Skattsvikafréttir RÚV, friðhelgi fréttamanna

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Til skamms tíma sagði RÚV reglulega fréttir af skattsvikum. RÚV er ríkisfjölmiðill og ríkið innheimtir skatta. Fréttir af skattsvikum þjóna tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi að vekja athygli á þeim og segja alþjóð að árvökult auga Skattsins fylgist með og nær, a.m.k. stundum, í skottið á þeim sem stela frá samneyslunni.

Í öðru lagi eru skattsvikafréttir forvörn. Með afhjúpun á skattsvikum eru send skilaboð út í þjóðfélagið; undanskot frá skatt er ekki í lagi. Þau eru ólögleg sérgæska á kostnað almannahags.

RÚV rennur blóðið til skyldunnar að vekja athygli á þeirri meinsemd sem skattsvik eru. Ríkisfjölmiðillinn er fjármagnaður með sköttum. Ekkert skattfé, ekkert RÚV.

Af fyrri fréttum um undanskot frá skatti er ein sem sagði frá útleigu á íbúðum í gegnum Airbnb, 15 m.kr. skattsvik, sagði þar. Nýlegri frétt, tveggja vikna, er að 19 m.kr. skattlagabrot teljist meiriháttar.

RÚV hefur, sem sagt, í gegnum tíðina haft vökult auga með skattsvikamálum og sagt fréttir af þeim, gjarnan í umvöndunartón í fyrirsögn og texta.

En RÚV situr á einni skattsvikafrétt sem varðar fréttamann ríkisfjölmiðilsins sem einnig er formaður Blaðamannafélags Íslands, stéttafélags fréttamanna RÚV.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir játaði 11. september að hafa stungið undan skatti. Líkleg fjárhæð undanskotsins er 10 til 20 milljónir króna.

En nú ber svo við að RÚV þegir fréttina sem gengur ljósum logum í samfélaginu. Höfuðpersóna fréttarinnar situr ritstjórnarfundi á Efstaleiti og semur um kaup og kjör fréttamanna.

Kannski er ný starfsregla á RÚV: við segjum ekki skattsvikafréttir, þær trufla vinnumóralinn á Efstaleiti og gera okkur erfiðara fyrir í kjarabaráttunni.

Nýja fréttareglan myndi staðfesta þann grun að RÚV starfar ekki í þágu almennings. Ríkisfjölmiðillinn er starfræktur alfarið og eingöngu fyrir starfsmenn, vini þeirra og góðkunningja.

Á útvarpsþingi, sem haldið er í dag, hlýtur Stefán Eiríksson útvarpsstjóri að kynna nýja stefnu: Ríkisfjölmiðill í þágu starfsmanna, sem frjálst er að brjóta landslög.

Skildu eftir skilaboð