Þór Guðnason einkaþjálfari og yogakennari segir tímabært að opna umræðuna um hugvíkkandi efni. Þór, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar vinnur með hugvíkkandi efni og aðstoðar fólk með notkun þeirra. Hann segist kominn á þann stað að hann verði að tala um það opinskátt:
,,Ég hef verið að vinna við að hjálpa fólki síðan ég var 22 ára gamall. En ég hef í raun þjáðst sjálfur á löngum tímabilum og sé núna að ég skammaðist mín fyrir mína eigin sögu og mína eigin líðan. Það væri rangt af mér að halda því leyndu hvað hjálpaði mér mest í að finna aftur frelsið. Fyrir mér er það siðferðilega rétt að hjálpa fólki að tengjast náttúrunni aftur og þess vegna tala ég um þetta opinskátt, þó að mörg af þessum efnum séu enn ólögleg. Ef einhver vill loka mig inni fyrir að segja satt um þetta opinberlega verður bara að hafa það. Ég tek fulla ábyrgð á því sem ég geri og vil ekki fela það. Ég hef unnið með fólki úr lögreglunni og veit að lögreglumenn og -konur eru gott fólk og hafa engan áhuga á að stoppa það þegar verið er að hjálpa fólki. Í grunninn hef ég enga sérstaka trú á lögleiðingu á þessum efnum, en það á að afglæpavæða þau," segir Þór og heldur áfram:
Upplifði tímabil af miklu þunglyndi og þjáningu
,,Það getur ekki verið rétt að banna mér að týna plöntur sem vaxa úti í garði og nota þær til að aðstoða fólk. Ég hef ferðast um allan heim til að reyna að laga sjálfan mig og finna hamingjuna. Í Himalayja fjöllin, frumskógana í Perú, til Indlands, í kuldameðferðir með Wim Hof og svo framvegis. En þrátt fyrir alla leitina upplifði ég samt tímabil af miklu þunglyndi og þjáningu. Auðvitað skilaði öll þessi sjálfsvinna miklu, en ég þurfti mjög öflug verkfæri og þar koma hugvíkkandi efni og plöntukennarar inn. Á endanum áttaði ég mig á því að ég var að reyna að endurheimta sjálfan mig og ná að losna undan alls kyns áföllum og skilyrðingum. Ég var með mikið af sárum á sálinni, gömul áföll og fleira, sem ég hef loksins náð að sjá almennilega og fengið tækifæri til að laga sjálfan mig. Ég hef líka fengið að melta alla skömmina sem ég gekk með árum saman og er loksins búinn að upplifa alvöru frelsi."
Þór hefur á undanförnum árum ferðast um allan heim til að læra meðferðir af færum sérfræðingum. Hann segir mjög mikilvægt að hugvíkkandi efni séu notuð undir handleiðslu réttra aðila og í réttu umhverfi.
Árangurinn getur verið gríðarlegur
,,Ásetningur þessara ferðalaga getur verið margskonar en fyrst og fremst er ásetningurinn að komast dýpra í að vinna á afleiðingum áfalla, stórra og smárra. Það opnast allt upp á gátt og þess vegna skiptir miklu máli að þú sért með manneskju sem veit hvað hún er að gera og hefur reynslu. Ef allt er vel gert og fólk vinnur rétta sjálfsvinnu samhliða getur árangurinn verið gríðarlegur. Ég hef átt samtöl við geðlækna sem segja að eftir 5-10 ár verði nær engin þunglyndislyf á markaðnum af því að þau standast ekki samkeppni við rannsóknirnar sem eru að koma fram á hugvíkkandi efnum," segir Þór og heldur áfram:
,,Það verður seint lögð nógu mikil áhersla á að það þarf að nota þessi efni á réttan hátt í réttum aðstæðum. Í grunninn gera þessi efni ekki annað en að opna á tíðni og skynjun sem þú bjóst þegar yfir. Þess vegna á ekki að horfa á þessi efni sem einhverja eina stóra töfralausn, heldur sem tæki til að breyta lífi sínu með því að vinna rétta sjálfsvinnu samhliða."
Þór talar í þættinum um hvernig hugvíkkandi efni og plöntur hafa verið notaðar í gegnum sögu mannkyns:
Hugvíkkandi efni eru samofin sögu mannkyns
,,Hugvíkkandi efni og ,,plant medicine" eru samofin sögu mannkyns. Það eru meira að segja til kenningar um að hugvíkkandi efni hafi spilað lykilhlutverk í að færa okkur frá því að vera steinaldarfólk yfir í næsta skref í þróun mannkyns. En kirkjan og fleiri stofnanir reyndu að loka á þessi efni í árhundruð og svo kom ,,War on Drugs", þar sem Nixon og hans stjórn lét banna öll þessi efni og líka loka á allar rannsóknir, þó að margar þeirra bentu til jákvæðra áhrifa. Í áratugi mátti ekki ræða um þessi efni öðruvísi en sem eitthvað stórhættulegt. Í framhaldi af því að hugvíkkandi efni voru bönnuð fóru Bandaríkjamenn í mikinn stríðsrekstur í Suður-Ameríku og fóru að flytja sjálfir inn kókaín, sem breytti öllu. Kókaínaldan sem fór í hönd var svo samofin tímabili mikillar græðgi og hörku í bandarísku samfélagi. En núna gengur alda yfir heiminn sem verður ekki stoppuð svo auðveldlega."
Hægt er að nálgast viðtalið við Þór og öll viðtöl og podcöst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is