Björn Bjarnason skrifar:
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem lagst er á árarnar við að skapa ranghugmyndir í viðleitni til að brjóta lög um málefni útlendinga á bak aftur.
Dómsmálaráðuneytið sendi frá sér tímabæra greinargerð mánudaginn 14. ágúst vegna umræðna í fjölmiðlum um málefni hælisleitenda sem dveljast hér ólöglega eftir að stjórnvöld hafa margskoðað mál þeirra án þess að fallist sé á röksemdir þeirra „þess efnis að þeim stafi ógn af því að snúa aftur til heimaríkis eða réttmæts dvalarríkis“ eins og segir í greinargerðinni og einnig: „Málum þeirra er því lokið og þeim ber að yfirgefa landið.“
Ráðuneytið segir að ekki sé „hægt að virða að vettugi lögmæta niðurstöðu Útlendingastofnunar, kærunefndar útlendingamála og jafnvel dómstóla en búast jafnframt við því að yfirvöld útvegi húsnæði og veiti fjárhagsaðstoð“.
Virði einstaklingar lögmæta niðurstöðu stjórnvalda og gangi til samvinnu við yfirvöld fái þeir þjónustu og aðstoð við að fara til heimaríkis síns eða dvalarríkis. Þessir einstaklingar sjálfir standi einir í vegi fyrir því að þeir fái aðstoð við að fá ferðaskilríki.
Með aðstoð fréttastofu ríkisútvarpsins og lögfræðinga, tveir þeirra eru þingmenn og einn varaþingmaður, hefur verið leitast við að breyta þessari andstöðu fólks við að fara að íslenskum lögum í mannúðarvanda vegna skorts á húsaskjóli eða lífsviðurværi.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fréttastofan og valdir viðmælendur hennar leggjast á árarnar við að skapa ranghugmyndir í viðleitni til að brjóta lög um málefni útlendinga á bak aftur. Píratar og Samfylkingin, með dyggum stuðningi Viðreisnar, urðu undir í umræðum um lagabreytingar á þingi á liðnum vetri. Nú skal þess ósigurs hefnt með því að beita aðferðum aktívista gegn lögunum.
Þegar fréttastofan kynnir samtal við Kristrúnu Frostadóttur, formann Samfylkingarinnar, (14. ágúst) segir fréttamaðurinn að „pattstaða virðist komin upp hvað varðar ákveðinn hóp umsækjenda um alþjóðlega vernd eftir að ný útlendingalög tóku gildi“. Þetta er einmitt óskastaða andstæðinga lagabreytinganna í vetur og hana á að nýta til að grafa undan lögunum.
Kristrún Frostadóttir leggur virðingarleysi við lögunum lið í samtalinu, hún segir:
„Mér þætti eðlilegt að það væri farið aftur til baka með þetta úrræði sem var samþykkt í vor. Við viljum auðvitað að fólk lúti niðurstöðu þegar kemur að úrskurðum í svona málum, en það verður ekki gert með því að þjónustusvipta fólk.“
Orðin eru ekki hvatning um að farið sé að landslögum. Flokksformaðurinn vill að lagabreytingin frá í vor sé afnumin og það sé gert að samfélagslegu vandamáli virði einstaklingar ekki lögin. Þingmenn sem umgangast lög af slíkri lítilsvirðingu eru ekki trausts verðir. Að þeir kenni svo öðrum um í hvert óefni er komið í útlendingamálum er harmsefni.