Þórður Snær gagnrýnir frekjuvald Sigríðar Daggar

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sigríður Dögg Auðunsdóttir fréttamaður RÚV og formaður Blaðamannafélags Íslands sveik undan skatti tekjur sem hún hafði af Airbnb-útleigu. Starfsemin var víðtæk. Sigríður Dögg leigði út fjórar íbúðir á Suðurgötu 8 í miðbænum. Samtals voru 8 svefnherbergi í íbúðunum fjórum með svefnplássi fyrir 28 manns. Miðað við umfangið er líklegt undanskotin hafi numið um eða yfir 100 milljónum króna.

Sigríður Dögg játaði skattsvikin í færslu á Facebook 11. september. Hún sagði:

Við hjónin fengum endurálagningu opinberra gjalda vegna útleigutekna fyrir nokkrum árum og greiddum þá skatta.

Síðan er liðinn nær mánuður. Ekki hefur Sigríður Dögg svarað fjölda fyrirspurna um að útskýra nánar umfang og eðli skattsvikanna, hvað þau náðu yfir langan tíma, hvaða fjárhæðir var um að ræða og í hverju ,,endurálagning" skattsins fólst. Blaðamenn hafa látið gott heita að formaður stéttafélags þeirra og fréttamaður á RÚV neiti að veita upplýsingar um skattsvikin.

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Heimildarinnar, sem sjálfur er sakborningur og nýtur friðhelgi fjölmiðla, gagnrýnir Sigríði Dögg harkalega í leiðara sem birtist í gær. Leiðarinn fjallar um frekjurnar í samfélaginu sem komast upp með að svipta aðra frelsi og lífsgæðum í krafti stöðu sinnar sem stjórnendur umræðunnar. Þórður Snær nefnir ekki Sigríði Dögg á nafn en segir um mál formanns Blaðamannafélags Íslands:

Embætti skattrannsóknarstjóra var lagt niður og gert að skúffudeild hjá Skattinum. Nú semja menn frelsisins sig bara frá því þegar skattsvik uppgötvast í stað þess að verða ákærðir.

Það var einmitt það sem Sigríður Dögg gerði. Hún slapp við ákæru, sem aðrir sættu fyrir sambærileg skattsvik. Í krafti þess að vera fréttamaður á RÚV og formaður Blaðamannafélags Íslands býr Sigríður Dögg að umtalsverðu frekjuvaldi í samfélaginu. Frekjuvaldið nýtti hún sér til að komast undan opinberri ákæru fyrir skattsvik. Opinbert sakamál var gert að einkamáli sem mátti fela fyrir almenningi. Sigríður Dögg fær laun frá skattborgurum en var staðin að verki að stela undan skatti. Hrokinn er öllum augljós.

Óneitanlega slær Þórður Snær nýjan tón í umræðunni um stöðu blaðamanna og fjölmiðla. Hann viðurkennir að blaðamenn hafi beitt stöðu sinni til persónulegs ávinnings á kostnað almannahagsmuna. Ekki alveg kominn þangað að játa að sumir blaðamenn eru réttir og sléttir afbrotamenn. Það væri eins og að nefna snöru í hengds manns húsi Heimildarinnar.

Þórður Snær er sem sagt ekki líklegur til að leiða siðbótarhreyfingu blaðamanna. Sjálfur er hann sakborningur í lögreglurannsókn á alvarlegum glæpum; byrlun, gagnastuldi og broti á friðhelgi einkalífs. En um ritstjóra Heimildarinnar má segja að stundum ratast kjöftugum satt orð í munn.

Skildu eftir skilaboð