Af baráttu almennings gegn hinni mjög svo rótgrónu spillingu í Úkraínu

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Á þessu ári hafa borist margar fréttir um spillingu í Úkraínu. Í upphafi ársins kom í ljós að birgjar hefðu selt hernum vistir og tæki á óeðlilega háu verði og fréttir af misferli ráðamanna þar hafa haldið áfram að berast almenningi og samkvæmt könnun er Ilko Kucheriv Democratic Initiatives Foundation gerði í júlí í sumar töldu 77% þeirra er tóku þátt í könnuninni Zelensky bera fulla ábyrgð á spillingu innan stjórnvalda og hersins. Þær niðurstöður birtust í Kyiv Post snemma í ágúst og virðist Zelensky hafa tekið þær alvarlega því nýlega var fyrrum velgjörðamaður hans, auðjöfurinn Kolomoisky handtekinn og Oleksiy Reznikov varnarmálaráðherra landsins settur af. Hann var gerður ábyrgur (með réttu eða röngu) fyrir misferli í vistakaupum og því að menn gátu keypt vottorð sem gáfu þeim undanþágu frá herþjónustu.                     

Eftir að það mál komst í hámæli hafa úkraínsk stjórnvöld leitast eftir því við Evrópulönd að þau framseldu „svikarana“og mátti á Twitter finna bréf frá írskum yfirvöldum stílað á einn þeirra en á Kyiv Independent er það haft eftir úkraínskum embættismanni að ekki verði um neinar fjöldainnkallanir að ræða en sendar út beiðnir á nafn um að þeir sem yfirgáfu Úkraínu ólöglega verði sendir heim. Pólverjar eru sagðir hafa tekið jákvætt í það.

Botnlaus spilling    

Spillingu í Úkraínu hefur verið við brugðið og samkvæmt Transparency International er hún spilltasta land Evrópu, ef Rússland er undanskilið. Úkraína fékk aðeins 33 stig árið 2022 (hækkaði sig um eitt stig milli ára) en betur má ef duga skal því heimsmeðaltalið er 43 stig (Ísland fær 74 stig). Samkvæmt nýrri grein í New York Times eru Úkraínumenn þess vel meðvitaðir að þeir verði að berjast gegn spillingu í stjórnkerfinu því annars hafi þeir enga von um inngöngu í ESB (trúlega reiknar enginn með því að Bandaríkjamenn hjálpi til við að byggja upp landið þegar stríðinu lýkur). Í grein NYT eru nefndar fréttasíðan Nashi Groshi (Our Money) sem flytji spillingarfréttir og Bihus, sem fletti ofan af þeim embættismönnum er keypt hafi dýra bíla og farið í lúxusfrí á stríðstímum.  

Í grein NYT segir að úkraínska þingið berjist gegn gagnsæi um fjármál stjórnmálamanna. Þeir hafi nýlega, eftir árs baráttu, samþykkt að þingmönnum bæri að gera grein fyrir eignum sínum en bundið það leynd í eitt ár eða lengur. Á innan við sólarhring hafi fleiri en 83,000 skrifað undir beiðni til Zelensky um að hafna þeirri tilskipan. Þótt pistlahöfundur NYT lofi vilja almennings í Úkraínu til að berjast gegn spillingu þá veldur það honum áhyggjum að umræða um spillingu og handtökur þeirra er misfarið hafi með opinbert fé  dragi úr áhuga Bandaríkjamanna til að styðja stríðsreksturinn gegn Rússum.

Skildu eftir skilaboð