Páll Vilhjálmsson skrifar:
Meirihluti Íslendinga þorir ekki tjá sig opinberlega. Ein ástæðan er að fjölmiðlar í vaxandi mæli eru skoðanalögga; berja á þeim sem fylgja ekki pólitískri rétthugsun. Íslendingar bera lítið traust til fjölmiðla, mun minna en á Norðurlöndum. Norrænir fjölmiðar taka sér ekki hlutverk skoðanalögreglu, líkt og þeim íslensku er tamt.
Í viðtengdri frétt kemur fram vaxandi vantraust á fjölmiðlum hér á landi, samkvæmt könnun Fjölmiðlanefndar. Stærsti hluti fjölmiðla er í höndum fólks sem eru aðgerðasinnar en ekki blaða- og fjölmiðlamenn. RÚV er miðlæg aðgerðamiðstöð.
Eðlilega fjalla fjölmiðlar litið um minnkandi traust til þeirra, Morgunblaðið undantekning. En það eru aðrar tölur úr könnuninni sem eru enn meira sláandi en þær sem upplýsa um minnkandi traust til fjölmiðla.
Íslendingar eru afar virkir á samfélagsmiðlum, en þeir þora helst ekki að segja skoðun sína á þeim vettvangi, samkvæmt könnun Fjölmiðlanefndar. Aðeins 15 prósent landsmanna tjáir sig með opnum stöðuuppfærslum á samfélagsmiðlum. Lítið hærra hlutfall, tæp 19 prósent, tjáir sig með stöðuuppfærslum í lokuðum hópum. Aðeins 7 prósent gera athugasemdir við einstakar fréttir. Rúm 25 prósent tjá sig yfir höfuð ekki á samfélagsmiðlum. Jafnvel ,,læk" er áhættusamt.
Aðgerðasinnar á fjölmiðlum, í samvinnu við frekjuhópa, stunda árangursríka óttastjórnun. Meirihluti Íslendinga þorir ekki að segja hug sinn á samfélagsmiðlum.
Einn frekjuhópurinn vill kynóra á dagskrá í leik- og grunnskólum. Formaður Kennarasambands Íslands skrifar blaðagrein þar sem hann biður fólk að þegja og andmæla ekki nýmælum í velferð barna. Undirgefni formaðurinn er B-ið í BDSM.
Óttastjórnunin veldur skekkju í opinberri umræðu. Áhrif og völd í samfélaginu eru meira í höndum vinstrimanna, en þau annars væru, einmitt vegna þess að aðgerðasinnar eru nær alltaf vinstrimenn af einhverri sort.
Það er ekki í þágu lýðræðis og frjálsra skoðanaskipta að ríkisvaldið hækki fjárframlög til fjölmiðla sem böðlast þannig á almenningi að hann þorir ekki að tjá hug sinn. Böðullinn er feitur fyrir. Almenningur er fyrst látinn kyssa vöndinn og síðan borga kvalara sínum.