Börnin okkar og klerkastjórn kynjafræðinga

frettinInnlentLeave a Comment

Rúnar Karl Stefánsson skrifar:

Ég hef verið í þungum þönkum síðustu daga varðandi ákveðin siðaskipti sem eru að eiga sér stað í skólum landsins og vegna bókar frá Menntamálastofnun sem verður notuð í kyn og kynfræðslu fyrir börn á aldrinum 7-10 ára. Sjálfur á ég dætur sem eru ekki langt frá þessum aldri og gerði ég mér því lítið fyrir og las þessa bók allar 165 blaðsíðurnar. Bókin er svo sem ekki alslæm í gegn en í henni finnast mjög vafasamir kaflar t.d. þar sem talað er um að kynlíf sé eins og að leika, orð sem barnaníðingar geta auðveldlega nýtt sér.

Börnum er kennt að vera sexí og þar er sagt orðrétt t.d. "hefur einhver sagt einhvern tímann að þú sért sexí eða æsandi? hvernig leið þér?" Krakkar eru hvattir til þess að fitla við kynfærin sín sem geti verið notalegt og kitlandi. Einnig hvetur höfundurinn krakkana til þess að snerta endaþarmsopið, segir það viðkvæmt sem þýði að gott sé að snetra það. Hér er klárlega verið að tala um kynferðislega örvun. Eftir þennan gjörning er börnunum sagt að nauðsynlegt sé að þvo sér um hendur á eftir. Einnig eru leiðbeiningar í bókinni um það hvernig á að fróa sér. Við skulum ekki gleyma því að hér er verið að tala um börn á aldrinum 7 - 10 ára.

Kynlífsvæðing barna

Ég sé ekki tilganginn með þessari bók annað en að hér sé verið að kynlífsvæða börnin okkar, litlu ljóslampana okkar sem eiga bara vera að leika sér í lego og mömmó og ekkert að spá í kynlífi eða fitla við endaþarminn sinn. Einnig hafa veggmyndir hangið uppi í skólum og þ.á m. fyrir yngstu börnin þar sem börn eru hvött til þess að prófa allskonar kossa þ.m.t tungukossa og taka myndir af sér nöktum en þess má geta að dóttir mín sem er að verða 6 ára kann að hringja og senda sms og mundi ég aldrei leyfa henni að taka myndir af sér naktri.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir forstjóri Menntamálastofnunar sat undir svörum hjá Baldvini Þór Bergssyni í Kastljósi til þess að ræða þessa umdeildu bók. Þar talar hún um að gott sé að börnin uppgötvi líkama sinn og kynlíf í gegn um þessa bók í staðin fyrir á tik tok og öðrum samfélagsmiðlum þar sem hlutirnir eru alvarlegri. Ég er ekki endilega sammála því. Ef barnið mitt mun sjá klám á netinu sem það mun örugglega gera er ég nokkuð viss um að það mun ekki tráma barnið mitt en það gæti þessi bók hinsvegar gert. Það er eitt að horfa á klám og annað að hvetja börn til ljótra athafna. Það er stigsmunur þarna á.

Í bókinni er búið að skipta út stelpa og strákur fyrir líkami með píku og líkami með typpi og sagt að þegar við fæðumst sé okkur úthlutað kyn.

Ekki minnst einu orði á hin eiginlegu kyn

Ekki minnist höfundurinn einu orði á hin eiginlegu kyn, sem virðast vera bannorð ásamt fleiri orðum tengd kynjunum tveimur í íslenskum skólum. Svona bannfæringar búa til togstreitu á milli skóla og heimila sem eru ekki þáttakendur í frekar lúmskum siðaskiptum sem rekin eru áfram af klerkastjórn kynjafræðinga. Í stjórninni sitja einnig ráðgjafar frá samtökunum '78 og skólastjórnendur sem gegna lykilhlutverkum. Undirstaða siðaskiptanna eru litlu börnin okkar og eru þau mótuð eins og leir með gervivísindum kynjafræðinnar.

Andspyrna þeirra foreldra sem ekki trúa og eru á móti innrætingu klerkanna er ekki vel liðin og til þess að kæfa alla umræðu segjast klerkarnir vera að berjast gegn fordómum og hatri og er öll gagnrýni sér í lagi óþægilegur sannleikur flokkuð sem hatursorðræða. Svona óttastjórn veldur því að fólk verður hrætt við að segja það sem öllum er augljóst, t.d. átti norsk samkyhneigð kona að nafni Tonje Gjevjon yfir höfði sér þriggja ára fangelsisdóm fyrir þann "hræðilega glæp" að segja að karlmenn geta ekki verið lesbíur. Málið var hinsvegar dregið til baka eftir að almenningur í Noregi snerist gegn klerkunum. Klerkastjórnir eru vitanlega ekki lýðræðislega kosnar og því mjög popúlískar þar sem múgurinn er þeirra aðal vopn.

Ekki dirfast að gagnrýna „klerkastjórnina“

Ef einhver dirfist til að gagnrýna klerkastjórnina með opinberum hætti verður sá hinn sami úthrópaður af háværum lýð og honum refsað með ljótum ærumeiðingum, valdbeitingum og oft atvinnumissi. Allt fer þetta fram fyrir opnum tjöldum og þeir sem hafa sig mest í frammi eru oftar en ekki hópar sem berjast gegn ofbeldi.

Ég og konan mín trúum því að kynin séu einungis tvö og guð hafi skapað heiminn. Megum við það? Megum við kenna börnunum okkar það? Megum við vera öðruvísi en hinir? Eða er verið að þvinga alla sama veginn í nafni "fjölbreytileika"?

Á RÚV um daginn sá ég umræðu um samtökin '22 og hatursorðræðu þeirra þar sem fréttamaður stöðvarinnar sagði okkur sleginn á svip að samtökin héldu því fram að kynin væru bara tvö. Er það orðinn hatursglæpur? Erum við kona mín hatursglæpamenn? Er fréttamennska eins og þessi þar sem fólk er flokkað sem hatursglæpamenn fyrir það eitt að óhlýðnast gervivísindum kynjafræðinga kannski pínu partur af þessu umtalaða bakslagi?

Stofnandi samtakanna '78 setur spurningarmerki við Samtökin

Ég las viðtal fyrir skemmstu við Hörð Torfason stofnanda samtakanna '78. Hörður setur stórt spurningarmerki við Samtökin ’78 í dag en eftir yfirtökuna var upprunalegu gildunum ýtt út að hans sögn. Einnig talar hann um að skoða þurfi alvarlega hvað sé að gerast þarna því að samtökin séu rekin með opinberu fé sem er allt annað en eðlilegt. Jafnframt sagði hann að hann geti ekki séð að fólk verði fyrir sérstökum fordómum í dag vegna samkynhneigðar.

Ég held að þetta sé alveg rétt hjá Herði og ég held að samtökin megi líta sér nær hvað bakslagið varðar. Þessi pistill verður örugglega flokkaður sem hatursorðræða en á móti kemur að þessi pistill hefði aldrei verið skrifaður ef klerkarnir væru ekki að innræta börnin okkar með sínum gervivísindum. Þessi aukna andspyrna (bakslagið umtalaða) snýst nefnilega einungis um börnin okkar eða með öðrum orðum þetta snýst um ást en ekki hatur.

Svo er það annað, það þorir enginn að segja neitt hvorki þingmenn né fjölmiðlar. Ef þú ert ekki með rétta skoðun ertu sendur í gúlagið og þarft að biðjast afsökunar. Afsökunarbeiðnin er svo tekin fyrir hjá alríkisnefndinni sem saman stendur af þekktum netníðingum. Fyrir þennan pistil verður mér örugglega sagt að skríða aftur undir steininn minn, ég kunni ekki að lesa mér til gagns, sé að taka hlutina úr samhengi, verð kallaður hægri öfgamaður, sakaður um upplýsingaóreiðu, lygar, fordóma, o.s.frv. Svona tal kemur klárlega frá fólki sem notar gaslýsingar sem hafa einmitt verið mikið notaðar hér í athugasemdum varðandi téða bók þar sem öllu er snúið á hvolf. Að gaslýsa er þekkt aðferð í ofbeldissamböndum þar sem markmiðið er að láta manneskjuna efast um málstað sinn og veruleika. Ég hræðist ekki þetta Woke-lið og mun ekki biðjast afsökunar á þessum pistli. þú mátt deila honum að vild.

Vinstri elítan þyrlar ryki í augu fólks

Mikið hefur borið á því að vinstri elítan sé að þyrla ryki í augu fólks með því að gaslýsa áhyggjufulla foreldra. Ég skora því á ykkur að mynda ykkur skoðun með því að kynna ykkur málið sjálf. Bókin umrædda er öllum aðgengileg.

Að endingu vil ég minnast á þjóðfundinn fræga árið 1851 en þá risu þingmenn upp og mæltu í einu hljóði: „Vér mótmælum allir.“ Þessi orð hanga upp í Alþingishúsinu en eiga þó ekki við í dag. Í dag þorir enginn að mótmæla fyrir utan einn flokk sem er ekki popúlískur og þorir að standa með sjálfum sér, sá flokkur heitir Miðflokkurinn og er eini flokkurinn sem lætur sér þessi mál varða þar sem litlu börnin okkar eru undir. Börn eru ekki sexí og börn eru ekki kynverur nema í heimi ljótra manna. Stöndum með börnunum okkar og stöðvum þessa klikkun.

Guð blessi þessa þjóð!

Höfundur er faðir barna á grunnskólaaldri.

Skildu eftir skilaboð