Kyn, lyf og bágindi

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Hugvíkkandi efni eru kynnt af fólki sem segist hafa fengið bata af þeim. Einstaklingar stíga fram eftir að hafa skipt um kyn og segjast sáttari við lífið og tilveruna eftir kynbreytingu. Fullorðið fólk kemur fram í fjölmiðlum, kveðst hafa liðið fyrir ADHD frá barnæsku en sé nú komið á betra ról á amfetamínlyfjum.

Sameinginlegt játningum um björgun frá bágindum er að þær koma frá sjúklingunum sjálfum. Úr AA-hugmyndafræðinni, meðferð við alkahólisma, þekkist að liður í bataferlinu sé að játa, ef ekki fyrir alþjóð þá fyrir nánustu fjölskyldu og á fundum, að maður hafi verið að þrotum kominn. Viðurkenning á vanda er hluti af bjargráðinu. Minna er rætt um falskar játningar og ranga sjúkdómsgreiningu.

Ólíkt dæmigerðum alkahólista eru tilfellin, sem rakin eru í inngangi, að jafnaði ekki fólk sem komið var á ystu nöf og hafði brennt allar brýr að baki sér. Í sumum tilfellum er um að ræða manneskjur með þokkalega vel lukkað líf, að best verður séð, en stríddi við mein sem það vildi bót á. Menn finna eitthvað að hjá sér, ræða opinskátt úrræðin og auglýsa bataferlið í fjöl- og félagsmiðlum.

Læknar koma yfirleitt hvergi nærri opinberum sjúkdómasögum. Alþjóð fær einhliða frásögn þess sem stígur á stokk. Sameiginlegt frásögnum er að hugarástand sögumanns yfirtekur sviðið. Það er sjúklingurinn sem upplýsir um sjúkdóm sem hann einn hefur beinan aðgang að. Aðrir sjá aðeins ytri ummerki bágindanna.

Maðurinn, hvort heldur heilbrigður eða illa haldinn, vill segja sigurfrásögn af sjálfum sér, hvernig hann ratar í ógöngur sem eru yfirunnar með lyfjum, inngripum, þrautseigju og stundum hjálp vina og fjölskyldu. Eftirspurn er eftir hetjufrásögnum og henni er mætt. Fæstir veita viðtal daginn fyrir eigið sjálfsvíg.

Hugvíkkandi lyf ,,geta tímabundið breytt hugarástandi, skapferli og skynjun." Sumir finna fyrir ofsakæti og gerbreyttum skilningi á umhverfi sínu. Það gefur væntanlega auga leið að enginn ætti að koma nálægt hugvíkkandi lyfjum nema í algerri neyð og undir ströngu eftirliti lækna. Umpólun á persónu einstaklings, jafnvel tímabundin, er Frankenstein-aðgerð á meðvitundinni. Ábyrgðarhluti er kynna úrræðið almenningi án sterkustu fyrirvara. Sýruhausarnir frá hippatímanum eru víti til varnaðar. Jafnvel mild hugbreyting, t.d. með kannabisefnum, nægir til að sumir ganga af göflunum.

Þeir sem breyta um kyn vinna lítið í eigin hugarástandi en rótast þess meira í hugsunum annarra. Aðrir eiga að trúa þeim ómöguleika að hægt sé að fæðast í röngu kyni og tileinka sér nýtt tungutak, kynhlutlaus fornöfn eða segja hann hana - ef ekki það. Annars sé hætt við kynbreyttum vanþrifnaði. Ábyrgðinni er varpað á samfélagið. Einstaklingur með ranghugmyndir verður hetjan í eigin frásagnarheimi. Harmleikurinn er gullhúðaður í félagsmiðlum.

Engar trúverðugar langtímarannsóknar á kynbreyttum staðfesta að aðgerðin sé úrræði til að öðlast betra líf. Stöku sigursögur breyta engu þar um. Meinið er ekki líkaminn heldur hugsunin. Þeir sem trúa ómöguleika eru, eins og sagt er á fótboltamáli, með hausinn rangt skrúfaðan á skrokkinn. Verst af öllu er að ranghugmyndum fullorðinna er haldið að börnum, allt niður í leikskóla. Börn eru gerð að leiksoppum í veruleikafirrtum kynjaheimi.

Mildasta útgáfan af lyfjuðu lífi betri en lyflausu er á grunni ADHD greiningar, fyrrum kallað taugaveiklun. Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar

Æ fleiri með lítil einkenni leita eftir greiningu og tilheyrandi lausnum á vandamálum daglegs lífs sem nú eru túlkuð sem ADHD-einkenni. [...]

Þetta fólk vill lyf til að geta bætt lífsgæðin og náð betur utan um lífið. Mér finnst eins og samfélagið sé að uppgötva á nýjan leik töframátt örvandi lyfja. [...]

Sú flökkusaga komst á kreik að ekki væri hægt að misnota lyfið en læknar vita af biturri reynslu að það er þvættingur.

Líf á lyfjum eða með kynbreyttum skrokki þykir í vaxandi mæli betra en hversdagsleiki án inngripa sem ætluð eru sjúkum að ná heilbrigði. Samhliða vex almenn velmegun. Vel nærður nútímamaður, úthvíldur eftir stuttan vinnudag og meira framboð af afþreyingu en áður þekkist í veraldarsögunni þrífst ekki án afurða læknisfræðinnar sem nýttar eru með fyrirkomulagi sjálfsafgreiðslu. Yfirtaka sjúklinganna á geðveikrahælinu er fullkomnuð.

Skildu eftir skilaboð