Ferðin frá myrkri til laglínu: Upprisa Gunnars Inga

frettinInnlent, TónlistLeave a Comment

Töfrar tónlistar endurspegla oft sálarlíf listamanna; flæða yfir hæðir og lægðir sálarinnar og fanga tungumál hjartans sem engin landamæri þekkir. Með sanni má segja að Gunnar Ingi, tónskáld sem kemur fram sem tónlistarmaðurinn Major Pink sé á örri uppleið veiti einlæga og óslípaða innsýn í eigin vegferð að föðurhlutverkinu, bata frá virkri fíkn og loks, þá hjartnæmu sögu sem býr að baki titillagi nýútkominnar plötu sem ber heitið Nothing but Love.

Textinn fæddist við yfirþyrmandi ást og ótta á sömu stundu

„Ég samdi textann að titillagi plötunnar sömu nótt og ég komst að því að ég væri að verða faðir,“ segir Gunnar og lýsir því hvernig lífið breyttist í einni andrá við fréttirnar. „Skyndilega sá ég lífið í öðru ljósi. Ég fékk þessa yfirgnæfandi tilfinningu af ást en á sama tíma fylltist ég af ótta. Hvað ef barnið færi sömu leið og ég? Hvað verður um barnið ef hann eða hún verður eins og ég? Því ég var ekki í lagi á þessum tíma. Árið var 2018 og síðan þá hef ég þurft að leita mér hjálpar á hverju ári, inni á stofnun,“ heldur ungi tónlistarmaðurinn einlægur áfram. „Ég hef farið tvisvar sinnum inn á Vog og áfram inn á Vík á vegum SÁÁ, ég fór í þriggja mánaða meðferð hjá Hlaðgerðarkoti Samhjálpar og nú síðast fór ég í sex mánaða meðferð á Krýsuvík, eftir að hafa flúið til Eistlands í þeirri von að sjúkdómurinn myndi ekki elta mig þangað, en fíknin náði mér líka þar.“

Hefur alltaf sungið lagið fyrir soninn þegar hann svæfir

Textinn sem Gunnar samdi fyrir þá ófæddan son sinn hefur fylgt þeim feðgum frá fyrstu stundu, laglínan var alltaf til staðar undirspilið og tilfinningin í laginu var hann í þó nokkurn tíma að fanga, þó ungi tónlistarmaðurinn hafi sungið lagið fyrir son sinn í hvert einasta sinn sem hann svæfði barnið.  „Lagið heitir „Nothing but Love og er titillag samnefndrar plötu, en sonur minn kallar tónverkið „Villa lagið“. Þó ég hafi alltaf sungið lagið fyrir son minn þegar ég hef verið að svæfa hann, á þeim fimm árum síðan ég samdi textann, gat ég ekki komið undirspilinu saman. Ég reyndi oft að setjast niður en ég var í of miklu andlegu ójafnvægi, hvort sem ég var edrú eða ekki. Þegar ég var edrú þá leið mér of illa og þegar ég var undir áhrifum þá var ég of dofinn.“

Opinn meðferðarfaðmur Krýsuvíkur tendraði melódískan bata

Tónverkið Nothing but Love krafðist þess að Gunnar skilgreindi eigin sársauka, horfðist í augu við eigin vanmátt og fyndi innra jafnvægi. „Ég þurfti fyrst að læra af eigin mistökum til að geta skilið mína eigin tónlist almennilega. Þannig varð endurtekið lífsþema Gunnars sem fólgið var í leit að lausn við virkri fíkn. Að lokum var opinn faðmur krýsuvíkur sá neisti sem kveikti melódískan loga batans og fæddi loks af sér nýútkomna tónlist Major Pink.

Fékk leyfi til að breyta herberginu í örsmátt hljóðver

Þegar svikulli hækju hugbreytandi efna loks sleppti í sex mánaða meðferð á Krýsuvík, flæddu laglínurnar loks fram. „Ég er svo þakklátur Krýsuvík, því ég fékk að breyta litla herberginu mínu þar í lítið hljóðver. Þarna fékk ég loks að æfa mig í þeirri list að skapa tónlist allsgáður, án nokkurra hugbreytandi efna og ég fann loksins að lagið kom fram – alveg frá hjartanu, meðan ég var í mínu allra besta jafnvægi.“

Þakklátur fyrir allar meðferðarstöðvar á Íslandi

Gunnar er nú útskrifaður úr meðferð og hefur verið edrú í átta mánuði samfleytt. „Þetta er lengsti tími sem ég hef nokkru sinni  náð,“ segir Gunnar og þakklætið leynir sér ekki. „Í dag snýst líf mitt um að vera góður faðir og að hjálpa þeim sem hafa ratað ranga leið í lífinu að snúa við blaðinu. Ég er svo þakklátur fyrir allar meðferðarstöðvar landsins, ég svo þakklátur öllu því góða fólki sem þar starfar og ég er svo þakklátur meðferðarsystkinum mínum. SÁÁ, Hlaðgerðarkoti og Krýsuvík færðu syni mínum pabba sinn aftur og færðu foreldrum mínum son sinn aftur.“

Gunnar Ingi með syni sínum.

„Ég elska þig líka, pabbi“

Gunnar segir að þó fyrst og fremst sé hann edrú fyrir eigin lífshamingju sé ómetanlegt að geta verið til staðar með öðrum hætti í dag, en áður var, meðan hann glímdi enn við virka neyslu. „Ég get loks veitt syni mínum þá skilyrðislausu ást sem ég skrifaði um og samdi á sínum tíma, en skildi ekki sjálfur á þeim tíma sem textinn fæddist og rúsínan í pylsuendanum í lífi mínu eru orðin sem ég heyri þegar ég sé son minn brosa til mín og segja – Ég elska þig líka, pabbi.“

Hér má hlusta á tónlist Gunnars:

Skildu eftir skilaboð