Erítrear berjast víða innbyrðis á Vesturlöndum er 30 ára sjálfstæðisafmæli er fagnað

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Í ár halda Erítrear upp á 30 ára sjálfstæði sitt frá Eþíópíu eftir sjálfstæðisstríð er stóð frá 1961. Eftir fengið sjálfstæði var Isaias Afwerki kjörinn leiðtogi landsins 1993 og hefur hann einvaldur síðan. Fljótlega eftir fengið sjálfstæði tók við stríð við Eþíópíu sem lauk ekki fyrr en 2018 en við tók náin samvinna landanna um að halda Tigray frelsishreyfingunni í Eþíópíu niðri en margir Erítreumenn eru henni hliðhollir. Árið 2018 hófst einmitt uppreisn Tigraya gegn stjórnvöldum í bæði Eþíópíu og Erítreu. Um tíma leit út fyrir að uppreisnarmenn gætu náð Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, og sprengjum var varpað á flugvöll í Asmara, höfuðborg Erítreu en uppreisnin mistókst og saminn var friður 2/11 2022. Hreinsanir á mönnum hliðhollum Tigray hreyfingunni munu þó enn standa yfir í Erítreu en fjölmiðlabann ríkir svo fáar fréttir berast þaðan.

Fjölmargir hafa flúið til Vesturlanda

Fjölmargir Erítrear hafa flúið til Vesturlanda, bæði stríð og slakt efnahagsástand, en sumir þeirra hafa tekið stríðið með sér. Í sumar hefur það víða ratað í fréttir að þeir er fagna vilja sjálfstæði landsins berjist við þá er hatast við stjórn Afwerki og virðast hóparnir nokkuð jafn stórir. Í ágúst var sagt frá því í Toronto Star (Kanada) að 200 manna hópar hafi barist þar og 9 verið fluttir á sjúkrahús; í DW var sagt frá því að 200 manna hópur Erítrea hefði barist við lögreglu í Giessen sem er norður af Frankfurt í Þýskalandi og þar hafi a.m.k. 26 lögreglumenn særst, m.a. af grjótkasti og Expressen sagði frá stríðsástandi í Järva, Stokkhólmi þar sem um 1000 manna hópur réðst inn á hátíðasvæði Erítrea í borginni og menn börðust með tjaldsúlum og öllu lauslegu. Fleiri vildu koma í slaginn en voru stöðvaðir á landamærunum. Fimmtán voru fluttir á sjúkrahús en 55 eru sagðir hafa særst, þar af 3 lögreglumenn.

Í þessum mánuði hafa menn barist í Svisslandi, í bæ nálægt Zurich, þar sem 200 voru sagðir særðir en einnig í Bergen, Noregi þar sem lögreglan hafði búist við friðsamlegum mótmælum: um 200 mótmælendur voru þar á vettvangi, sumir komu jafnvel frá öðrum Norðurlöndum, að sögn Mbl.is. Fimm voru handteknir. Einnig var barist í Tel Aviv, Ísrael þar sem fleiri en 150 slösuðust, þar af um 15 alvarlega; 30 lögreglumenn slösuðust. Andstæðingar ríkisstjórnar Erítreu mættu bláklæddir en stuðningsmenn hennar klæddust rauðu eins og sjá má á myndbandi er fylgir frétt í Times of Israel. Stóðu bardagar í marga klukkutíma; rúður verslana og lögreglubíla voru brotnar og blóðslettur mátti líta á gangstéttum. Óeirðalögreglan skaut táragasi og lögreglumenn á hestbaki reyndu að hafa hemil á mótmælendum sem brutust gegnum hindranir og grýttu lögreglumenn sem sumir hverjir gripu til skotvopna í varnarskyni. Talið er að um 17,000 Erítreumenn búi í Ísrael.

Netanyahu, forsætisráðherra krefst þess að öllum sem voru handteknir í óeirðunum verði vísað samstundis úr landi en helst vill hann losna við alla Erítreumenn. Þeir hafi komið óboðnir og séu efnahagsflóttamenn. Deilur stjórnar hans við dómarastéttina snúast að vissu leyti um rétt hælisleitenda til dvalar í landinu og gerir fjármálaráðherrann, Bezael Smotrich, hæstaréttardómara landsins ábyrga fyrir óeirðunum því  þeir hafi komið í veg fyrir brottvísanir ólöglegra hælisleitenda en Ben Gvir, ráðherra öryggismála, hefur stungið upp á að flytja Erítreumenn sem heild til glæsihverfanna í norðurhluta Tel Aviv þar sem dómararnir búa, því þá geti þeir fundið á eigin skinni hve erfitt sé að búa með þeim.

Skildu eftir skilaboð