Sigur á vígvellinum, ráðherra rekinn

frettinErlent, Páll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Varnarmálaráðherra Úkraínu er rekinn samtímis sem sigrar á vígvellinum eru tilkynntir. Í stríði fá menn heiðursmerki fyrir landvinninga, eru ekki látnir taka pokann sinn. Hljóð og mynd fara ekki saman.

Gagnsókn Úkraínu er þriggja mánaða, hófst 4. júní. Mannfallið er um 50 þúsund hermenn. Ógrynni hergagna hefur farið forgörðum. Sáralítið landsvæði hefur unnist.

Stjórnin í Kænugarði er komin að þolmörkum, segir Die Welt, útgáfa sem heilshugar styður Úkraínu. Economist styður einnig Úkraínu en segir sömu sögu. Selenskí og félagar eiga ekki lengur hug og hjörtu úkraínsku þjóðarinnar, stríðsþreyta gerir vart við sig.

Varnamálaráðherra Úkraínu var fórnað. Einhver varð að taka á sig ófarirnar á vígvellinum.

Kænugarður er að verða uppiskroppa með fallbyssufóður, menn til að senda á blóðvöllinn. Nýverið var tilkynnt um spillingu í öllum héruðum landsins þar sem herkvaðning skilar ekki tilætluðum árangri. Karlmenn kaupa sig í þúsundavís undan herþjónustu með fölskum læknisvottorðum.

Sigur Úkraínu er ekki í sjónmáli. Ekki heldur er rússneskur sigur á næsta leiti. Munurinn er sá að Rússar búa að  fjórum til fimm sinnum meiri mannfjölda en Úkraína. Á meðan Nató-ríkin senda ekki hermenn í sléttustríðið er reikningsdæmið einfalt. Úkraínumenn þrýtur fyrr örendið en Rússum.

Hvers vegna er ekki samið um vopnahlé í stríði bræðraþjóðanna? Sitjandi valdhafar í Kænugarði annars vegar og hins vegar Kreml sjá fram á öngþveiti, óreiðu og upplausn ríkisins í óhagfelldum friði. Bæði ríkin búa að minningu um byltinguna 1917.

Valdaskákina verður að tefla til enda. Utanaðkomandi sjá tilgangsleysi mannfórna. Innherjar hildarleiksins aftur myrka tíð án sigurs.

Oleksiy Reznikov hættir sem varnamálaráðherra Úkraínu.

Skildu eftir skilaboð