Páll Vilhjálmsson skrifar:
Píratar leggja blessun sína yfir fjöldamorð á spendýrum, fiskum og fiðurfé með frumvarpi sem þeir hyggjast leggja fram á alþingi Íslendinga. Frumvarpið leyfir slátrun og veiðar á öllum dýrategundum nema einni - hvölum.
Hvers á kálfurinn að gjalda, þessi með fallegu augun en verður brátt að hakki? Eða saklausa fjallalambið á leið í steik? Hvers vegna er kjúklingaeldi ekki bannað? Hvað með frjálsa fugla himins, gæs og rjúpu, sem árvisst verða fyrir skotárásum byssuglaðra? Hugsið um fiskana í sjónum sem nauðugir viljugir eru dregnir upp úr náttúrulegum heimkynnum sínum með botnvörpu og krókaveiðiskap síðan blóðgaðir, kúttaðir og flattir.
Hvað gengur Pírötum til með að gera upp á milli málleysingjanna? Hvað með jafnrétti dýranna? Rasismi gagnvart lífverum í lofti, á láði og legi ber ekki mannúð vitni heldur mismunun af grófustu sort. Er eitthvað hinsegin við hvali sem kallar fram samúð Pírata? Eða eru sjóræningjarnir aðeins í þykjustunni dýravinir? Er markmiðið það eitt að draga á tálar kjósendur sem næst standa málleysingjum að vitsmunum?
Píratar skulda þjóðinni skýringar.