Stefna stefnulausrar ríkisstjórnar

frettinInnlent, Jón Magnússon, StjórnmálLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Stefnuræða forsætisráðherra í gær var sköruglega flutt. Áhersla var lögð á gildi þess, að ólíkir flokkar næðu málamiðlunum í ríkisstjórn. En látið hjá líða að geta þess að ríkisstjórnin er kyrrstöðustjórn af þeim sökum. 

Helstu áherslumál forsætisráðherra umfram það hefðbundna var: Átak til bygginga leiguíbúða. Aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Bygging vindorkuvera. Ný stofnun "mannréttindastofa" Allt á forsendum ríkisvæðingar, en ekki einstaklingsframtaks.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra bentu á nauðsyn stöðugleika og baráttu gegn verðbólgu. Á sama tíma auka þau ríkisútgjöld, sem er til þess fallið að auka þennslu í þjóðfélagi og bera eld að verðbólgubálinu. 

Lilja Alfreðsdóttir talaði um nauðsyn réttlátrar skiptingar arðs af auðlindum landsins. Hvað átti hún við? 

Bygging vindorkuvera. Af hverju telur ríkisstjórnin það vera lausn á heimatilbúnum orkuskorti? E.t.v. vegna sögulegrar andstöðu Vinstri grænna við vistvæn vatnsorkuver, sem hefur komið í veg fyrir að ráðist væri í virkjanir með þeim afleiðingum að í landi ofgnógtar orkuauðlinda, stefnir í orkukreppu. Það eitt ætti að vera nóg til að framsýnir og framfarasinnaðir flokkar hættu samstarfi við VG.

Formanni Samfylkingarinnar mæltist vel og það var athyglisvert að hún sagði að Samfylkingingin hefði áttað sig á að það þyrfti að forgangsraða. Mál til komið. Hingað til hefur það verið meginstef í stjórnmálum, en fyrri forusta Samfylkingarinnar taldi greinilega að það væri hægt að gera allt fyrir alla á annarra kostnað.

Athyglisvert var einnig að heyra Kristrúnu Frostadóttur tala um stefnumörkun í heilbrigðismálum, sem verður fróðlegt að skoða og taka verður undir með henni þegar hún gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir stjórnleysi í útlendingamálum og orkumálum, en þá er spurningin mun Samfylkingin leggjast á árar með þjóðhollu fólki um að grípa til aðgerða til að vernda íslenska þjóð og þjóðmenningu og standa að átaki í byggingu vistvænna vatnsorkuvera. Sé svo eiga Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur meiri samleið með Samfylkingunni en VG. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur borið öll einkenni stjórnlyndrar vinstri stjórnar. Ríkisútgjöld hafa aukist gríðarlega og ríkisbáknið tútnað út. Það gerist þrátt fyrir að formaður Sjálfstæðisflokksins sé fjármálaráðherra. Verkstjórn forsætisráðherra er nánast engin. Hver ráðherra fer sínu fram án þess, að vart verði við að ríkisstjórnin hafi markað stefnu í málinu. Skilvirk stjórnarstefna fyrirfinnst engin, en á meðan dútlar Katrín forsætisráðherra í woke málunum sínum.

Er ekki rétt að því linni að hún leiði fleiri slík mál í lög í landinu?

Skildu eftir skilaboð