Sigmundur Davíð:„Hefur umburðarlyndið snúist upp í andhverfu sína?“

frettinInnlent, Krossgötur, Tjörvi SchiöthLeave a Comment

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifaði nýlega grein í breska miðilinn The Spectator, þar sem hann greinir frá því að hann hafi verið rétt sestur niður til að horfa á kvöldfréttirnar á föstudaginn í þarsíðustu viku, þegar honum barst neyðarkall. Í símanum var maður sem Sigmundur hefur aldrei hitt. Hann var í örvæntingu að leita að vettvangi fyrir samtök lesbía, homma og tvíkynhneigðra til að halda málþing sem fara átti fram daginn eftir.

Þetta var á hátindi hinsegindaga á Íslandi og höfðu samtökin leigt fundarsal Þjóðminjasafns Íslands undir málþingið. Nokkrum dögum fyrr hafði safnið skyndilega aflýst viðburðinum í kjölfar kvartana aðgerðasinna sem mótmæltu skoðunum samtakanna á réttindum transfólks.

Skrif Sigmundar í heild sinni má sjá hér neðar:

Fengu skilaboð um að rýma húsnæðið

Örvæntingarfull leit að nýjum stað skilaði árangri og skömmu áður en neyðarkallið barst hafði félagsfólk samtakanna verið önnum kafið við að koma búnaði sínum fyrir í reiðhöll í útjaðri Reykjavíkur. Rétt í þann mund sem allt var frágengið fengu þau skilaboð um að þau þyrftu að rýma húsnæðið og gætu ekki heldur haldið málþingið þar.

Erlendir fyrirlesarar voru komnir til landsins (þar á meðal prófessor í mannréttindarétti við King’s College í London), ný staðsetning hafði verið auglýst, veitingar undirbúnar. Nú voru samtökin í örvæntingu að leita að enn öðrum stað til að hittast morguninn eftir.

Stjórnmálaflokkurinn minn, Miðflokkurinn, er með sal sem hann leigir stundum út og þótt ég sinni yfirleitt ekki slíku sagði ég áhyggjufulla manninum í símanum að salurinn væri vissulega laus ef hægt væri að gera ráðstafanir með svo stuttum fyrirvara.

Flokkurinn og flokksfélagar fengu hrinu símtala frá aðgerðasinnum

Seinna komst ég að því að um leið og staðsetningin hafði verið kynnt fékk flokkurinn okkar og margir flokksfélagar hrinu símtala frá aðgerðasinnum sem skipuðu okkur að hætta við viðburðinn (oft með litríku orðfæri). Þetta var ekki einu sinni okkar viðburður, við vorum bara að leigja út sal.

Hvað bjuggust þessir aðgerðarsinnar við að við gerðum? Meinuðum samtökum sem berjast fyrir réttindum samkynhneigðra að leigja húsnæðið? Slíkt hefði nánast örugglega verið ólöglegt og sennilega farið í bága við stjórnarskrá.

Hvernig komumst við á það stig að opinberum stofnunum og stjórnmálaflokkum er hótað fyrir að útvega aðstöðu til að halda fund til að ræða mannréttindamál? Hvers vegna töldu stærstu LGBTQIA+ samtök Íslands – samtök sem þiggja umtalsverða ríkisstyrki og hafa fengið það hlutverk að fræða börn og veita ráðgjöf um stjórnarfrumvörp – nauðsynlegt að reyna að koma í veg fyrir að samtök samkynhneigðra gætu fundað á Íslandi?

Blöskraði óhróðurinn

Ég var furðu lostinn og mér blöskraði óhróðurinn sem beint var að fólkinu sem hittist í fundarsal flokksins. Hvernig má það vera, að í viku „ástar, umburðarlyndis og inngildingar“ sé hópur fólks sem fundar með mannréttindaprófessor kallaður haturshópur sem ætti hvergi að fá að koma saman?

Þegar ég spurði hvaða hatursorðræðu þessi hópur hefði ástundað, vildi enginn gefa mér nein sérstök dæmi. Sumir sögðu að þau væru andvíg transfólki, greinilega vegna þess að þessi hópur fólks hefur efasemdir um að rétt sé líffræðilegir karlar keppi í kvennaíþróttum, er andvígur því að ung börn séu frædd um kynlíf í smáatriðum og vill ekki kerfi þar sem foreldrar og læknar mega ekki spyrja spurninga um hvort barn eigi að skipta um kyn.

Ekki í fyrsta sinn ráðvilltur vegna þessara mála

Þrátt fyrir undrun mína yfir þessari atburðarás var þetta ekki í fyrsta sinn sem ég varð ráðvilltur vegna þessara mála. Þegar stjórn Skoska þjóðarflokksins var að vinna að frumvörpum sínum um rétt fólks til að skilgreina eigið kyn eftir hentugleikum lögðu íslensk stjórnvöld fram frumvarp sem ætlað var að taka öllu öðru fram í þessum efnum. Þetta átti að gerast án nokkurrar umræðu um áhrifin á íþróttir kvenna, einkarými eða fangelsi.

Frumvarpið vakti mjög litla umræðu á Íslandi og það var einmitt það sem ríkisstjórnin vildi. Þingmenn hennar forðuðust að ræða málið fyrir utan stuttar yfirlýsingar til að minna fólk á að Ísland væri nú að verða heimsleiðtogi í mannréttindum.

Þegar ég og félagar í mínum flokki spurðum spurninga um leið og við lögðum áherslu á mikilvægi þess að vernda réttindi transfólks fengum við engin svör, aðeins óhróður.

En þetta var aðeins byrjunin. Síðan þá hafa stjórnvöld sett lög sem gera hefðbundnar skurðaðgerðir fyrir börn með fæðingargalla torveldari – ef þeir gallar hafa eitthvað með æxlunarfæri að gera. Þetta er vegna þess að litið er á þessa galla sem „framsetningu“ á kynvitund. Foreldrar á Íslandi eru farnir að fara með börn sín til annarra landa í aðgerðir sem áratugum saman töldust hefðbundnar og öruggar.

Heilbrigðisstarfsmenn þakklátir fyrir gagnrýnina

Við vorum ein um að gagnrýna þetta á þingi og aftur var okkur mætt með hæðni. En á sama tíma höfðu margir heilbrigðisstarfsmenn samband við okkur persónulega til að þakka okkur fyrir gagnrýnina, veita innsýn og útskýra hvers vegna þessar tillögur gengju ekki aðeins gegn heilbrigðri skynsemi heldur einnig gegn vísindum og læknisfræði. Enginn þeirra var þó tilbúinn að segja þetta opinberlega af ótta við að missa vinnuna eða skaða eigin framtíðarhorfur.

Rétt er þó að taka fram að fáeinir læknar sem tóku þátt í undirbúningi tillagnanna náðu að tryggja tímabundnar undanþágur. En þessar undanþágur á síðar að endurmeta og það á að fela aðgerðarsinnunum sem voru á móti þeim. Reyndar eru allar tillögur ríkisstjórnarinnar á þessu sviði nú í vinnslu og verkið er unnið af aðgerðasinnum.

Ríkisstjórnin hefur þegar tekið að eyða orðunum „kona“ og „móðir“ úr frumvörpum sínum. Í stað þeirra koma orðin “leghafi” og “barnshafandi foreldri”.

Hvernig komst ég í þessa stöðu, að þurfa að eyða tíma mínum í að biðjast afsökunar á hollustu minni við tjáningarfrelsið og vekja athygli á því sem ég býst við að við gætum nú kallað „almennu raunveruleikakenninguna“? Hvað sem öðru líður er ég ávallt tilbúinn til að hlusta. Góður vinur minn, sem er betur innvígður í þennan nútímaheim en ég, hefur boðist til að gefa mér frekari innsýn í þessi mál. Ég er þakklátur fyrir það, vegna þess að ef stjórnmálamaður á að hafa einhver gildi í heiðri hlýtur það að vera virðingin fyrir frelsinu til tjáningar og umræðu.

Ég er bara náungi sem hóf þátttöku í stjórnmálum til að vinna að skynsamlegri miðjupólitík, sem vill að allir séu jafnir fyrir lögunum og leggur áherslu á efnahagsmál, húsnæðismál og bætt lífskjör fólks. Í stjórnmálaumhverfi nútímans virðist skyndilega heimilt að ásaka fólk um ofstæki fyrir að orða eitthvað sem allir vissu þar til fyrir örfáum árum síðan.

Greinin birtist í The Spectator 26.09.2023 og á Krossgötur 29.09.2023

Skildu eftir skilaboð