Vísindi eru viðskipti og trú, einkum loftslagsvísindi

frettinErlent, Loftslagsmál, Páll Vilhjálmsson2 Comments

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Tímaritið Nature er háborg náttúruvísindanna. Vísindamenn sem fá birtingu í Nature eiga greiðari aðgang að rannsóknafé og fá betri stöður í háskólum og rannsóknastofnunum en hinir sem ekki fá birt. Vísindamenn sem leggja fram greinar í Nature skrifa sölubréf fyrir sjálfa sig; útskýra hvers vegna tímaritið ætti að birta viðkomandi grein.

Tvennt ræður mestu um hvort Nature birtir greinar. Í fyrsta lagi hvort boðskapurinn falli að ráðandi frásögn. Í tilfelli loftslagsvísinda er ráðandi frásögn að manngert veðurfar sé ríkjandi á jörðinni, en ekki náttúrulegt. Í öðru lagi hvort vísindagreinin sé líkleg til að verða umfjöllunarefni meginstraumsmiðla.

Ofanritað er allt fengið úr viðtali við Patrick Brown loftslagsvísindamann á Unheard. Brown kom við sögu nýlega hjá tilfallandi. 

Loftslagsvísindamaðurinn Patrick Brown fékk birta grein í vísindaritinu Nature, sem þykir hvað virtast á sviði náttúruvísinda. Greinin var um áhrif loftslagsbreytinga á skógarelda. Eftir birtingu tísti Brown á X, áður Twitter, að hann hafi litið framhjá öðrum atriðum er yllu skógareldum s.s. lélegri grisjun skóga og íkveikju af mannavöldum.

Í viðtalinu á Unheard útskýrir Brown nánar hvað honum gengur til með að gagnrýna eigin vísindagrein um leið og hann veitir innsýn í viðskiptamódel loftslagsvísindanna. Stutta útgáfan er að Brown ofbýður fals og undirferlið sem beitt er til að halda ráðandi frásögn á lofti.

Vísindamenn velja rannsóknir sem gefa vel í aðra hönd. Vísindatímarit birta það sem best selst. Sannindi eru aukaatriði, ráðandi frásögn aðalatriði. Rétt eins og í trúarbrögðum.

Vísindamenn sem standa undir nafni vita vel að ráðandi frásögn er kredda sem ekki rímar við grunnatriði vísindalegrar þekkingar. Oft eru þetta rosknir menn sem þurfa ekki lengur að keppa um rannsóknafé og stöður; ekki hafa áhyggjur af peningum og hégóma. Will Happer er einn slíkur og hefur komið við sögu í nokkrum tilfallandi athugasemdum.

Happer bendir á að ef núverandi magn koltvísýrings, CO2, í andrúmslofti jarðar yrði tvöfaldað, úr 400 ppm í 800 ppm, myndi hitastig hækka um 0,7C. Enginn tæki eftir breytingunni.

En verkefni ráðandi frásagnar er að útrýma koltvísýringi í andrúmsloftinu. Við það yrði jörðin óbyggileg. Án koltvísýrings deyr allt plöntulíf.

Tæplega tvö þúsund vísindamenn hafa skrifað undir yfirlýsingu um að engin loftslagsvá vofi yfir jörðinni. Eina aðsteðjandi hættan er heimska ráðandi frásagnar, sem vel að merkja, er knúin áfram af óseðjandi peninga- og valdagræðgi. Rétt eins og kaþólska kirkjan á miðöldum.

2 Comments on “Vísindi eru viðskipti og trú, einkum loftslagsvísindi”

  1. Margir vísindamenn hafa selt sálu sína til Mammons og glatað öllum trúverðugleika. Fréttamenn (sem líka hafa selt sálu sína) boða út áróðurinn gagnrýnislaust (og hafa líka glatað öllum trúverðugleika).

  2. En eins og Patrick Brown segir: Að hækkun hitastigs jarðar af mannavöldum sé „aðkallandi hætta“, en ekki frá því litið að það eru líka önnur vandamál. Einnig séum við á betri veg í RCP scenarios en áhorfðist upp úr 2000, ekki síst vegni betri tækni og meiri gasnotkunar, á kostnað kola sérstaklega.
    En eins og öll vísindi, þá eru alltaf sumar þemur vinsælli en aðrar, í læknavísindum eru það krabbamein og Alzheimer. Liggur við að þú getir fengið nánast hvaða styrk sem er ef þessum þemum er klínt inn í styrkumsókn. Kannski er eitthvað til í því sem Foucault sagði: „Þekking er vald / Vald er þekking“.
    Góðar stundir.

Skildu eftir skilaboð