Hatursglæpur Samtakanna 78

frettinInnlent1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Þriðjudagskvöld í síðustu viku var kærð árás á útlendan mann í miðborg Reykjavíkur. Framkvæmdastjóri Samtakanna 78 sagði á RÚV að um væri að ræða hatursglæp. Maðurinn hafði verið á ráðstefnu samtakanna fyrr um kvöldið.

Lögreglan staðfestir kæruna og kannar hvort um hatursglæp hafi verið að ræða. Ekki er auglýst eftir vitnum en vefmyndavélar skoðaðar án frekari frétta. Miðborgin er vanalega mannmörg á þessum tíma dags og ber þar meira á útlendingum en heimamönnum. Meint hatur gæti verið fóstrað annars staðar í heiminum en á Fróni.

Framkvæmdastjóri Samtakanna 78 sagðist finna til ótta í viðtali við Morgunblaðið, tveim dögum eftir kærða árás. Framkvæmdastjórinn átti fund, bæði með dómsmálaráðherra og forsætisráðherra um öryggismál félagsmanna samtakanna. Jafnframt kemur fram í viðtalinu að þolandi hafi haldið heim á leið þá um morguninn, hálfum öðrum sólarhring eftir atvikið. Ekki eru nánari fréttir að hafa um miska. Merkilegt í ljósi þess að Samtökin 78 stóðu fyrir víðtæku upplýsingaflæði um kærða árás. Var kannski markmiðið að valda ótta og óreiðu fremur en að birta hlutlægar og sannar fréttir af málsatvikum? Víst er að fjölmiðlar éta allt hrátt sem frá samtökunum kemur og spyrja ekki nánar út í efnisatriði.

Á alþingi voru öryggismál félagsmanna Samtakanna 78 rædd og fordæmt að þeir geti ekki um frjálst höfuð strokið í íslenska haturssamfélaginu. Ráðherra kvaðst ,,svolítið hræddur" um líf og limi. Allt þetta vegna atviks sem enn er á huldu hvernig bar að og með hvaða afleiðingum. Enginn er grunaður;  málið er á frumstigi rannsóknar. En ekki skortir stórkarlalegar yfirlýsingar, m.a. frá forsætisráðherra, sem gerir sér far um að ala á ótta og öryggisleysi og ásaka almenning um ofstæki.

Ekki fá allir sérmeðferð ráðherra, þingmanna og fjölmiðla.

Kona varð fyrir hrottalegri líkamsárás um helgina í miðborg Reykjavíkur, að talið var. Síðar kom á daginn einhver rafhjólaði á konuna og skildi hana eftir liggjandi í blóði sínu. Engin samtök taka málstað konunnar, ekki verður þingfundur um líkamsmeiðingarnar. Ráðherrar koma ekki fram í fjölmiðlum til að fordæma og heimfæra upp á gerandann illar hvatir. Mynd af konunni sýnir að hún bar kristið trúartákn, krossinn. Ekki er talað um hatur og ofsóknir í samhengi við atvikið. Konan er þriggja barna móðir og tilheyrir ekki forréttindastétt.

One Comment on “Hatursglæpur Samtakanna 78”

Skildu eftir skilaboð