Sigríður Dögg játar skattsvik

frettinInnlentLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Formaður Blaðamannafélags Íslands og fréttamaður RÚV, Sigríður Dögg Auðunsdóttir játar skattsvik í færslu á Facebook. Sigríður Dögg skrifar:

Við hjónin fengum endurálagningu opinberra gjalda vegna útleigutekna fyrir nokkrum árum og greiddum þá skatta.

Sigríður Dögg leigði út húsnæði á Airbnb en gaf ekki upp leigutekjurnar á skattframtali. Það kallast að stela undan skatti. Skattrannsóknastjóri fékk upplýsingar frá höfuðstöðvum Airbnb á Írlandi eftir dómsmál þar í landi. Aðeins fengust upplýsingar um stærstu fjárhæðirnar sem skotið var undan skatti. ,,Þannig að það eru ekki smæstu aðilarnir sem eru þarna með," sagði Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknastjóri er hún fékk upplýsingarnar frá Írlandi.

Sigríður Dögg fékk ekki smáaura fyrir húsnæðið sem hún leigði út á Airbnb. Aðeins stóru fjárhæðirnar voru á listanum sem fékkst frá Írlandi og afhjúpuðu undanskotin.

Tilfallandi fjallaði um skattalagabrot Sigríðar Daggar í sumar. Blaðamenn reyndu að ná í formann Blaðamannafélagsins en hann lagði á flótta. Formaður stéttafélags á flótta undan eigin félagsmönnum er ekki góð frétt. Formaðurinn sá sitt óvænna og játaði skattsvikin á Facebook, gaf starfandi blaðamönnum í leiðinni langt nef sem urðu af fréttinni.

Sigríður Dögg notar orðið ,,endurálagning" um uppgjörið við skattinn. En það er sjálfur vinnuveitandi Sigríðar Daggar, RÚV, sem kallar verknaðinn skattsvik. Fyrirsögn RÚV á frétt af konu sem, eins og Sigríður Dögg, taldi ekki fram Airbnb-leigutekjur er eftirfarandi:

Sektuð um 15 milljónir fyrir skattsvik í Airbnb-útleigu

Endurálagning og skattsvik er ekki sami hluturinn. RÚV kallar það skattsvik sem fréttamaður stofnunarinnar er uppvís að. Líkindi Sigríðar Daggar og konunnar í skattsvikafrétt RÚV eru töluverð. Báðar lentu þær í fjárhagskröggum. Sigríður Dögg og maki hennar, Valdimar Birgisson, áttu misheppnuð útgáfuævintýri, gáfu út Krónikuna og Fréttatímann. Eins og skattsvikakonan í frétt RÚV reddaði Sigríður Dögg sér með ólögmætri útleigu á Airbnb.

Ef það er stefna RÚV að gera skattsvikurum hátt undir höfði og normalisera undanskot á opinberum gjöldum þá heldur Sigríður Dögg stöðu sinni á Kastljósi og þýfgar mann og annan um vafasamar athafnir verandi sjálf skattsvikari. Varla trúverðugt fyrirkomulag, að ekki sé sagt siðlaust.

Sigríður Dögg kemst ekki hjá því að leggja fram gögn um samskipti sín við skattinn og greina frá fjárhæðinn sem um var að ræða. Hún er fréttamaður RÚV og formaður Blaðamannafélags Íslands og fer sem slík með dagskrárvald í opinberri umræðu.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá var Sigríður Dögg eigandi SDA-ráðgjöf ehf. frá 2016 þangað til í apríl í ár. Verið getur að útleigan á íbúðum hafi verið á kennitölu SDA-ráðgjafar ehf. eða á kennitölu Sigríðar Daggar sjálfrar. Formaðurinn á eftir að upplýsa málsatvik.

Tilfallandi heimild segir að Sigríður Dögg hafi fengið sérmeðferð hjá skattrannsóknastjóra, Bryndísi Kristjánsdóttur. Skattsvik Sigríðar Daggar hafi numið hærri fjárhæð en svo að réttlætti sátt með sekt. Aðrir í sömu sporum og Sigríður Dögg, en sviku undan lægri fjárhæð, sættu opinberri ákæru.

Tilfallandi fékk spurnir af því að á alþingi verði í haust lögð fram fyrirspurn um Airbnb-skattsvikin. Þá verður einnig spurt um málsmeðferð; við hvaða fjárhæð var miðað við er ákveðið var hverjir sættu ákæru og hverjir fengu tilboð um sátt og sektargreiðslu. Þeir sem sættu ákæru gátu ekki falið nafn og kennitölu. Sigríður Dögg fékk nafnleynd. Allt bendir til að formaður Blaðamannafélagsins og fréttamaður RÚV hafi notið fyrirgreiðslu skattrannsóknarstjóra sem aðrir í sömu stöðu nutu ekki.

Tilfallandi gisk er að Sigríður Dögg leiti sér brátt að nýjum starfsvettvangi og Blaðamannafélag Íslands fái nýjan formann, - þó ekki Aðalstein Kjartansson varaformann og sakborning í byrlunar- og símastuldsmálinu.

Skildu eftir skilaboð