Helga Dögg Sverrisdóttir kennari skrifar:
Magnús varð sér aftur til skammar með grein á Vísi.is. Hann er formaður félags þar sem ólíkar skoðanir á hinsegin-hugmyndafræði ríkir en getur ekki setið á sér að sýna mátt sinn og megin. Tilgangur- hulin ráðgáta. Góð lesning.
Hann veit eins og stór hluti þjóðarinnar að kennarar eiga erfitt með að stíga fram og tjá skoðun sína í umdeildum málum, nákvæmlega vegna viðbragða eins og hann sýnir. Það þola ekki allir svona árásir.
Kannski hafa Samtökin 78 legið á herðum hans eins þegar hann varð sér áður til skammar.
Formaður KÍ hefur eina ferðina enn farið yfir strikið þegar hinsegin-málaflokkurinn er til umræðu. Lætur eigin skoðanir í ljós, ekki KÍ. Innan sambandsins eru rúmlega 11 þúsund manns og ljóst má vera að hann talar ekki fyrir hópinn í umdeildum málum.
Formaðurinn hefur ekki sagt orð um hið umdeilda námsefni, Kyn, kynlíf og allt hitt, þar sem börnum er kennt margt misjafnt og fleiri hundruð foreldra mótmæla um þessar mundir. Bókin brýtur gegn blygðunarsemi nemenda. Af hverju hefur formaður kennara ekki áhyggjur af því og lætur heyra í sér. Nú verður hver að spyrja sig.
Formaðurinn hefur ekki sagt orð um orðsendingu skólastjóra Jafnréttisskólans þar sem hún þaggar niður í skólastjórum í trássi við skyldur þeirra gagnvart foreldrum.
Í skólastefnu KÍ segir ,,Nám á að styðja nemendur í að afla sér þekkingar og beita henni með gagnrýnum hætti.“ Hvernig eiga nemendur að afla sér þekkingar um hinsegin-málaflokkinn þegar fræðslan er einhliða og meira að segja formaður KÍ setur pottlok á aðrar skoðanir en Samtökin 78 og Jafnréttisskóli Reykjavíkur boðar.
Skólastefna KÍ segir líka ,,Þeir skulu hafa tillögu- og umsagnarrétt um námsskipulag, námsefni, kennslutilhögun og önnur hagsmunamál sín.“ Er það svo í skólum hér á landi að nemendur hafi áhrif á kennsluefni um hinsegin-fræðin. Held ekki.
Magnús er ekki lýðræðislegur sem formaður KÍ. Hann leyfir ekki ólíkum sjónarmiðum og skoðunum að heyrast. Nei hann vill að ákveðnar raddir þagni, sennilega því fyrr því betra. Þess óskar hann þrátt fyrir að í skólastefnu KÍ standi ,, Mikilvægt er að kennarar taki þátt í opinberri umræðu um menntamál.“ Er hinsegin-málaflokkurinn og bókin Kyn, kynlíf og allt hitt ekki menntamál?
Nemendur þora ekki annað en sætta sig við fræðslu sem er þeim kannski þvert um geð. Ungir nemendur hafa ekki þann skráp sem þarf til að verjast árásum eins og við höfum séð t.d. á kennara sem vilja skynsama umræðu um hinsegin-málaflokkinn. Ekki einhliða fræðslu og fréttaflutning. Magnús Þór tekur þátt í því með orðhengilshætti.
Mér er til efs að Magnús Þór njóti virðingar eftir svona upphlaup. Betra að þegja en segja á svo sannarlega við formann KÍ svo ég noti hans eigin orð.
Faðir minn á gamalaldri kallar svona menn ,,froðusnakkara.“ Hvaðan hann hefur þetta orð veit ég ekki en ég veit hvað það þýðir og sennilega margir aðrir.
Magnús ætti að fara eftir eigin orðum og þegja frekar en að segja.