Róbert Haraldsson skrifar:
Kæra Ríkisstjórn Íslands,
Ég sem íslenskur ríkisborgari hef áhuga á að reyna að fá svör við nokkrum spurningum fyrir sjálfan mig og örugglega margra annarra Íslendinga sem bera hag af og ánægju af, að hér á landi gangi villtur lax óáreittur upp í fallegu árnar okkar. Nú hefur Ísland í gegnum árin verið að hreykja sér af hinum ýmsu verkefnum sem snúa að hreinu og fallegu landi og að náttúran skuli alltaf njóta vafans í öllum hennar málum og er það vel.
Nú er svo komið að talað er um að hér hafi átt sér stað umhverfisslys í fjörðum landsins – í mínum huga er orðið „slys“ eitthvað sem gerist óvænt t.d. bílslys, flugslys o.s.frv. Það sem er að gerast í fjörðum landsins er ekki slys, því allir sem hafa smá vit í kollinum vita að það var ekki spurning hvort, heldur hvenær svona hlutir myndu eiga sér stað og búið að vara við þessu árum saman. Reynsla annarra landa eins og Noregur, Skotland, Írland, Svíþjóð og Kanada hafa öll lent í þessu „slysi“ og eru nú að sleikja sárin. Eftir sitja rústir einar. Einhver sagði einu sinni við mig að „Geðveiki“ væri stundum skilgreind: …að gera sama hlutinn aftur og aftur og aftur – enn að búast við annarri niðurstöðu.
Hvers vegna ætti ekki að vera sama niðurstaðan á Íslandi eins og í öllum hinum löndunum þegar kemur að laxeldi í sjó?
Hverjir bera hag af laxeldinu í sjó við Íslands strendur? Jú, einhverjir auðmenn í Noregi, Íslendingar sem vinna við eldið, nokkur sjávarpláss og íslenska ríkið. Gott og vel. Þetta hljóta að vera töluverðar upphæðir sem ríkið fær ef þið eruð tilbúin að fórna villta íslenska laxinum. Ef hann hverfur úr ánum þá koma ekki hingað erlendir laxveiðimenn með gjaldeyrir, þá missa landeigendur/bændur arðinn sinn sem heldur mörgum hverjum á floti, þá hverfa ótal mörg störf eins og í fyrirtækjum sem selja veiðileyfi, leiðsögumenn, kokkar, þjónustustörf, veiðibúðir, bílstjórar o.fl. o.fl.
Er það vilji ykkar að skipta út öllum þessum störfum og fjármagni fyrir þetta mikla „fjármagn“ sem þið fáið fyrir eldið? Hefur náttúran ekkert atkvæði við þessar ákvarðanatökur?
Í gegnum tíðina höfum við passað upp á dýrin okkar – rjúpnaveiðin verið takmörkuð, hreindýraveiði verið takmörkuð, allskonar reglur búnar til fyrir rollurnar okkar, meira segja farin að hugsa um hvalina okkar o.fl. o.fl. – ENN, svo erum við með laxa-stofninn okkar sem er að verða jafnvel orðinn einstakur á heimsvísu.
Eru þið tilbúin að vera sú ríkisstjórn sem samþykkti að útrýma þessari dýrategund?
Erlendir veiðimenn gáttaðir
Erlendu veiðimennirnir sem koma hingað eru gáttaðir á því að þið séuð að leyfa Norðmönnunum að eyðileggja árnar eins og hefur verið gert í þeirra löndum.
Svo eru það talsmenn laxeldis í sjó. Hverjir eru þessir aðilar sem heyrist hæst í og hversu stór hluti fólks í litlu sjávarplássunum eru að fá eitthvað í vasa sinn í gegnum eldið? Hvað eru Seyðfirðingar og Stöðfirðingar að reyna að segja við þá sem stjórna landinu? Held að það sé mjög lítill hópur sem berst fyrir eldinu og þessi hópur hefur klárlega mikilla hagsmuna að gæta þ.e.a.s. bankareikningur þeirra mun ekki halda áfram stækka ef eldið hættir.
Komið niður úr fílabeinsturninum
Ég hef búið í litlum sjávarplássum í 30 ár, er enginn pólitíkus, sérfræðingur, hagfræðingur eða náttúrufræðingur. Ég er „bara“ kennari og áhugamaður um laxveiði og tel mig vera með meðal greind – því á ég rosalega erfitt með að skilja hvers vegna allt þetta sprenglærða og fluggáfaða fólk sem stjórnar landinu okkar horfir ekki í staðreyndir og rök. Þið verðið að koma niður úr fílabeinsturninum og gera eitthvað í málunum, áður en það verður of seint.
Ég hef verið heppinn og fengið að njóta þess að vera við árnar á Íslandi í áratugi og sjá þennan fallega fisk synda um, en ég hef miklar áhyggjur af því að barnabörnin mín munu ekki fá að upplifa það sem ég hef upplifað og er það miður.
VG hafa verið fremstir í flokki þegar kemur að baráttunni um náttúruauðlindirnar okkar og í umhverfismálum.
Katrín, hefur þú ekkert að segja um þessi mál, hvers vegna heyrist ekkert frá þér?
Framsóknarflokkurinn hefur alltaf verið aðal-flokkur bænda, er það ekki annars?
Sigurður Ingi, hefur þú ekkert að segja um það fjármagn sem landeigendur/bændur munu ekki fá í hendurnar í framtíðinni vegna laxeldis í sjó?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt verið sterkur flokkur með fjármagnið á bak við sig.
Bjarni, er allt falt fyrir peninga? Náttúran líka? Er eitthvað eitthvað fjármagn að fara í einhverja vasa sem við almenningur vitum ekki af?
Og aðrir flokkar, hvað er að frétta af ykkur? Hefur engin neitt að segja um þetta þarfa málefni? Eru allir að fá eitthvað greitt undir borðið frá Noregi? Eru allir hræddir við að rugga bátnum?
Hættið að gefa norskum auðmönnum aðgang að auðlindum okkar og taka sénsinn á að í framtíðinni verði laxinn „okkar“ bara minning. Hvers vegna að taka sénsinn á því að það muni rætast - Það er svo rosalega mikið í húfi. Í guðanna bænum ekki koma með þessi aumkunarverðu útskýringar/rök sem koma frá þeim sem vilja útrýma íslenska laxinum með því að halda áfram með laxeldi í sjó.
„Megi íslenski laxinn lifa“
Höfundur er kennari og áhugamaður um íslenska laxinn.