Hvað ætla hægrimenn að gera?

frettinGeir Ágústsson, Innlent, PistlarLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Ef ég væri flokksbundinn Sjálfstæðismaður og hefði taugar til flokksins og óskaði honum meiri áhrifa þá væri ég að hugsa minn gang.

Ég hef að vísu taugar til flokksins. Ég man með hlýju í hjarta eftir því litla ungmennastarfi sem ég tók þátt í hjá flokknum. Þegar ég gat kosið gallharðan frjálshyggjumenn í embætti formanns Heimdallar þar sem hann atti kappi við einhvers konar hægri-krata með ESB-blæti. Sú var tíðin.

Síðan eru liðnir áratugir.

Á sínum tíma töluðum við frjálshyggjumenn um að stofna stjórnmálaflokk og bjóða fram. Hið óheppilega gerðist svo í kjölfarið: Menn höfðu ekki tíma því þeir voru að rækja nám af metnaði eða vinna að starfsframa og framleiða verðmæti. Nú fyrir utan að Sjálfstæðisflokkurinn var á þessum tíma fyrsta val 30-40% kjósenda og þótt auðvitað mætti gagnrýna hann - frá hægri - þá var hann með hjartað nokkurn veginn á réttum stað. Skattar voru að lækka, viðskiptahindranir að dofna og skuldir ríkisins að hverfa, svo dæmi séu tekin.

Síðan eru liðnir áratugir.

Innflytjendamál voru þannig séð ekki á dagskrá. Innflytjendur voru jú aðallega harðduglegt fólk sem fann strax vinnu og kom sér fyrir eða snéri heim að lokinni vertíð. Af einhverjum ástæðum gat flóttamaður frá Serbíu lært íslensku á nokkrum misserum en í dag geta allir bara talað ensku, og læra ekki orð í íslensku.

Síðan eru liðnir áratugir.

Núna eru allir skattar í botni. Skuldir eru svimandi. Velferðarkerfið fyrir marga orðið að helfararkerfi þar sem fólk deyr á biðlistum í versta falli. Alþingi er orðið að leku gatasigti fyrir tilskipanir að utan. Ferðaskrifstofur auglýsa Ísland sem áfangastað fyrir flóttafólk þar sem í boði er húsnæði, þjónusta og framfærsla.

Síðan eru liðnir áratugir.

Valkostir við gömlu og steinrunnu hægriflokkana eru að skjóta upp kollinum víða. Ekki eru þeir allir til fyrirmyndar í öllum málaflokkum en eitt eiga þeir sammerkt: Þeir eru að veiða upp óánægjufylgi þeirra sem efast um samruna opinbers valds í hendur útlendra embættismanna, svimandi óráðsíuna og í breiðum skilningi þá aðför að samfélagsgerð okkar sem á sér stað víða, frá skólastofum til löggjafarþinga.

Er rétta leiðin sú að stofna nýja stjórnmálaflokka? Ég get ekki svarað því. En að gera ekkert er ekki í boði.

Skildu eftir skilaboð