki íslenska ríkisvaldinu.

Íslendingum var með öðrum orðum skapaður nýr réttur. Þeir sem vilja svipta þá þessum rétti 30 árum síðar hafa ekki erindi sem erfiði.

Skildu eftir skilaboð