Geir Ágústsson skrifar:
Árið er 2020. Ríkissjóður er að sökkva sér í skuldir til að borga fyrirtækjum fyrir að hafa lokað, fólki fyrir að mæta ekki í vinnuna og lyfjafyrirtækjum fyrir að framleiða gagnslaust glundur. Ekki er innistæða fyrir þessari vegferð og ríkissjóðir þarf að taka lán. Stór og mikil lán.
Seðlabanki Íslands ákveður að hlaupa undir bagga:
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að peningaprentun af hálfu Seðlabanka Íslands muni hefjast að ráði á næsta ári. Ásgeir sagði að „það liggur fyrir að peningaprentunin hjá okkur [Seðlabanka Íslands] verður í að kaupa ríkisskuldabréf“. Þetta kom fram í ávarpi Ásgeirs á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem fór fram áðan með stafrænum hætti.
Þetta var vinsælt. Núna höfðu yfirvöld úr nægu að moða og þau eyddu eins og fullur unglingur með greiðslukort foreldra sinna. Það var hægt að borga fyrir allar skerðingarnar og halda úti stjórnarfari sem ég vil kalla nýfasisma, þar sem einstaklingurinn er til fyrir ríkið en ekki öfugt.
En hvað kemur þetta verðbólgu við? Jú, þegar magn peninga í umferð er aukið þá rýrnar kaupmáttur hverrar og einnar krónu því magn varnings og þjónustu er ekki að aukast í sama mæli. Þetta er auðvelt að skilja í smærra samhengi: Segjum að 100 manns búi á eyju og eigi samanlagt eina milljón krónur sem færist í sífellu á milli handa í viðskiptum og lántökum. Dag einn ákveður höfðinginn að auka magnið í milljarð króna. Eru þá allir orðnir ríkir? Nei, því þeir sem fái hið nýja fé fyrst í hendurnar byrja að bjóða hærra og hærra í það sem er til sölu og smátt og smátt hækkar verðlag á öllu. Ójafnt mögulega í byrjun, en að lokum á öllu.
Seðlabankastjóri skilur þetta auðvitað en hann ætlaði að fara fínt í þetta og stilla af peningaprentunina eftir þróun verðbólgunnar. Það mistókst auðvitað, bæði hjá honum og öðrum erlendum seðlabankastjórum sem gerðu það sama. Núna þarf að taka á afleiðingunum. Það er allt svo auðvelt þegar peningamagnið er að aukast, en það er um leið allt svo erfitt þegar því er neitað að halda áfram að aukast jafnhratt.
Ég veit ekki hvenær sá dagur kemur að skattgreiðendur uppgötva að þeir eru ekki bara rúnir inni að skinni með sköttum, heldur líka í gegnum verðbólguna. Kannski fyrr en ég þorði að vona.