Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:
Fréttamenn níða skóinn af fólki í Samtökunum 22 og fá forsvarsmann trans Samtakanna 78 í lið með sér. Fólkið er nýtt niður í aðalfréttatíma sjónvarpsins með hjálp forsvarsmanns trans Samtakanna 78 án þess að fréttamenn gefi öðrum kost á að tjá sig.
Hvað gengur Hauki Hólm til og fréttastofunni? Af hverju fjalla þeir ekki hlutlaust um trans- málaflokkinn og ræða við báða aðila. Að þjóðin skuli sitja uppi með fréttamenn, á ríkismiðli, sem eru svona hlutdrægir er til háborinnar skammar.
Nokkuð skýr einstaklingur getur séð á stefnuskrá Samtaka 22 að ekkert hatur, fordómar eða annað einkennilegt er í gangi. Markmiðin eru skýr. Börnin og heilsa þeirra hafa forgang. Hins vegar hefur enginn frá trans Samtökunum 78 sagt hvaða falsfréttir eru sagðar, þeir segja ekki hvaða hatursorðræða er í gangi, þeir gaspra bara.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hoppar á vagninn. Hún hefur að mér vitandi ekki boðið forsvarsmönnum Samtaka 22 í spjall til að heyra hvað samtökin hafa fram að færa. Hún varði óviðeigandi fræðslu skólabarna á að sonur hennar hefði lært um túrverki og börnin hefðu gott af að vita af því. Mikil ósköp! Auðvitað verður strákur að vita að stelpur kveljist, sumar hverjar, þegar þær hafa á klæðum. En Katrín vill líka að þessar stelpur, sem strákurinn hennar á að hafa samhygð með, mæti trans- konu með kynfæri karlmanns í búningsklefa sundlauga. Katrínu finnst ekkert að því að leggja það á ungar stúlkur og konur. Henni finnst heldur ekkert athugavert að karlmaður sem skilgreinir sig sem konu keppi við þær í kvennaflokki, og vinnur vegna karlmennsku sinnar.
Við hljótum að gera meiri kröfur til fréttastofu Rúv, og annarra miðla, en að apa upp gagnrýnislaust öskur trans Samtakanna 78. Komið með rök og bendið á hvar skóinn kreppir.
Samtökin 22 og þeir sem styðja málstað þeirra bera virðingu fyrir öllum einstaklingum, burt séð frá atgervi þess.
Mannréttindadómstóllinn dæmdi börnum í hag gagnvart hinsegin foreldrum. Engar fréttir fluttar af því hjá Rúv, samt er um tímamótadóm að ræða, tvo frekar en einn.
Höfundur er kennari.